Fjölskyldustefna

Unnið hefur verið að mótun fjölskyldustefnu fyrir RSÍ s.l. ár.  Hefur tilgangurinn verið að skapa umræðu um þennan málaflokk, jafnt innan RSÍ og utan.

Í kjarasamningagerð síðustu mánaða hefur bókun um fjölskyldustefnu verið sett með Almenna samningnum og Samningnum við ríkið.

Bókun um fjölskyldustefnu
"Aðilar þessa samnings eru sammála um að beina því til fyrirtækja í rafiðnaði og starfsmanna þeirra, að huga að mörkun fjölskyldustefnu innan fyrirtækjanna, með það að markmiði að samræma sem best vinnu og einkalíf.

Mótun fjölskyldustefnu á vinnustað byggist á sveigjanleika. Rannsóknir benda til að hjá fólki sem upplifir meiri sveigjanleika á vinnustað aukist starfsánægja og tryggð starfsmanna við fyrirtæki. Í góðu starfsumhverfi er sveigjanleiki stefna sem eykur starfsánægju, framleiðni og tryggð og gerir starfsmönnum betur kleift að samræma vinnu og einkalíf."

Það vakti athygli fjölmiðla þegar fjölskyldustefnan var bókuð í almenna samningnum og fékk RSÍ einnig mjög jákvæðar undirtektir m.a. frá jafnréttisstofu.
 

Fréttatilkynning jafnréttisstofu:
Jafnréttisstofa lýsir yfir ánægju sinni með bókun í kjarasamningum Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins þar sem aðilar samninganna beina því til fyrirtækja í rafiðnaði að marka fjölskyldustefnu innan fyrirtækjanna með það að markmiði að samræma sem best vinnu og einkalíf. Slík fjölskyldustefna myndi m.a. byggja á sveigjanlegum vinnutíma sem Jafnréttisstofa væntir að muni skila sér í auknum möguleikum karla og kvenna til virkrar þátttöku í heimilisstörfum og uppeldi og umhyggju barna. Þessi bókun er í fullu samræmi við 16. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er lofsvert að hefðbundin karlastétt skuli sækjast eftir þessu ákvæði, og er stórt skref fram á við í stöðugri vinnu við að jafna stöðu og rétt kvenna og karla í samfélaginu. Jafnréttisstofa hvetur aðra hagsmunaaðila á vinnumarkaði til að fara að fordæmi Rafiðnaðarsambandsins og SA og vinna að jafnrétti. Þetta er markmið Jafnréttisstofu, sem sinnir þessu starfi m.a. með því að bjóða upp á námskeið um jafnréttisstarf fyrir fyrirtæki og stofnanir á landinu.

16. apríl 2004
Silja Bára Ómarsdóttir
Verkefnisstjóri
Jafnréttisstofa
Hvannavöllum 14
600 Akureyri

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?