rafidnadarsambandid2Nú þegar árið 2017 er á enda er gott tilefni til þess að rýna farinn veg og huga að nýju ári sem framundan er. Á liðnum árum hefur okkur tekist að rétta kjör okkar félagsmanna aðeins við en mikil þörf var á því að lyfta þeim upp eftir Hrun-árin. Kaupmáttur launa hafði lækkað það mikið. Á síðastu tveimur árum hefur okkur tekist að auka kaupmátt launa heilt yfir samfélagið og er það tilkomið vegna lágrar verðbólgu og launahækkana. 

Við erum að upplifa lengsta samfellda tímabil lágrar verðbólgu hér á landi sem grunnur var lagður að á árinu 2014 þegar verkalýðsfélög innan ASÍ ruddu brautina gegn Ríki, sveitarfélögum sem og fyrirtækjum en um langt árabil höfðu þessir aðilar hækkað gjaldskrár sínar um hver áramót til þess að bæta upp fyrir verðbólgu liðins tíma. Sú hækkun gerði það að verkum að þeir bjuggu til nýjan grunn fyrir áframhaldandi verðbólgu. Vítahringur var það klárlega og ekki var það átakalaust að komast út úr þessum vítahring.

Nú um áramótin munu landsmenn sjá hækkanir á ýmsum þáttum en til að mynda ætlar Ríkið að taka enn stærri skerf af eldsneyti í formi hærri gjalda. Þessi hækkun getur kynt undir verðbólgu auk þess sem hækkun á fasteignaverði undanfarinna mánaða og ára heldur verðbólgu hærri en hún þyrfti að vera.

Það verður spennandi að fylgjast með nýrri ríkisstjórn á komandi mánuðum en afar brýnt er að Alþingi taki á því með hvaða hætti Hagstofa Íslands mælir verðbólgu. Það er kominn tími til þess að gerð verði breyting á því með hvaða hætti fasteignaverð reiknast inn í verðbólgu hvers tíma. Húsnæðisliðurinn ætti ekki að hafa jafn mikið ef nokkurt vægi í vísitölu neysluverðs. Þarna getur Alþingi gripið inn í og gert úrbætur á.

Það stefnir í að árið 2018 verði að mörgu leyti gott ár. Það vekur vissulega áhyggjur hversu mikill hraði er á vinnumarkaði og gera má ráð fyrir að það haldi ekki endalaust áfram og það fari að hægja á á næstu mánuðum. Ekki þykir líklegt að næsti skellur verði eins harkalegur og fyrir 10 árum síðan en nauðsynlegt er að fara varlega í þeim efnum og ljóst er að almenningur hefur verið skynsamari í fjárfestingum og skuldsetningu en á "partý-árunum" fyrir Hrun. Nauðsynlegt er að vera undir það búinn að það kreppi eitthvað að. 

Kjarasamningar munu losna á árinu 2018. Aðildarfélög innan ASÍ eru með endurskoðunarákvæði í kjarasamningum sem við getum nýtt okkur í lok febrúar á nýju ári og ljóst má þykja að forsendur kjarasamninganna eru brostnar. Kjararáð hefur margítrekað úrskurðað um leiðréttingar launa æðstu embætta ríkisins og hefur þar með slegið nýjan takt í samfélagið. Þegar rýnt er í þær hækkanir þá finna fulltrúar kjararáðs sér heppilegan tímapunkt til að sýna fram á mikilvægi leiðréttingar og það sé bara eðlilegt að tekið verði á þessu. 

Ljóst má þykja að rafiðnaðarmenn eru afar ósáttir við úrskurði kjararáðs en taka þó að sjálfsögðu undir að nú er kominn tími á leiðréttingar á okkar launum. Þrátt fyrir að kaupmáttur hafi aukist á undanförnum árum þá hafa launin dregist aftur úr þegar horft er til lengri tíma. 

Til þess að kjarasamningum verði sagt upp í lok febrúar þá þurfa aðstæður að vera óbreyttar. Verði hins vegar gerð breyting á úrskurðum kjararáðs þá getur svo farið að kjarasamningar gildi út árið 2018 en renni þá úr gildi um áramótin 2018/2019. Forsendunefnd ASÍ hefur það í hendi sér að úrskurða um hvort forsendur haldi eða ekki. 

