asi

Verðlagseftirlit ASÍ tók saman hvað það kostar að æfa fimleika fyrir 8-10 ára börn haustið 2015 í u.þ.b 4. klst. á viku. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verðinu eða 134%. Dýrast er að æfa hjá Íþróttafélaginu Gerplu en það kostar 58.197 kr. en ódýrast hjá Íþróttafélaginu Hamri 24.889 kr. sem er 33.308 kr. verðmunur eða 134%.

Töluverðar hækkanir frá því í fyrra
Gjaldskrá félaganna hefur aðeins staðið í stað hjá tveimur félögum af 15, en þau félög eru Gerpla og Hamar. Restin af félögunum hafa hækkað gjaldskrána um 4-19%. Mesta hækkunin er hjá Aftureldingu, úr 38.000 kr. í 45.375 kr. eða um 19%, Stjarnan og Ármann hafa hækkað um 15%, Fimleikafélag Akraness og Fylkir um 10%, Fimleikafélag Akureyrar og Íþróttafélagið Höttur um 9% og Fimleikafélagið Björk og Ungmennafélagið Selfoss um 8%. Grótta, Fjölnir, Keflavík og Fimleikafélagið Rán hækka um 4-5%.

Verðlagseftirlitið bar saman gjaldskrá fyrir 8-10 ára börn sem æfa u.þ.b. 4. klst. á viku, en tekinn er saman æfingakostnaður fram að jólum (4. mánuðir). Ekki er tekið tillit til þess hvaða fimleika er verið að æfa (t.d. almenna, hóp- eða áhalda). Öll félögin eiga það sameiginlegt að setja saman gjaldskrá eftir aldri og fjölda klukkustunda sem æft er í viku hverri.

Auk þess ber að athuga að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum félaganna er ekki metin. Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til fjáraflanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum. Hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.

Sjá nánar í meðfylgjandi töflu.(smella hér)

Hvað kostar að æfa handbolta í vetur?
Verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á gjaldskrám fyrir börn og ungmenni hjá 16 fjölmennustu handboltafélögum landsins fyrir veturinn 2015/16. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði íþróttafélaganna en bornir voru saman 4.,6. og 8. flokkur. Mestur verðmunur í samanburðinum er á mánaðargjaldinu fyrir 4. flokk eða 119%.

Öll félögin bjóða upp á æfingar fyrir 8. flokk (6 og 7 ára) en dýrasta mánaðargjaldið er 6.883 kr. hjá ÍBV en ódýrasta gjaldið er 3.182 kr. hjá HK sem er 3.702 kr. verðmunur eða 116%.
Í 6. flokki (10 og 11 ára) er dýrasta mánaðargjaldið 8.250 kr. hjá Fjölni og ÍR en ódýrasta gjaldið er 4.000 kr. hjá Umf. Selfoss sem er 4.250 kr. verðmunur eða 106%.
Dýrast er að æfa í 4. flokki (15 og 16 ára). Í þeim flokki er dýrasta mánaðargjaldið 12.500 kr. hjá Fjölni en ódýrasta gjaldið er 5.700 kr. hjá Val sem er 6.800 kr. verðmunur eða 119%.

Aðeins 2 félög með sömu gjaldskrá og í fyrra fyrir 6. flokk
Af þeim 13 félögum sem borin eru saman á milli ára hafa 11 þeirra hækkað hjá sér ársgjaldið síðan í fyrra. Mesta hækkunin er hjá Umf. Selfoss úr 27.000 kr. í 36.000 kr. eða um 33%, þar á eftir kemur Knattspyrnufélagið Víkingur með hækkun úr 56.000 kr. í 70.000 kr. eða um 25%, árgjaldið hjá FH hefur hækkað úr 55.000 kr. í 66.000 kr. eða um 20%,
Stjarnan, Afturelding og ÍBV hækkuðu gjaldskrána um 10-11%, HK, Fram, Grótta og Haukar hækkuðu gjaldskránna um 4-7% en minnsta hækkunin er hjá Fylki um 2%. Gjaldskráin hjá er óbreytt hjá KA og Þór á Akureyri.

