Reglugerð Orlofssjóðs RSÍ

 


1. grein
Sjóðurinn heitir; Orlofssjóður Rafiðnaðarsambands Íslands. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík, en starfssvæði hans er allt
landið. Sjóðurinn er eign Rafiðnaðarsambands Íslands.

2. grein
Tilgangur sjóðsins er að koma upp og reka orlofssvæði, orlofshús og -íbúðir fyrir félagsmenn RSÍ, á eigin vegum eða í samvinnu við önnur
samtök. Stefna sjóðsins er að reka orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn sem víðast um landið, þ.á.m. íbúðir í þéttbýli þar sem að er talið
heppilegt.

3. grein
Tekjur sjóðsins eru:
1. Iðgjöld atvinnurekenda samkvæmt samningum, a.m.k. 0,25% af heildar-launum sjóðfélaga.
2. Iðgjöld sjóðfélaga eins og þau eru ákveðin á þingi eða sambands¬stjórnar-fundum RSÍ hverju sinni.
3. Leigutekjur af rekstri þeirra eigna sem sjóðurinn á eða honum eru lagðar til rekstrar.
4. Aðrar tekjur, sem til kunna að falla.

4. grein
Rétt til úthlutunar orlofshúsa eiga allir félagsmenn í RSÍ, sem greiða til sjóðsins samkvæmt 3. grein 1) og 2), og :

    a. hafa greitt í að minnsta kosti 6 mánuði áður en þeir eiga möguleika á leigu orlofshúsa eða íbúða eða

    b. voru fullgildir félagsmenn og fóru til vinnu á Norðurlöndum og höfðu greitt í Rafiðnaðarsamband viðkomandi lands, skulu við
        heimkomu njóta fullra réttinda hjá RSÍ að því tilskildu að greiðslur iðgjalda hefjist eigi síðar en þremur mánuðum frá síðustu greiðslu í
        norræna félagið. Viðkomandi félagsmaður þarf að leggja fram staðfestingu frá því félagi sem hann greiddi til á Norðurlöndum.

Réttur til úthlutunar er ákvarðaður af punktakerfi og myndast þannig að félags-menn ávinna sér einn punkt fyrir hvern mánuð sem þeir greiða
til RSÍ, þ.e. 12 punkta á ári.

5. grein
Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands hefur á hendi stjórn sjóðsins og ber ábyrgð á honum gagnvart sambandinu. Stjórnin hefur með höndum
umsjón eigna sjóðsins, ávaxtar fé hans, sér um byggingaframkvæmdir, viðhald og leigu ef um það er að ræða, svo og annað sem viðkemur
rekstri sjóðsins.

6. grein
Miðstjórn RSÍ skipar fjögurra manna orlofsnefnd og skipar formann hennar. Hlutverk nefndarinnar er umsjón með rekstri orlofseigna og
samskipti við önnur samtök vegna orlofsmála. Orlofsnefnd skal árlega gera tillögur til miðstjórnar um leigugjöld, frádrátt í punktakerfi,
viðhald eigna og um kaup og sölur eigna.
Formaður orlofsnefndar á seturétt á miðstjórnarfundum með málfrelsi og tillögu-rétti, þegar málefni nefndarinnar og sjóðsins eru til
umræðu.

7. grein
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skulu reikningar hans endurskoðaðir af skoðunarmönnum RSÍ, birtir með öðrum reikningum sambandsins
og lagðir fyrir þing og sambandsstjórn RSÍ til afgreiðslu.

8. grein
Reglugerð þessari verður aðeins breytt á reglulegum þingum eða sambands-stjórnarfundum RSÍ og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða. Geta
skal breytinga-tillagna í fundarboði.

9. grein
Hætti sjóðurinn störfum renna eignir hans til Menningarsjóðs RSÍ.

Þannig frágengið á Sambandsstjórnarfundi RSÍ, 3. og 4. maí 2013.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?