Ég vona að nýtt ár muni reynast þjóðinni vel á heildina litið og verði gjöfult og þakka ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

asi rautt

Samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis var undirritað í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í morgun. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá ríkinu munu hækka um að meðaltali 1,6 prósent vegna samkomulagsins og laun félaga í BSRB sem starfa hjá ríkinu um 1,3 prósent. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2017.  

Samkomulagið sem undirritað var í dag er gert í kjölfar rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins. 

Launaþróunartrygging

Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að launaþróun þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.

Horft er til þróunar launa á almenna markaðinum annars vegar og hjá þeim félagmönnum sem starfa hjá ríkinu hins vegar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2016. Eins og fram kemur í rammasamkomulaginu verður launaþróunin mæld áfram og leiðrétt vegna áranna 2017 og 2018, ef tilefni er til, þegar þær tölur liggja fyrir.

Laun félagsmanna ASÍ og BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum hafa hækkað meira en laun á almenna markaðinum á tímabilinu og hækka því ekki að þessu sinni. Launaþróun þessara hópa verður mæld áfram og borin saman við launaþróun á almennum vinnumarkaði út gildistíma rammasamkomulagsins í árslok 2018. 

Alþýðusambandið telur þetta samkomulag mikilvægt gagnvart félagsmönnum sínum hjá ríki og sveitarfélögum til að tryggja að launaþróun þeirra verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. ASÍ telur jafnframt að það skjóti skökku við að á sama tíma og ríkið semur við fulltrúa tekjulægstu starfsmanna sinna um 1,6% launaþróunartryggingu til að mæta mun á launaþróun á almennum og opinberum vinnumarkaði skuli kjararáð ítrekað úrskurða um hækkanir sem nema tugum prósentna til hæst launuðu starfsmanna ríkisins. Það er miður að ákvæði rammasamkomulagsins nái ekki til úrskurða kjararáðs og undirstrikar það enn frekar það óréttlæti sem viðgengst gagnvart þessum félögum okkar sem starfa hjá ríkinu og öðru launafólki. 

asi rauttReykjavík 20. desember 2017

Alþýðusambandið hefur það að leiðarljósi að hefja samstarf við nýjar ríkisstjórnir á jákvæðum nótum. Þróun þess samstarfs mótist síðan af þeim áherslum og aðgerðum sem komið er í framkvæmd. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um þessa ríkisstjórn. Þannig styður ASÍ áform nýrrar ríkisstjórnar um eflingu menntakerfisins og opinbera heilbrigðiskerfisins, m.a. með auknum fjárveitingum og áherslubreytingum. 

Lestur fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar gefur hins vegar lítið tilefni til bjartsýni og að óbreyttu mun bilið á milli ríkra og fátækra í samfélaginu enn fara vaxandi.  

Aukin framlög til heilbrigðiskerfisins eru vissulega til bóta en þau duga með engu móti til að mæta þeirri miklu fjárþörf sem til staðar er.  Greiðsluþátttaka sjúklinga er allt of mikil og enn er gert ráð fyrir því að framlög til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu aukist umtalsvert meira en til opinberu þjónustunnar. Jafnframt mótmælir ASÍ harðlega viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að auka jöfnuð og endurreisa réttindi launafólks. Þetta birtist m.a. í veikingu á barna- og vaxtabótakerfinu og virðingaleysi fyrir afkomutryggingu launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. Gríðarlegur húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er ekki tekinn alvarlega og sá hluti menntakerfisins sem þjónar launafólki með litla formlega menntun er vanræktur. Þá sjást engin merki um að efna eigi loforð um efling verk- og starfsnáms.

Miðstjórn ASÍ kallar eftir þeim áherslum í fjárlögum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og samfélagslegan stöðugleika. Ljóst má vera að þetta fjárlagafrumvarp dugar ekki til þess að leggja grunn að slíku samstarfi. Miðstjórn lýsir jafnframt vonbrigðum sínum með að ríkisstjórnin ætli ekki að hafa neitt frumkvæði að bættum lífskjörum og auknu afkomuöryggi félagsmanna ASÍ. 

Bilið milli ríkra og fátækra eykst
Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur skýrt fram að skattbyrði launafólks hefur aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins.