Tekið skal fram að hér er aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum íþróttafélaganna er ekki metin. Ekki er tekið tillit til hvað félögin bjóða upp á margar æfingar í viku, en ekki er mikill munur á fjölda æfinga milli félaga. Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til fjáraflanna sem íþróttafélögin standa fyrir eða styrkja frá sveitarfélögunum. Hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldskránum sem bornar eru saman. Taka skal fram að árgjaldið hjá ÍBV er bæði fyrir handbolta og fótbolta. Misjafnt er hvort æfingatímabilið er 9, 10 eða 11 mánuðir hjá félögunum. Sum félaganna bjóða upp á afslátt ef allur veturinn er greiddur á sama tíma.

Sjá nánar í töflu.(smella hér)

rafidnadarsambandid

Kjarasamningur Rafiðnaðarsambands Íslands vegna Félags íslenskra símamanna og Símans hf. og dótturfélaga var undirritaður þann 14. október sl. Atkvæðagreiðsla hefst í dag. Kjörgögn eru send til starfsmanna í bréfpósti á lögheimili starfsmanna og ættu þau að berast fljótt. Atkvæðagreiðslan er rafræn. Allar leiðbeiningar fylgja með í umræddum bréfpósti. Við hvetjum starfsmenn til að hafa samband við skrifstofu RSÍ ef þeir lenda í vandræðum við að greiða atkvæði eða ef bréfið berst þeim ekki. Atkvæðagreiðslu lýkur kl. 16.00 miðvikudaginn 28. október. 

Hér má nálgast kjarasamninginn.

Hér má greiða atkvæði.

Logo vinnueftirlit
Góð vinnuvernd - vinnur á streitu
 

Ráðstefnan verður haldin á Grand Hótel, Gullteigi, fimmtudaginn 22. október frá kl. 13 - 16
Ráðstefnustjóri: Ásta Snorradóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.
Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.
Kaffi og kleinur í hálfleik.

Dagskrá ráðstefnunnar (smella hér)

rafidnadarsambandid

Í gær lauk atkvæðagreiðslu um kjarasamning RSÍ og Símans og dótturfélaga.

Á kjörskrá voru 107 og kusu 75 eða 70,1%.

Já sögðu 55 eða 73,33%.
Nei sögðu 18 eða 24%.
2 tóku ekki afstöðu eða 2,67%.

Samningurinn er því samþykktur.

rafidnadarsambandidSkrifstofa RSÍ verður lokuð eftir hádegi fimmtudaginn 8. október vegna trúnaðarmannaráðstefnu RSÍ. Hvetjum við félagsmenn til þess að senda tölvupóst á starfsmenn ef þörf er á aðstoð eða ráðleggingum, rsi@rafis.is. Einnig verður takmörkuð þjónusta á kjarasviði á föstudag vegna ráðstefnunnar. Hefðbundinn opnunartími og starfsemi verður á mánudag.

RioTintoÍ dag er baráttudagur verkalýðsfélaga víðsvegar um heiminn þar sem augun beinast að Rio Tinto. Rio Tinto hefur unnið að því með grimmum hætti að fækka fastráðnum starfsmönnum sinum og vilja frekar fá starfsmenn verktaka á hverjum stað til þess að sinna ýmsum verkefnum í verksmiðjum sem og námum. Á sama tíma dregur fyrirtækið markvisst úr réttindum starfsfólks sem á heimtingu á að fá meira starfsöryggi, góðan aðbúnað og mannsæmandi laun.

En þá spyrja sumir, “Af hverju geta starfsmenn ekki notið sömu réttinda hjá verktaka?”. Svarið við þessu er mjög einfalt því í fullkomnum heimi þá ætti það að vera mögulegt EN þegar svo stór aðili er á smáum markaði getur viðkomandi risi beitt ýmsum aðferðum til að þrýsta verði niður með útboðum sem getur verið langt umfram eðlilega samkeppni, eins og raun ber vitni. Ætli aðilar sér að lifa í slíku umhverfi þá verða þeir nánast að taka því sem boðið er til greiðslu fyrir verk og sætta sig við það að stóri aðilinn í þessu hagnist á því að nýta krafta viðkomandi verktaka.

