asi
Frá því í janúar 2014 hefur verð á raforku hækkað um 3,8%-6,65% hjá öllum raforkusölum á landinu, mest hjá Orkusölunni en minnst hjá Fallorku. Einnig hefur flutningur og dreifing á raforku hækkað um allt að 6% hjá öllum dreifiveitum nema Rarik dreifbýli og Orkubúi Vestfjarða dreifbýli þar sem verð hefur lækkað á milli ára.

Á þessu rúma eina og hálfa ári sem samanburðurinn nær til hefur skattur á raforkusölu, umhverfis- og auðlindaskatturinn verið lækkaður úr 0,13 kr. á kWst. í 0,129 kr. á kWst., virðisauki verið lækkaður úr 25,5% í 24% og nýtt jöfnunargjald sett á sem er 0,2 kr./kWst. sem leggst á alla greiðendur. Þetta eru gjöld sem fyrirtækin
innheimta fyrir hönd ríkissjóðs.

Raforkureikningi heimilisins má skipta í tvo hluta. Annars vegar er greitt fyrir flutning og dreifingu raforkunnar til þeirrar dreifiveitu sem hefur sérleyfi á viðkomandi landsvæði og hins vegar er greitt fyrir raforkuna sjálfa til þess sölufyrirtækis sem hver og einn kaupandi velur. Þannig greiðir heimili á Ísafirði ávallt Orkubúi Vestfjarða fyrir flutning og dreifingu á raforku en getur síðan valið að kaupa raforkuna af t.d. Orkuveitu Reykjavíkur.

Í neðangreindum dæmum er gert ráð fyrir að heimilið kaupi 4.000 kWst./ári. af raforku af þeirri dreifiveitu sem hefur sérleyfi á flutningi og dreifingu á viðkomandi landsvæði og þeim sölufyrirtækjum sem stofnuð hafa verið utan um raforkusöluna hjá viðkomandi dreifiveitu.

Flutningur og dreifing á raforku
Kostnaður við flutning og dreifingu raforku hefur hækkað mest hjá Rafveitu Reyðarfjarðar eða um 6% og hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli um 4,9% en um 1-1,5% hjá Norðurorku, HS veitu, Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK dreifbýli. Á sama tíma er lækkun á hjá RARIK dreifbýli um 8,5% og Orkubúi Vestfjarða dreifbýli um 0,3%.
(sjá mynd)

Kostnaður heimilis í þéttbýli, fyrir flutning og dreifingu á raforku er hæstur 48.271 kr. á ári hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli en lægstur 37.171 kr. hjá Norðurorku sem gerir 11.100 kr. verðmun eða 30%.
Dreifbýlisheimili greiða talsvert hærra verð fyrir þessa sömu þjónustu. Hjá Orkubúi Vestfjarða dreifbýli er kostnaðurinn 69.323 kr. á ári og hjá Rarik dreifbýli er hann 68.123 kr. þegar tekið hefur verið tillit til dreifbýlisframlagsins. En vegna breytinga á dreifbýlisframlaginu hefur verðið lækkað hjá Orkubúi Vestfjarða dreifbýli um 0,3% og hjá Rarik dreifbýli um 8,5%. Um kaup á þessari þjónustu hafa heimilin ekkert val og verða að eiga viðskipti við þá dreifiveitu sem hefur einkaleyfi fyrir flutning og dreifingu á raforku á viðkomandi landssvæði.

Sala á raforku - orkusala
Orkusalan er sá hluti raforkuviðskiptanna sem neytendur hafa val um við hvaða fyrirtæki þeir skipta og ætti að vera samkeppni um kaupendur á orkunni. Gjaldið hefur hækkað mest hjá Orkusölunni um 6,7% en minnst um 3,8% hjá Fallorku. Aðrir orkusalar eru að hækka gjaldskrána um 4,8-6%.
(sjá mynd)

Ódýrast er að kaupa orkuna hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli/dreifbýli, þar sem kostnaðurinn er 26.432 kr. en dýrast er að kaupa hana frá HS orku þar sem kostnaður er 27.622 kr. á ári, munur á hæsta og lægsta verði er 1.190 kr. eða rúmlega 4,5%.