Afkomuöryggi launafólks ógnað
Afkomutrygging launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi er veikt enn eitt árið. Atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki sem hlutfall af lágmarkslaunum og mun það hlutfall enn lækka á milli ára. Hámarksgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa nema nú rétt um 50% af meðaltekjum á vinnumarkaði en voru um 90% á árinu 2009. Ekki á að endurreisa fæðingarorlofskerfið þrátt fyrir tillögur starfshóps stjórnvalda þar um. Kaupmáttur hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði mun því rýrna áfram og verður um 40% lægri en á árinu 2007. Engin áform eru heldur uppi um lengingu fæðingarorlofsins. 

Vanefndir í húsnæðismálum
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 2015 var gert ráð fyrir byggingu 600 íbúða í almenna íbúðakerfinu árlega til ársins 2019. Árleg framlög til að mæta þessu hafa verið 3 milljarðar kr. en byggingarkostnaður hefur hins vegar hækkað á tímabilinu og því dugir framlagið ekki fyrir þeim fjölda íbúða sem lofað var. 

ASÍ hefur ítrekað lýst því yfir að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áformað er  eða um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin til að mæta uppsafnaðri þörf og slá á þenslu á húsnæðismarkaði. Almennar íbúðir eru fyrir tekjulægsta launafólkið en margir í þeim hópi eru í alvarlegum húsnæðisvanda. Stjórnvöld verða að sjá sóma sinn í því að tryggja öllum húsnæðisöryggi. Núverandi ástand er smánarblettur á samfélaginu. 

Framhaldsfræðslan skilin eftir 
Framlög til vinnustaðanámssjóðs og framhaldsfræðslu sem þjónar þeim hópum sem hafa hvað minnsta menntun á vinnumarkaði munu að óbreyttu lækka að raungildi. Þá sjást þess ekki merki í frumvarpinu að efna eigi fyrirheit stjórnarsáttmálans um eflingu verk- og starfsnáms.  Ekki er gert ráð fyrir neinum frekari fjármunum vegna þróunar fagháskólanáms sem verið hefur í vinnslu undanfarin ár. Undrun vekur að verkefnið eigi að færa í hendur háskólanna og að ekkert sé minnst á hlutverk Samráðshóps um fagháskólanám.

asi rauttVerðlagseftirlit ASÍ fór á stúfana og kannaði verð á vinsælustu bókunum í jólabókaflóðinu hjá bóksölum. Skemmst er frá því að segja að þrjár verslanir vísuðu verðtökufólki ASÍ á dyr og neitaðu því um að fá að taka niður verð á bókum í verslunum sínum. Þar á meðal eru aðilar sem segja má að séu ráðandi á íslenskum bókamarkaði en virðast ekki sjá hag sinn í því að neytendur séu upplýstir um verðlag í verslunum sínum. Þessar verslanir eru Penninn-Eymundsson, Mál og Menning Laugavegi og Bóksala stúdenta. 

40-60% verðmunur algengur – mesti verðmunur 97% 

Kannað var verð á 85 titlum en margir þeirra eru meðal söluhæstu bókanna þetta árið samkvæmt bóksölulista Félags íslenskra bókaútgefanda. Verðmunur á bókum milli búða var almennt mikill en oftast var hann 20-60%. Í 16 af 85 skiptum var verðmunurinn 50-60% en í 21 tilfelli af 85 var hann 40-50%. Verðmunurinn var því á milli 40-60% í 42% tilfella. 

Mikill verðmunur var á matreiðslubókinni „Stóra bókin um sous vide“ eða 89% en ódýrust var hún í Costco á 4499 en dýrust í Forlaginu á 8490. Verðmismunurinn á bókinni „Flóttinn hans afa“ var einnig mikill eða 85% en þar var Nettó ódýrast með bókina á 2099 kr. á meðan hún kostaði 3890 kr. hjá Forlaginu. Norrænar Goðsagnir var ódýrust í Bónus á 2798 kr. en dýrust hjá Hagkaup á 5499 kr. en þarna munar heilum 97% á hæsta og lægsta verðinu. Þá var 67% verðmunur milli verslana á íslensku skáldsögunum Sakramentið og Mistur. Báðar bækur voru ódýrastar hjá Heimkaup 4190 kr. en dýrastar hjá A4 á 6989 kr..

Bónus ódýrast en Hagkaup dýrast 

Bónus var oftast með ódýrustu bækurnar eða 57 af 85 tilfellum en Nettó var 16 sinnum með lægsta verðið. Hagkaup var dýrast í flestum tilfellum eða í 36 af 85, Forlagið var 20 sinnum með dýrustu bókina og A4 12 sinnum af 85 skiptum. 