Námu og álrisinn, Rio Tinto, vill því lágmarka óeðlilega mikið það sem fyrirtækið skilur eftir í hverju samfélagi. Rio Tinto vill losna undan því að greiða sambærileg laun og greidd eru í viðkomandi samfélagi og losna þannig undan sem flestum skuldbindingum. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja á að vera á þann veg að verið sé að hámarka gæði fyrirtækja og samfélagsins í kring en alls ekki á kostnað launafólks!

Við þurfum því að spyrja okkur sem samfélag, ætli stjórnendur fyrirtækja eingöngu að græða sem mest, sama hvað það kostar, er það virkilega það sem íslenskt samfélag vill? Vilja Íslendingar sætta sig við það að íslensk náttúra sé nýtt á þann veg að sem minnst skili sér til samfélagsins?

Á síðustu mánuðum höfum við fengið að kynnast þessum áformum námu- og álrisans til þess að losa sig við sem flestar skuldbindingar í samfélaginu. Risinn vill fá að kaupa þjónustu hér á landi á lægstu mögulegu kjörum sem bjóðast og raunar helst langt undir því. Risinn vill ekki þurfa að hafa starfsmenn í fastri vinnu því erfitt reynist að lækka laun fólksins án þess að brjóta kjarasamninga. Það er hins vegar auðveldara að níðast á verktökum.

Ætlar íslenskt samfélag að leyfa námu risanum að mjólka íslenskt samfélag með því að nýta mannauð og náttúru án sanngjarns endurgjalds?

Er þetta eðlileg framkoma við starfsmenn? Viljum við sætta okkur við framkomu sem þessa í þróuðu ríki eins og á Íslandi? Viljum við að risi eins og þessi komi fram með þessum hætti í vanþróuðum ríkjum þar sem fólk á erfiðara að svara fyrir sig? NEI!

Í dag, miðvikudaginn 7. október 2015 kl. 12:00, verður safnast saman fyrir utan skrifstofuhúsnæði Rio Tinto (ISAL) þar sem við ætlum að sýna starfsmönnum ISAL samstöðu! Hvetjum við alla að gefa sér tíma til þess að mæta á svæðið og styðja við bakið á okkar fólki!

RioTinto

Stéttarfélög um allan heim grípa til aðgerða í dag, 7. október,til þess að krefjast góðra, öruggra starfa hjá Rio Tinto.
Rio Tinto er í auknum mæli að nýta sér lausráðna starfsmenn til vinnu um allan heim. Vinna lausráðinna starfsmanna telst t.d. vera tímabundin, óformleg verktaka vinna sem oftast er
lágt launuð, utan kjarasamninga og hættuleg.
Þetta er ógnun við starfsmenn Rio Tinto, stéttarfélögin og samfélagið í heild sinni.
Það má geta þess að á þessu ári hafa orðið banaslys hjá Rio Tinto í Kanada, Chile, Gíneu, Indónesíu, Madagaskar og Suður Afríku.

Starfsfólk og stéttarfélög hjá Rio Tinto um allan heim krefjast þess að fyrirtækið :
• Hætti að skipta út fastráðnum starfsmönnum fyrir lausráðið fólk
• Veiti örugg, vellaunuð störf með góðum kjörum
• Þrýsti á byrgja og undirverktaka til að virða réttindi starfsmanna,að meðtöldum réttindum er varða heilsu- og öryggismál.
• Virði réttindi starfsmanna og stéttarfélaga til þýðingarmikillar þátttöku í málum er varða heilsu og öryggi.

Nánari upplýsingar um þessa herferð er að finna á www.facebook.com/groups/riotintocampaign

rafidnadarsambandidÍ dag lauk atkvæðagreiðslu um kjarasamning RSÍ við Félag atvinnurekenda (FA). 

Á kjörskrá voru 157 en afstöðu tóku 54 eða 34,4%. Atkvæði féllu þannig:

Já sögðu 30 eða 55,56%
Nei sögðu 23 eða 42,59%
Tóku ekki afstöðu 1 eða 1,85%

Samningurinn telst því samþykktur.

orlofslogOrlofsvefurinn opnar kl.9.00 þann 1.nóvember 2015, fyrir bókanir í orlofshús innanlands fyrir tímabilið janúar til maí 2016 (undanskilin er páskavikan 23-30.mars 2016).  Í gildi er reglan „fyrstur kemur-fyrstur fær“.