Heildar raforkukostnaður
Samsetti rafmagnsreikningurinn fyrir bæði flutning, dreifingu og orku hefur hækkað hjá öllum nema Orkusölunni/RARIK dreifbýli þar sem reikningurinn hefur lækkað um 4,6%. Mesta hækkunin er hjá Rafveitu Reyðarfjarðar um 6% og hjá Orkubúi Vestfjarða þéttbýli um 5,1%, en hjá öðrum hækkar reikningurinn minna eða um 1,2-3%.
(sjá mynd)

Heildarkostnaður fyrir flutning, dreifingu og orku til almennra heimilisnota í þéttbýli, er hæstur hjá viðskiptavinum Rarik þéttbýli/Orkusalan eða 75.236 kr. en lægstur hjá Norðurorku/Fallorku 63.851 kr. og er verðmunurinn 11.385 kr. eða 18%.
Heildarkostnaður fyrir flutning, dreifingu og raforku til almennra heimilisnota fyrir heimili í dreifbýli kostar 95.755 kr. á svæði Orkubús Vestfjarða dreifbýli og 95.696 kr. hjá Rarik dreifbýli/Orkusalan en þá hefur verið tekið tillit til sérstaks dreifibýlisframlags.

Rétt er að vekja athygli á því að ákveði heimili að kaupa raforkuna hjá öðru fyrirtæki en því sem sér um flutning og dreifingu á viðkomandi landssvæði, mun raforkureikningur heimilisins berast í tvennu lagi. Einn fyrir flutning og dreifingu og annar fyrir orkusölu. Neytendur ættu því að kynna sér hvort seðilgjald sé innheimt aukalega hjá raforkusalanum og hvort komast megi hjá því t.d. með rafrænum greiðsluseðlum þannig að kostnaður við skiptin verði ekki meiri en sem nemur verðmun á milli söluaðila.

(Sjá nánar sundurliðaðan kostnað við flutning, dreifingu og orkusölu í töflu)

bordar 1300x400 09Í dag voru haldnir tveir kynningarfundir hjá Já hf. þar sem nýgerður kjarasamningur var kynntur fyrir starfsmönnum. Eftir fyrri fundinn hófst atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn en atkvæðagreiðslan var framkvæmd á staðnum og geta starfsmenn Já hf. mætt á skrifstofu RSÍ til 4. september kl. 15:00 til þess að greiða atkvæði um samninginn. Mjög áríðandi er að starfsmenn taki þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga og segi sína skoðun á þeim.

Í vikunni var haldinn annar fundur vegna kjarasamnings RSÍ/FÍS við Símann, Mílu og dótturfyrirtæki og var jafnframt fyrsti fundur vegna samnings RSÍ við Símann, Mílu og dótturfyrirtæki (sveinasamningur) haldinn í þessari viku. Litlar fréttir eru af fundunum en vinna er í gangi við ýmis mál sem nauðsynlegt er að ræða og uppfæra hin ýmsu skjöl. Næstu vinnufundir verða haldnir seinnihluta næstu viku.

Jafnframt var fundað vegna kjarasamninga við Rarik, HS veitur og Félag atvinnurekenda en eru þau mál í eðlilegu ferli en ljóst að það á eftir að ganga frá fjölmörgum endum víða.

Næsti fundur í deilu verkalýðsfélaganna við ISAL verður haldinn á mánudag en Ríkissáttasemjari boðaði til fundarins en ljóst er að yfirvinnubann hefur staðið í tæpan mánuð og hefur töluverð áhrif á rekstur fyrirtækisins. Fulltrúar starfsmanna hafa sýnt fullan vilja til að ná samningum en höfum æði oft lent á vegg þegar skriður hefur komist á málið.

bordar 1300x400 02Í dag var skrifað undir kjarasamning vegna Rafiðnaðarfélags Norðurlands, Rafiðnaðarfélags Suðurnesja og Félags rafiðnaðarmanna á Suðurlandi. Kjarasamningurinn byggir á sama grunni og aðrir kjarasamningar sem gerðir hafa verið en bókun fylgir kjarasamningnum þar sem fram kemur SA/SART beini því til fyrirtækja á þessum svæðum að þau muni kynna launabreytingar fyrir starfsmönnum sem koma til vegna þessara kjarasamninga niður á einstaklinga. Kjarasamningarnir gilda frá 1. maí 2015 líkt og aðrir kjarasamningar hjá RSÍ og munu laun viðkomandi hækka til samræmis við kjarasamningana verði þeir samþykktir.

Orlof skal greiða ofan á verkfæragjald rafiðnaðarmanna líkt og verið hefur en skrifað var undir bókun þess efnis, til samræmis við ákvæði kjarasamningsins. Sjá nánar í frétt þessu tengt á síðu RSÍ.

