Kjaramál

Kjaramal2

Kjaramál eru mikilvægasti þátturinn í starfsemi stéttarfélags og það sem skiptir félagsmenn mestu máli.  Þannig skipa kjaramálin stóran sess í starfi RSÍ. Gerð kjarasamninga er þar stærsti þátturinn en auk þess ályktar sambandið um hin ýmsu mál sem tengjast launafólki í landinu og kemur við kjör þess. Mikilvægur þáttur í starfinu er að veita tölulegar upplýsingar um launataxta og meðallaun og annað þess háttar.

RSÍ semur fyrir aðildarfélögin
Allir kjarasamningar rafiðnaðarmanna eru gerðir af RSÍ fyrir hönd aðildarfélaga. sambandið er með yfir 20 kjarasamninga við atvinnurekendur, auk nokkurra vinnustaðasamninga. Kauptaxtar eru reiknaðir út af skrifstofunni og sendir út til félagsmanna þegar breytingar verða á þeim. Þá fylgja að jafnaði margskonar aðrar upplýsingar um kjarasamningana.
Kjarasamningar rafiðnaðarmanna eru nokkuð misjafnir eftir því hvar unnið er, helst vegna ýmiss konar staðbundinna réttinda eða framleiðslubónusa tengdum vinnustaðnum.
Kjarasamningar fjalla um margt fleira en einungis um laun. Mennta-, orlofs-, trygginga-, vísitölu-, vaxta- og lánamál koma til umfjöllunar þegar sest er að samningum með atvinnurekendum og stundum ríkisvaldi. Í sumum tilvikum eru þeir það flóknir að til samningagerðarinnar þarf sérfræðinga t.d. hagfræðinga og lögfræðinga. Sú þjónusta er sótt til ASÍ og Kjararannsóknarnefndar.
Uppsagnarfrestur rafiðnaðarmanna er nokkuð misjafn eftir því eftir hvaða samningi þeir vinna, en lágmarksuppsagnarfrestur er einn mánuður. Eftir 3 ár hjá sama vinnuveitanda 2 mánuðir og eftir 5 ár hjá sama vinnuveitanda 3 mánuðir. Sami uppsagnartími gildir ef breyta á kjörum starfsmanns.
Segja verður upp skriflega, hvort sem um er að ræða uppsögn úr starfi eða á kjörum, og er uppsagnartíminn talinn frá næstu mánaðarmótum eftir uppsögn. Uppsagnartími er jafngildur hvort sem launamaður eða atvinnurekandi segir upp.
Til að átta sig á réttindum samkvæmt kjarasamningi þarf félagsmaður því að vita eftir hvaða kjarasamningi hann er ráðinn. Í ráðningarsamningi starfsmanns eiga þessar upplýsingar að koma fram, en réttindi eru mismunandi eftir kjarasamningum.

Ákvæðisvinnustofa rafiðna
RSÍ og LÍR hafa gert samning um að alla vinnu við nýlagnir skuli vinna í ákvæðisvinnu. Félögin standa að rekstri Ákvæðisvinnustofu Rafiðna sem sér um uppgjör á verkum unnum samkvæmt ákvæðistaxtanum. Ákvæðistaxtinn hefur skilað töluverðum bónus til rafiðnaðarmanna í gegnum árin, auk þess að verkkaupar hafa með notkun taxtans góða tryggingu fyrir verði og gæðum raflagnarinnar.

Sjá heimasíðu Ákvæðisvinnustofunnar  AR-logo-gratt2

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?