Nettó og Forlagið með mesta úrvalið 

Forlagið og Nettó eru með mesta úrvalið en 80 af 85 titlum mátti finna í hvorri verslun fyrir sig. Úrvalið af þessum mest seldu bókum samkvæmt bóksölulista Félags íslenskra útgefanda virðist þó vera nokkuð gott á mörgum stöðum en Hagkaup var með 72 titla af 85, Heimkaup 76 titla og Bónus 65 titla. Úrvalið í A4 var heldur minna en þar mátti einungis finna 34 af 85 titlum en allra minnst var var úrvalið í Costco sem átti 14 titla af 85. 

Penninn Eymundsson, Mál og menning og Bóksala stúdenta neituðu þátttöku

Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Nettó Mjódd, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Kringlunni, Costco og Heimkaupum.  

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

rafidnadarsambandid2Nú eru flugvirkjar sem starfa hjá Icelandair komnir í verkfall til þess að sækja sér launahækkun enda með lausa kjarasamninga. Krafa sem sett hefur verið fram er á reiki en nefnd hefur verið hækkun upp á 20% á einu ári. 

Það er hjákátlegt að fylgjast með ráðherrum ríkisstjórnarinnar og fulltrúum Samtaka atvinnulífsins koma fram og vara við því að þessi hópur fái launahækkun sem er svo rífleg og ef þeir fái hækkunina þá muni allt fara á hliðina. Það er ekki langt síðan að kjararáð úrskurðaði að alþingismenn og fleiri hópar í efsta lagi þjóðarinnar skuli hækka um 45% og það á einu bretti, á einum degi, sumir þeirra fengu launahækkun afturvirkt!

Það er þessum aðilum verulega til minnkunar að koma núna fram og vara við því að almennt launafólk megi ekki fá svona miklar hækkanir, sem er innan við helmingur af þeirra eigin launahækkun, því þá fari allt á hliðina. Þeir ættu hreinlega að skammast sín að vera ekki búnir að bregðast við kröfum almennings um að alþingismenn fylgi sömu línu og aðrir því geri þeir það ekki muni aðrir sækja sér samanburð í þeirra launahækkun. Miðstjórn RSÍ sem og trúnaðarmannaráðstefnur síðustu tveggja ára hafa varað við þessari stöðu án þess að Alþingi hafi hlustað. 

Það er því réttast að Alþingi og ríkisstjórnin líti í eigin barm og átti sig á því að þeirra er ábyrgðin.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

asi rautt

Verðkönnun ASÍ á jólamat sýnir að neytendur geta haft talsvert upp úr því að versla jólamatinn þar sem hann er ódýrastur en að meðlatali er um 35% verðmunur er á jólamatnum á milli verslana. 

Verðsamanburður í meðfylgjandi töflu.(smella hér)

Mestur verðmunur á grænmeti og ávöxtum 

Í könnuninni sem var framkvæmd þann 13. desember 2017 kemur fram að Bónus er í langflestum tilfellum með lægsta verðið eða í 54% tilfella en næst á eftir kemur Krónan sem er með lægsta verðið í 15% tilfella. Hagkaup er oftast með hæsta verðið eða í 36% tilfella en þar á eftir kemur Iceland með hæsta verðið í 29% tilfella.  

Grænmeti og ávextir er sá vöruflokkur sem er með mesta verðmuninn en meðalverðmunurinn milli búða er 52%. Þar er verðmunur á hindberjum mestur eða 94% en dýrasta kílóverðið var 5327 kr. hjá Hagkaup en ódýrasta hjá Costco eða 2144 kr. Mikill verðmunur er á rauðrófum milli búða en rauðrófurnar eru ódýrastar hjá Bónus á 89 kr. kílóið en dýrastar hjá Víði á 148 kr. kílóið. Svipað er uppi á teningnum með rauðkálshausa en þar er verðmunurinn ívið meiri eða 59% en ódýrast er að versla rauðkálshausa í Hagkaup (199 kr. kílóið) en dýrast er það hjá Fjarðarkaupum og Víði (398 kr. kílóið).  