Kynningarfundir verða haldnir á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ í næstu viku og munu félagsmenn okkar á viðkomandi svæðum fá sendar upplýsingar um tímasetningar fundanna. Atkvæðagreiðslur munu hefjast í kjölfarið og mun niðurstaða verða tilkynnt SA/SART eigi síðar en 15. september en þó gæti niðurstaða legið fyrir fyrr en það fer eftir því hvert fyrirkomulag atkvæðagreiðslna verður.

rafidnadarsambandidÍ dag var skrifað undir bókun þar sem tekur af allan vafa um það hvort greiða eigi orlof á verkfæragjald en fulltrúar RSÍ töldu þetta afar skýrt en er þetta nú staðfest af báðum samningsaðilum.

Vinnuveitendum ber að greiða orlof ofan á verkfæragjaldið. Bókun má finna hér.

asiBónus með lægsta verðið í um helmingi tilvika
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á matvöru í lágvöruverðsverslunum, þjónustuverslunum og stórmörkuðum víðsvegar um land mánudaginn 24. ágúst. Hæsta verðið var oftast að finna í versluninni Iceland Engihjalla í um 40% tilvika en lægsta verðið var í versluninni Bónus Kjarnagötu Akureyri í um helmingi tilvika. Mikill munur var á hæsta og lægsta verði milli verslana, en í um helmingi tilvika var um 10-30% verðmun að ræða. Mestur varð verðmunurinn 102%. Minnstur verðmunur var í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum. 

Mesta vöruúrvalið í Fjarðarkaup
Flestar vörurnar voru til í verslun Fjarðarkaupa eða 115 af 121, næstflestar í verslun Iceland eða 109. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Samkaupum-Úrvali á Ísafirði eða 77 af 121, þar á eftir kom Krónan Nóatúni sem átti 92 vörur.

Þegar borin eru saman verð á milli verslananna á þeim vörutegundum sem verðlagseftirlitið skoðaði var Iceland með hæsta verðið á 51 vörum af 121, Samkaup-Úrval var 25 sinnum hæst, Hagkaup 22 og Víðir Skeifunni 16 sinnum. Bónus var með lægsta verðið á 67 vörum af af 121, Fjarðarkaup 19 sinnum lægst, Krónan 16 og Nettó Mjódd 12 sinnum.

Minnstur verðmunur í könnunni var á spelt flatkökum frá Ömmubakstri sem voru dýrastar á 242 kr. hjá Fjarðarkaupum en ódýrastar á 229 kr. hjá Krónunni, verðmunurinn var 6%. Mestur verðmunur að þessu sinni var á jöklasalati sem var ódýrast á 198 kr./kg. hjá Krónunni en dýrast á 399 kr./kg. hjá Hagkaupum, verðmunurinn 201 kr. eða 102%.

Minnstur verðmunur er í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum
Minnstur verðmunur í mælingunni er í vöruflokknum osti, viðbiti og mjólkurvörum en hann var samt umtalsverður og náði þegar mest var ríflega 25%. Sem dæmi má nefna 250 gr. af MS sveppasmurosti sem var dýrastur á 440 kr. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrastur á 351 kr. hjá Nettó, verðmunurinn er 25%. Þá var 15% verðmunur á 500 gr. af
Húsavíkurjógúrti með peru og vanillu sem var dýrust á 258 kr. hjá Hagkaupum en ódýrust á 225 kr. hjá Víði. Verðmunurinn var öllu minni á Stoðmjólk sem var dýrust á 120 kr. hjá Samkaupum-Úrvali og Hagkaupum en ódýrust á 112 kr. hjá Fjarðarkaupum sem gerir 7% verðmun.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á ORA sardínum í olíu sem voru dýrastar á 379 kr. hjá Iceland en ódýrastar á 267 kr. hjá Bónus, verðmunurinn var 112 kr. eða 42%. Kíló af vatnsmelónu var dýrast á 299 kr. hjá Hagkaupum en ódýrast á 149 kr./kg. hjá Nettó sem gerir 101% verðmun. Orkudrykkurinn Red Bull 250 ml. var
ódýrastur á 195 kr. hjá Bónus en dýrastur á 249 kr. hjá Iceland, sem er 28% munur.

Sjá nánari upplýsingar í töflu.(smella hér)

Í könnuninni var skráð hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Kjarnagötu, Krónunni Nóatúni, Nettó Hverafold, Iceland Engihjalla, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Samkaupum-Úrvali Ísafirði, Hagkaupum Seltjarnarnesi og Víði Skeifunni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

fisÍ hádeginu í dag var skrifað undir kjarasamning RSÍ/FÍS við Já hf. vegna starfsmanna sem starfa hjá Já. Kjarasamningurinn er byggður á þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á árinu og verður kynntur fyrir félagsmönnum RSÍ er starfa hjá Já hf síðar í vikunni. Atkvæðagreiðsla mun hefjast í kjölfarið en niðurstaða úr atkvæðagreiðslu mun liggja fyrir eigi síðar en 10. september kl. 16.

asiVerðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á nýjum og notuðum skólabókum fyrir framhaldsskóla í bókaverslunum þriðjudaginn 18.ágúst. Farið var í fimm bókabúðir og skoðað verð á 37 algengum nýjum námsbókum og borið saman innkaups- og útsöluverð á 18 bókum á tveimur skiptibókamörkuðum.

