ASI verdlagseftirlit rautt

Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á nýjum námsbókum næmi 20-30% eða á milli 1-2.000 kr. í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á nýjum námsbókum fyrir framhaldsskóla sem framkvæmd var 15. ágúst. 

A4 voru með 25% afslátt af öllum námsbókum daginn sem könnunin var framkvæmd og sé hann tekinn með í reikninginn var lægsta verðið oftast hjá A4. Ef afslátturinn, sem gilti einungis þennan eina dag, er undanskilinn var Penninn oftast með lægsta verðið á nýjum námsbókum. 

Mál og menning var oftast með hæsta verðið og einnig voru fæstir titlar fáanlegir í verslun þeirra. Neytendur eru hvattir til að vera vakandi yfir almennum verðbreytingum og tilboðum á skólabókum þar sem verðbreytingar eru mjög örar á þessum árstíma.

Oftast 1000-2.000 kr. munur á hæsta og lægsta verði
Þar sem að 25% afsláttur í A4 gilti einungis í þennan eina dag sem könnunin var framkvæmd er ekki tekið tillit til hans í umfjölluninni. Þegar afslátturinn er ekki tekinn með inn í myndina má sjá að Penninn Eymundsson er oftast með lægsta verðið eða í 37 tilfellum af 52. Iðnú var næst oftast með lægsta verðið eða í 8 tilfellum af 52. 

Mál og menning var oftast með hæsta verðið, í 14 tilfellum og einnig með minnsta framboðið af bókum en aðeins 24 titlar voru til af þeim 52 sem voru til skoðunar í könnuninni. Iðnú var næst oftast með hæsta verðið eða í 13 tilfellum. Flestir titlarnir voru til hjá Pennanum Eymundsson eða 48 af 52 og næst mesta framboðið af nýjum námsbókum mátti finna hjá A4, 45 titla af 52. 

Sjá nánar í meðfylgjandi töflu

Í flestum tilfellum eða í 25 af 52 var munur á hæsta og lægsta verði á nýjum námsbókum 20-30%, í 6 tilfellum var verðmunurinn 30-40%, í 15 tilfellum undir 20% og í 6 tilfellum yfir 40%. Mestur var verðmunurinn 73,6% á Gísla sögu Súrssonar, lægsta verðið var hjá Pennanum 2.299 kr. en hæst var það hjá Máli og Menningu, 3.990 kr. Mesti verðmunur í krónum talið var 2.500 kr. á bókinni Góð næring, betri árangur. Lægst verðið var í Pennanum Eymundsson 4.999 kr. en hæsta hjá Máli og Menningu 7.499 kr.  Af öðrum kennslubókum má nefna að 49,8% verðmunur var á bókinni Tölfræði og Líkindareikningur sem kostaði mest, 5.990 kr. hjá Heimkaup en minnst í Pennanum Eymundsson 3.999 kr. sem gerir 1.991 kr. verðmun. 

Verð á nýjum bókum var kannað í eftirtöldum verslunum: A4 Skeifunni, Heimkaup.is, Bókabúðinni Iðnú Brautarholti, Pennanum Eymundsson Smáralind og Forlaginu Fiskislóð. 

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði, úrval eða þjónustu söluaðila. Einnig má taka fram að verð breytist mjög ört á þessum tíma í verslunum landsins vegna ýmiskonar tilboða en A4 var til dæmis með 25% afslátt á öllum sínum bókum daginn sem könnunin var framkvæmd (afslátturinn gilti einungis þennan eina dag). 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum eða við sölu nema með heimild ASÍ.

 

 

Fjölskylduhátíð RSÍ 2019

að Skógarnesi við Apavatn

dagana 14.-16.júní



Dagskrá föstudaginn 14 júní

Kl 19:30 Pubquiz. Skemmtileg spurningakeppni sem heitir “Can't Google this”

4 til 5 í liði.



Dagskrá laugardaginn 15. júní

 

Kl. 9:00 Bíóleikur og veiðikeppni hefst

Kl. 9:00-11:00   Skráning í keppnir dagsins við Stóra húsið

Kl. 11:00-16:00 Skátar verða með hoppukastala og klifurvegg

Kl. 13:00 Víðavangshlaup fyrir unga sem aldna

Kl. 13:30 Pylsur og ís í boði Rafiðnaðarsambandsins

Kl. 13:00-15:00 Golf og púttkeppni

Kl. 13:00-15:00 Keppni í körfubolta og fótbolta

Kl. 13:00-15:00 Frisbígolfkeppni

 

Dagskrárhlé er á milli 16:30-20:30. Öllum keppnum skal vera lokið og skila þarf inn öllum skorkortum og mælingum á fiskum.

 

Kl. 20:30   Kvöldvaka og verðlaunaafhending.

