Rafmennt

Rafmennt2

Rafiðnaðarmenn hafa byggt upp og rekið umfangsmikið endurmenntunarkerfi frá árinu 1975. Þann 20. september 1985 stofnuðu endurmenntunarnefndir rafiðna og rafeindavirkja Rafiðnaðarskólann (RS).

Lengst af báru nefndirnar ábyrgð á fræðslustarfinu, en árið 1993 var skólanefnd Rafiðnaðarskólans formlega stofnuð og bar hún þá ábyrgð á starfseminni upp frá því.

Árið 2004 var rekstri skólans breytt í hlutafélag "Rafiðnaðarskólinn ehf" þar sem hluthafar voru tveir, Rafiðnaðarsamband Íslands  (RSÍ) og Samtök rafverktaka  (SART), hvor um sig með 50% hlut.

Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins (FSR) var stofnuð árið 1996 til að halda utan um umsýslu með sveinsprófum og námssamningum ásamt því að vera leiðandi í endurskoðun á grunnnámi rafiðnaðarmanna. Skrifstofan sá einnig um að kynna nám í rafiðnaði fyrir ungu fólki og aðstoða það með frítt námsefni. Á vefnum rafbok.is er allt námsefni sem notað er til kennslu í rafiðngreinum í framhaldsskólum aðgengilegt nemendum, þeim að kostnaðarlausu.

Á vordögum 2018 ákváðu stjórnir RS og FSR að sameina þessi tvö félög í eitt undir merki RAFMENNTAR fræðsluseturs rafiðnaðarins.  Öll verkefni sem áður féllu undir RS og FSR voru færð yfir til RAFMENNTAR.

Breytingunum er ætlað að efla þjónustu við félagsmenn og nýta betur það fjármagn sem kemur inn í menntasjóð til að auka fjölbreytileika nýrra námskeiða og kynningu á nýrri tækni. RAFMENNT er í jafnri eign RSÍ og SART.

RAFMENNT sinnir nú þeim samningum sem gerðir hafa verið við mennta- og barnamálaráðuneyti, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og fleiri aðila vegna; framkvæmd sveinsprófa, umsjón með raunfærnimati og fleiri verkefna sem snúa að endurmenntun og kynningu á námi rafiðnaðarmanna og tæknifólks í rafiðnaði auk umsjón með rafbókinni.

RAFMENNT fræðslusetur rafiðnaðarins er til húsa að Stórhöfða 27 á 2. hæð og þar starfa í dag 10 manns. Þangað skulu berast erindi er varða; umsóknir um sveinspróf, raunfærnimat og önnur mál er varða námskeið fyrir félagsmenn. Á vefsíðu RAFMENNTAR má finna upplýsingar um starfsemina , eyðublöð er varða sveinspróf, námssamninga og raunfærnimat.

 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?