Mikill munur á kjöti og konfekti

Af kjötvörum var mesti verðmunurinn á hálfum Íslands lambahrygg með beini en hann er 40% ódýrari í Víði en í Hagkaup eða á 1885 kr. hjá Víði en 2799 kr. hjá Hagkaup. Þá var einnig mikill verðmunur á SS birkireyktu hangikjöti (úrbeinuðu) eða 39%. Bónus var með lægsta verðið eða 3398 kr. kg en Kjörbúðin var með hæsta verðið eða 4998 kr. kg. 

Töluverður munur er á konfekti og sælgæti milli búða en 1kg kassi af Lindu konfekti er 41% ódýrari hjá  Bónus en hann er hjá Iceland eða á 1898 kr. í stað 2999 kr. Einnig er mikill munur Machintosh Quality Street dósum, 1,2 kg og 2 kg eða 33% en í báðum tilfellum er Bónus með lægsta verðið en Hagkaup hæsta. 

Verðlagning á brauði, kexi og morgunkorni er einnig æði misjöfn eftir búðum en sem dæmi má nefna að 69% verðmunur er á Heimilisbrauði en ódýrast er það hjá Bónus á 279 kr. en dýrast hjá Víði á 548 kr. 40% munur er á súkkulaðibitakökum frá Kexsmiðjuni en þar er Bónus með lægsta verðið eða 598 kr. á meðan kökurnar kosta 918 kr. hjá Fjarðarkaupum. Hagkaup er með hæsta verðið á öðrum smákökum frá Kexsmiðjunni en þar munar 38% og 39%. Pilsnerunnendur geta glaðst yfir verðlaginu í Bónus en þar fæst ½ l dós á 85 kr. en í Iceland er Pilsnerdósin 79% dýrari og kostar 179 kr. Hins vegar var 2l appelsín ódýrast hjá Iceland á 229 kr. en 42% dýrara í Víði á 348. kr. 

Vöruúrval

Fjarðarkaup trónir á toppnum með mesta vöruúrvalið en þar mátti finna 89 af 90 vörum sem skoðaðar voru en Hagkaup fylgir fast á eftir með 87 vörur af 90. Costco var með minnsta úrvalið eða einungis 7 vörur en næstminnsta úrvalið mátti finna hjá Víði eða 50 vörur af 90. Taka skal fram að vörurnar sem könnunin nær til eru oftar en ekki íslenskar og markaðssettar sérstaklega fyrir jólin hér á landi og er úrvalið í sumum búðum til marks um það. 

Í könnuninni var hilluverð á 90 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef að afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. 

Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru Bónus Holtagörðum, Nettó Granda, Krónan Hafnafirði, Hagkaup Garðabæ, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaup, Víðir Garðabæ, Costco og Kjörbúðin Neskaupsstað. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana. 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

rafidnadarsambandid rautt

Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands fagnar ákvörðun stjórnar VR að höfða mál gegn kjararáði vegna úrskurða sem eru ekki í neinu samhengi við launaþróun hér á landi. Miðstjórn RSÍ styður VR í þessu mikilvæga máli og vonast til jákvæðrar niðurstöðu sem allra fyrst.

orlofslogFélagsmenn hafa tekið vel í ný hús á Flórída en nú þegar er búið að leigja ríflega 30% af því tímabili sem búið er að opna inn á. En ljóst er að félagsmenn geta náð ansi góðum leigutímabilum ef þeir eru snöggir til að skipuleggja gott frí í hitanum á Flórída. Hér má sjá myndband sem tekið var í orlofshúsi skömmu áður en frágangi lauk af byggingaraðila. Eins og sjá má á myndbandinu átti eftir að ganga frá ýmsum atriðum innandyra en það má gera sér grein fyrir því hvernig hús er um að ræða. Smellið hér og njótið ;-)

 

Birta logo lit

Starfsfólk Birtu býður sjóðfélögum í aðventukaffi og spjall í aðsetri lífeyrissjóðsins á 5. hæð að Sundagörðum 2 í Reykjavík á fimmtudaginn kemur, 7. desember, kl. 16:30.

Tilefnið er einfaldlega jólafastan og tækifærið er gripið til að eiga samverustund, rabba saman í góðum hópi, kynna vistarverur Birtu og ræða það sem hverjum og einum liggur á hjarta. 

Allt verður þetta á óformlegum nótum, fyrst og fremst notalegt!

Starfsfólk Birtu verður í gestgjafahlutverki og ber meðal annars góðgæti á borð fyrir gesti sína.

Verið hjartanlega velkomin!

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?