Kl. 21:00-23:30 Hljómsveitin Næsland spilar fyrir dansi

 

Kl. 23:30 Brenna og trúbador ef veður og vindar leyfa

 

Kl. 00:00 Miðnætursnarl, pylsur og með því fyrir fjörmikla :D

 

 


RSI Fjolskylduskemmtun A5 2 01

rafidnadarsambandid2

Markmið
Markmið iðnaðarmannafélaganna við gerð nýrra kjarasamninga er að festa í sessi þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu. 

Endurskipuleggja þarf kauptaxtakerfið svo það endurspegli markaðslaun á hverjum tíma. Iðnaðarmannafélögin gera þá kröfu að samið verði um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Félögin leggja áherslu á að félagslegum undirboðum verði útrýmt og tryggt verði að erlendir starfsmenn njóti sömu réttinda og kjara og íslenskir starfsmenn.

Gera þarf breytingar á skattkerfinu til að tryggja aukinn jöfnuð, aðgerða er þörf í húsnæðismálum svo allir búi við húsnæðisöryggi og draga þarf verulega úr tekjutengingum í tryggingakerfinu.

Launabreytingar 
Laun iðnaðarmanna verði leiðrétt enda hefur starfsfólk í iðngreinum dregist aftur úr í kjörum á undanförnum árum í samanburði við aðrar stéttir. Launabreytingar á samningstímanum verði hlutfallslegar og stuðli að auknum kaupmætti. Launahækkanir nái til allra. Verði samningur gerður til lengri tíma er mikilvægt að samið verði um áfangahækkanir á samningstímanum. 

Kauptaxtar 
Samið verði um nýtt kauptaxtakerfi sem endurspegli greidd laun á markaði á hverjum tíma; taki tillit til starfstíma í starfsgrein, ábyrgðar í starfi, menntunar og starfsþróunar. Mikilvægt er að nýtt kauptaxtakerfi taki mið af þeim breytingum sem hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði með tilkomu erlends vinnuafls. 

Auk þess að færa kauptaxta að greiddu kaupi, þannig að þeir gefi raunhæfa mynd af því kaupi sem greitt er á markaði, þarf að tengja taxtana við skilgreinda menntun svo þeir nái til þeirra starfsheita sem fjallað er um í kjarasamningum. 

Þegar einstaklingur hefur staðist sveinspróf eða lokið meistaraskóla þarf launahækkun að fylgja í kjölfarið. Fjölga þarf starfsaldurshækkunum kauptaxtakerfisins, þannig að laun hækki eftir starfsaldri viðkomandi.

Námskeiðsálag 
Námskeiðsálag komi inn í kjarasamninga.

Vinnutími 
Sökum mikillar vinnu og langs vinnutíma iðnaðarmanna setja iðnaðarmannafélögin þá kröfu á oddinn, að vinnutími félagsmanna verði styttur. Með betra skipulagi telja félögin að mögulegt sé að stytta heildarvinnutíma án skerðingar á afköstum. Stytting vinnuvikunnar verði þannig án skerðingar launa.

 Þar sem starfsmenn ganga skipulagðar vaktir skal 80% vaktavinna vera skilgreind sem full vinna.

Bakvaktarákvæði 
Nauðsynlegt er að endurskoða ákvæði um bakvaktir með eftirfarandi í huga:
 

· Ákvæði um 16,5% bakvaktarálag falli brott.  

· Skipulagning og boðun bakvakta verði skilgreind betur. 

· Fjallað verði skýrar um greiðslur fyrir þjónustu í gegnum síma eða tölvu, án mætingar á 'verkstað. Þetta á jafnframt við um þjónustu þó ekki sé um formlega   bakvakt að ræða. 

· Bakvaktargreiðsla sé greidd á meðan á útkalli stendur. 

· Sé starfsmaður kallaður aftur út í kjölfar útkalls (á meðan á útkallsgreiðslutíma stendur) skuli greiða annað útkall fyrir það. 

· Sé starfsmaður vakinn að næturlagi og svefn truflaður skuli greiða útkall fyrir slíkt.

 

Iðnnemar 
Kaup og kjör iðnnema verði endurskoðuð m.a vegna breytinga á námsskrá. Tryggja þarf að greitt sé endurmenntunargjald af nemum.
 

Atvinnuöryggi og tækniþróun 
Tryggja þarf þeim sem missa vinnuna vegna nýrrar tækni rétt til endurmenntunar og starfsþróunar.

Starfsaldurstengd réttindi 
Orlofs-, veikindaréttur og uppsagnarfrestur verði tengd starfsaldri í grein frekar en lengd starfstíma hjá sama fyrirtæki. Kennitöluflakk getur gert réttindi sem tengjast vinnu hjá sama fyrirtæki óvirk og valdið því að réttindasöfnun sem er háð samfelldu starfi hjá sama fyrirtæki glatist.

Tryggt verði að greiðsluskylda atvinnurekenda á lífeyrisiðgjaldi haldist eftir 70 ára aldur.

Orlofs- og desemberuppbætur 
Orlofs- og desemberuppbætur verði
112 mánaðarlaun starfsmanns fyrir fulla dagvinnu.