Oftast um 10-30% verðmunur á nýjum skólabókum

Af nýjum skólabókum átti A4 Skeifunni flesta titlana eða 35 af 37 en Penninn-Eymundsson Kringlunni og Bókabúðin IÐNÚ áttu 33 titla. Oftast má sjá 10-30% verðmun á hæsta og lægsta verði á milli verslananna. A4 var oftast með lægsta verðið að þessu sinni, 21 titill af 37 voru ódýrastir hjá þeim, næst kom Penninn-Eymundsson með lægsta
verðið á 9 titlum. Bókabúðin IÐNÚ var oftast með hæsta verðið eða á 15 titlum af 37 og Bóksala Stúdenta í 10 tilvikum.

Mestur verðmunur í könnuninni var á bókinni “Þýska fyrir þig: vinnubók“, en hún var dýrust á 3.530 kr. hjá Bókabúðinni IÐNÚ en ódýrust á 2.269 kr. hjá A4 sem er 1.261 kr. verðmunur eða 56%. Minnstur verðmunur að þessu sinni var 1% á bókinni “Grafísk miðlun – Forvinnsla, prentun, frágangur“, en bókin var dýrust á 6.275 kr. hjá Bókabúðinni IÐNÚ en ódýrust á 6.199 kr. hjá Pennanum-Eymundsson.

Af öðrum kennslubókum má nefna að bókin „Jarðargæði“ var dýrust á 6.995 kr. hjá Bóksölu Stúdenta en ódýrust á 5.710 kr. hjá Bókabúðinni IÐNÚ sem er 23% verðmunur. Einnig var mikill verðmunur á bókinni „Bókfærsla 1“ sem var dýrust á 4.660 kr. hjá Bóksölu Stúdenta en ódýrust á 3.879 kr. hjá Pennanum-Eymundsson sem er 21% verðmunur. Að lokum má nefna félagsfræðibókina „Kemur félagsfræðin mér við?“ sem var dýrust á 5.999 kr. hjá Pennanum-Eymundsson en ódýrust á 4.255 kr. hjá Bóksölu Stúdenta sem er 41% verðmunur.

Mikill munur á verði skiptibókamarkaðanna

Af þeim tveimur bókaverslunum sem starfrækja einnig skiptibókamarkað, var A4 oftar með lægsta útsöluverðið á notuðum skólabókum sem skoðaðar voru eða á 11 titlum af 18. Penninn-Eymundsson var oftar með hæsta útsöluverðið eða á 11 titlum. Álagning beggja skiptibókamarkaðanna er um og yfir 50%.

Sjá nánari niðurstöður í töflu (smella hér)

Námsmenn ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört hjá verslunum við upphaf skólaárs. Úrval notaðra bóka á skiptibókamörkuðum var mjög misjafnt eftir verslunum þegar könnunin var gerð en getur breyst með skömmum fyrirvara.

Kannað var verð á nýjum bókum í eftirtöldum verslunum: Bóksölu stúdenta Háskólatorgi, Pennanum-Eymundsson Kringlunni, A4 Skeifunni, Forlaginu Fiskislóð og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti. Kannað var verð á notuðum bókum í eftirtöldum verslunum: Eymundsson Kringlunni og A4 Skeifunni.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Einnig má benda neytendum á að bókabúðirnar gætu verið með staðgreiðsluafslátt og jafnvel afslætti til meðlima.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

rafidnadarsambandidAtkvæðagreiðslu um kjarasamning RSÍ/AFLs lauk kl. 10 í morgun og liggur niðurstaða fyrir úr henni.

Á kjörskrá voru 393 starfsmenn Alcoa og félagsmenn í RSÍ og AFLi en alls greiddu 180 atkvæði um samninginn eða 45,8%. Féllu atkvæði þannig:

Já sögðu 162 eða 90,0%
Nei sögðu 16 eða 8,9%
Auðir seðlar voru 2 eða 1,1%

Kjarasamningurinn telst því samþykktur.

rafidnadarsambandidRétt í þessu lauk 14. fundi hjá Ríkissáttasemjara vegna deilu verkalýðsfélaganna við ISAL. Fundurinn var árangurslaus og gaf því ekki tilefni til að halda áfram vinnu í þessari viku. Ríkissáttasemjari ákvað þó að næsti fundur verði haldinn á þriðjudag í næstu viku. 

