Mímir-símenntun er einkahlutafélag í eigu Alþýðusambands Íslands og starfar á sviði fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar. Fyrirtækið hóf starfsemi sína í janúar 2003. Einkahlutafélagið Mímir-símenntun er rekið til almannaheilla og því er ekki heimilt að greiða eigendum arð. Allur hagnaður af starfsemi félagsins er notaður til að efla mennta- og fræðslumál fullorðins fólks á íslenskum vinnumarkaði.
Meginmarkmið Mímis-símenntunar er að bjóða upp á nám fyrir fullorðna, þróa námsleiðir og hvetja fólk á vinnumarkaði til símenntunar og starfsþróunar.
Í námstilboðum Mímis er unnið markvisst að því að efla færni fólks og bæta þannig stöðu þess á vinnumarkaði. Skipulag námsins tekur bæði mið að þörfum vinnandi fólks og atvinnulífsins hverju sinni.
Áhersla er lögð á samstarf við atvinnulífið um þróun fjölbreyttra námstilboða.
Mímir-símenntun er með þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem m.a. kveður á um að Mímir fylgi gæðakerfi og gæðamati sem Fræðslumiðstöðin þróar. Einnig er lögð áhersla á kennsluaðferðir sem henta fullorðnu fólki.
Starf Mímis-símenntunar byggist á þremur kjarnasviðum.
Markhópur Mímis á sviði Fjölmenningar og frístunda er allur almenningur og eru nemendur mjög breiður hópur ef litið er til aldurs, menntunar og þjóðernis. Á sviðunum Nám fyrir atvinnulífið og í Náms- og starfsráðgjöf er markhópur Mímis aðallega fólk á vinnumarkaði með stutta formlega menntun og innflytjendur.
Í stjórn fyrirtækisins sitja Stefanía Magnúsdóttir, formaður, Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður, Stefán Ó. Guðmundsson, Ólafur Darri Andrason og Linda Baldursdóttir.
Fyrirtækið hefur frá upphafi verið rekið með sjálfsaflafé svo sem sölu námskeiða til einstaklinga, fyrirtækja og félaga eða með þjónustusamningum. Stærstu þjónustusamningarnir eru við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Námsflokka Reykjavíkur og Alþýðusamband Íslands.
Árið 2007 fékk Mímir einnig rekstrarstyrk frá Menntamálaráðuneytinu.
Margvísleg þróunarverkefni hafa verið fjármögnuð með styrkjum frá Starfsmenntaráði og starfsmenntasjóðum atvinnulífsins.
www.mimir.is