Vekjum athygli á því að leiguverð í orlofshúsum er með 50% afslætti þriðjudaga til og með fimmtudags, utan úthlutunartímabila (þ.e. páskavika og sumartímabil).

Páskavikan 23.mars til 30.mars 2016.  Þessi vika fer í umsóknarferli og hægt verður að senda inn umsóknir á orlofsvefnum á tímabilinu 25.janúar til 25.febrúar 2016. Úthlutun fer fram að umsóknartíma liðnum og ræðst niðurstaða af punktastöðu umsækjenda. Niðurstaða úthlutunar verður tilkynnt umsækjendum í tölvupósti.

Sumar 2016, opnað verður fyrir umsóknir um orlofsdvöl n.k. sumar þann 1.mars 2016 og tekið við umsóknum til 31.mars 2016. Umsóknarferlið verður á orlofsvefnum og úthlutun rafræn að umsóknartíma liðnum. Nánar auglýst á heimasíðunni rafis.is 

 

Nýtt orlofshús á Flúðum:

Nú í lok september 2015 tökum við í notkun nýtt parhús að Flúðum í Hrunamannahreppi. Húsið er í þéttbýliskjarnanum á Flúðum og stendur við Austurhof nr.8b. Þegar ekið er sunnan að inn að Flúðum frá Skeiða og Hrunamannavegi, er beygt til hægri niður Selsveg (Verslun og hótel er á horninu) og síðan ekin önnur gata til hægri; Högnastígur;  Austurhof er þar fyrsta gata til vinstri.

Húsið er  u.þ.b. 150 fm. að stærð, þrjú svefnherbergi, stór stofa, eldhús, bað og þvottahús innangengt er í bílskúr búinn leiktækjum m.a. borðtennisborði. Svefnpláss er fyrir 8 manns og auk þess ferða-barnarúm.  Rúmstæðin eru tvö hjónarúm ( 160x200 cm hvort) og tvær kojur þ.e. fjögur svefnstæði ( 90x200cm hvert) Húsið er fullbúið því sem þarf til heimilishalds og allt hið glæsilegasta, með útihúsgögnum, gasgrilli og heitum potti á veröndinni. Hundar verða leyfðir í húsinu, skylt er að hafa þá í bandi utandyra og gæta þess vel að þrífa upp eftir þá. Opið er fyrir bókanir í húsið á orlofsvefnum.

Undirflokkar

whiteRafræn leynileg atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls er hafin meðal félagsmanna í aðildarfélögum Rafiðnaðarsambands Íslands sem starfa á almennum kjarasamningi RSÍ og Samtaka atvinnulífsins. Atkvæðagreiðslur standa einnig yfir í öðrum félögum iðnaðarmanna.

Félagsmenn eru spurðir hvort þeir vilji að boðað verði allsherjarverkfall sem standi frá miðnætti aðfararnótt 10. júní til miðnættis að kvöldi 16. júní 2015 og til ótímabundins allsherjarverkfalls frá miðnætti aðfararnótt 24. ágúst 2015. Verkfall mun eingöngu koma til framkvæmda ef þörf krefur og ef kjarasamningar hafa ekki verið undirritaðir. Atkvæðagreiðslu lýkur þann 1. júní kl. 10.

Þeir félagsmenn sem starfa á almenna samningnum fá bréf sent heim til sín með upplýsingum um atkvæðagreiðsluna og kóða sem þeir geta notað til þess að greiða atkvæði. Fái einhver ekki bréf sem telur sig eiga rétt á að kjósa er hægt að hafa samband við skrifstofu RSÍ.

Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur félagsmenn eindregið til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og sýna hug sinn í verki. Góð þátttaka og góð samstaða sendir mikilvæg skipaboð að samningaborðinu. Við viljum að íslenskur vinnumarkaður verði samkeppnishæfur við Norðurlöndin og að fólk geti lifað mannsæmandi fjölskyldulífi af dagvinnulaunum. Með því að nýta samtakamáttinn getum við náð markmiðum okkar og fengið sanngjarnar kjarabætur.

Hér má nálagast ýmsar upplýsingar um kjaraviðræður 2015.

Hér er hlekkur á kosningasíðu.          

Tökum öll þátt í atkvæðagreiðslunni!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?