Yfirvinnubann stendur yfir í verksmiðjunni með tilheyrandi röskun á starfsemi og ótímabundið verkfall skellur á 1. september næstkomandi en fyrirtækið mun þó fá 2 vikna aðlögun áður en allir starfsmenn leggja niður störf. Samninganefnd starfsmanna bindur miklar vonir við að mögulegt verði að ná kjarasamningi áður en til þessa kemur.

rafidnadarsambandidNú þegar sumarleyfum fer að ljúka þá er rétt að huga að því sem framundan er í kjaraviðræðum.

RSÍ óskaði eftir viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna þeirra kjarasamninga sem eftir á að gera þann 15. júlí síðastliðinn en SA/fyrirtækin hafa ekki svarað óskum um fundi vegna sumarleyfa. Við gerum fastlega ráð fyrir því að fundir verði boðaðir á næstu dögum. Þó hefur verið boðað til funda vegna nokkurra samninga.

Þessa vikuna hafa fundir staðið yfir vegna ISAL, Rio Tinto Alcan, og verður næsti fundur haldinn í dag kl. 13 undir stjórn Ríkissáttasemjara. Nokkuð hefur þokast í þeirri deilu en of snemmt er þó að segja til um hvort málið sé komið á þann stað að það geti leitt til undirritunar kjarasamnings. Það kemur í ljós síðar í dag vonandi.

Í næstu viku verður fundað vegna þeirra aðildarfélaga RSÍ sem felldu "almenna" samninginn en það eru félögin Rafiðnaðarfélag Suðurnesja, Rafiðnaðarfélag Norðurlands og Félag rafiðnaðarmanna á Suðurlandi. Stefnt er að því að ljúka undirritun samnings þar sem fyrst eða þegar breytingar hafa fengist á þeim atriðum sem menn voru ósáttastir með. Ef ekkert þokast í þeim málum mun bresta á verkfall á þessum stöðum í byrjun september.

Boðað hefur verið til fundar vegna kjarasamnings RSÍ og Rarik ohf og verður hann haldinn í næstu viku.

RSÍ hefur óskað eftir fundum vegna Símans/Mílu, Landsvirkjunar, Landsnets, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku/veitum, Norðurorku, 365 miðla. Ekki hefur fengist svar við beiðni um fundi vegna sumarleyfa SA.

Fundað verður vegna svokallaðs Kögunarsamnings uppúr miðjum ágúst.

Fundað verður vegna kjarasamnings við Ríkið, Félag atvinnurekenda og Reykjavíkurborg á næstunni en nú þegar hafa verið haldnir tveir fundir með Félagi atvinnurekenda.

Undirflokkar

whiteRafræn leynileg atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls er hafin meðal félagsmanna í aðildarfélögum Rafiðnaðarsambands Íslands sem starfa á almennum kjarasamningi RSÍ og Samtaka atvinnulífsins. Atkvæðagreiðslur standa einnig yfir í öðrum félögum iðnaðarmanna.

Félagsmenn eru spurðir hvort þeir vilji að boðað verði allsherjarverkfall sem standi frá miðnætti aðfararnótt 10. júní til miðnættis að kvöldi 16. júní 2015 og til ótímabundins allsherjarverkfalls frá miðnætti aðfararnótt 24. ágúst 2015. Verkfall mun eingöngu koma til framkvæmda ef þörf krefur og ef kjarasamningar hafa ekki verið undirritaðir. Atkvæðagreiðslu lýkur þann 1. júní kl. 10.

Þeir félagsmenn sem starfa á almenna samningnum fá bréf sent heim til sín með upplýsingum um atkvæðagreiðsluna og kóða sem þeir geta notað til þess að greiða atkvæði. Fái einhver ekki bréf sem telur sig eiga rétt á að kjósa er hægt að hafa samband við skrifstofu RSÍ.

Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur félagsmenn eindregið til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og sýna hug sinn í verki. Góð þátttaka og góð samstaða sendir mikilvæg skipaboð að samningaborðinu. Við viljum að íslenskur vinnumarkaður verði samkeppnishæfur við Norðurlöndin og að fólk geti lifað mannsæmandi fjölskyldulífi af dagvinnulaunum. Með því að nýta samtakamáttinn getum við náð markmiðum okkar og fengið sanngjarnar kjarabætur.

Hér má nálagast ýmsar upplýsingar um kjaraviðræður 2015.

Hér er hlekkur á kosningasíðu.          

Tökum öll þátt í atkvæðagreiðslunni!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?