Orlof og orlofstímabil 
Álag komi sjálfkrafa á orlof sem tekið er utan orlofstímabils. Breyta þarf orlofstímabili svo það falli að sumarfríi skólabarna. Óski starfsmaður eftir því að taka vetrarorlof, þá geymist 5 dagar af sumarorlofi og verði þá vetrarorlof samtals 1
O dagar. 

Veikindaréttur 
Útvíkka þarf veikindarétt vegna veikinda barna þannig að hann nái til náinna aðstandenda (s.s. foreldra og maka). Jafnframt þarf rétturinn að ná til barna upp að 18 ára aldri þegar um alvarleg veikindi eða slys er að ræða.
 

Kostnaðarliðir 
Mikilvægt er að dagpeningar vegna ferðalaga erlendis séu greiddir fyrirfram svo starfsfólk þurfi ekki að leggja út fyrir kostnaði sjálft.

 

Greiðslur á ferðum. 
Skilgreina þarf fasta álagsgreiðslu vegna ferða á milli vinnustöðvar og dvalarstaðar. Samræma þarf skilgreiningar, t.d. greiðslur og frítökurétt, vegna ferða á vegum fyrirtækja.

 

Hvíldartímabrot 
Nauðsynlegt er að yfirfara og skýra ákvæði um hvíldartíma- og frítökurétt.
 
Fella skal niður ákvæði um samanlagða 11 tíma hvíld ef útkalli/vinnu lýkur fyrir miðnætti.

Ráðningarsamningar 
Samkeppnisákvæði, sem meina starfsmanni að hefja störf hjá samkeppnisaðila, verði bönnuð í ráðningarsamningum iðnaðarmanna eða þeim settur tímarammi í mánuðum. Skal þá starfsmaður halda óskertum heildarlaunum á því tímabili.

 

Vernd trúnaðarmanna, stjórnarmanna og meðlima samninganefndar 
Starfsmenn sem sitja í samninganefnd, stjórnum stéttarfélaga eða sinna öðrum störfum fyrir sín félög skulu njóta sambærilegrar uppsagnarverndar og trúnaðarmenn.

 

Tryggingar
Fara þarf yfir tryggingaákvæði svo starfsmenn séu betur tryggðir lendi þeir í slysum eða óhöppum.

Um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi 
Tímabært er að endurskoða þann kafla kjarasamninga sem fjallar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

 

Aðfangadagur og gamlársdagur
Aðfangadagur og gamlársdagur verði stórhátíðardagar allan daginn.

Starfslok
Ákvæði um starfslok (vegna aldurs) miðist við 5 ár hjá sama fyrirtæki í stað 10 ára.

Gildissvið og skilgreiningar
Samningurinn gildi einnig um störf iðnaðarmanna
í verslunar- og þjónustufyrirtækjum. 

Uppfæra þarf kjarasamninginn þannig að hann nái yfir öll störf tengd aðildarfélögum RSÍ. Sérstaklega skal nefna Félag tæknifólks í rafiðnaði sem og Félag kvikmyndagerðarmanna.

Samningstími
Nýr kjarasamningur gildi frá lokum þess sem rennur út þann 31. desember 2018.
 

Iðnaðarmannafélögin áskilja sér rétt til að breyta eða bæta við kröfum á meðan á viðræðum stendur eftir því hvernig þær þróast. Jafnframt getur hvert félag fyrir sig lagt fram sérkröfur í viðræðuferlinu.

 

Kröfur á stjórnvöld 

Húsnæðismál
Iðnaðarmannafélögin leggja áherslu að stjórnvöld grípi til eftirfarandi aðgerða í húsnæðismálum, svo allir geti notið húsnæðisöryggis:

 - Innleidd verði ný húsnæðisstefna með það að markmiði að tryggja öllum öruggt húsnæði til langs tíma.

 - Farið verði í sérstakt átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að vinna upp þann skort sem er á nýju íbúðarhúsnæði.

- Horft verði til fjölbreytni og lausnir verði aðlagaðar að ólíkum þörfum almennings og byggðarlaga.

- Lögfestar verði skyldur sveitarfélaga til að hafa nægjanlegt framboð af félagslegu húsnæði og hagstæðum lóðum fyrir óhagnaðardrifin húsnæðisfélög. Lausnir og leiðir þurfa að taka      mið af því að aðstæður eru misjafnar eftir landsvæðum.

- Tryggja þarf betur rétt leigjenda ekki síst hvað varðar hækkanir á leiguverði.

- Finna þarf lausnir fyrir fólk sem er yfir tekjuviðmiðum félagslega kerfisins en ræður ekki við að eignast húsnæði á almennum markaði.

- Húsnæðisliður í vísitölu neysluverðs verði tekinn út úr vísitölunni í áföngum.

- Íbúðarkaupendur eigi kost á hagstæðum lánum með vaxtakjörum sem verði hliðstæð þeim sem tíðkast í nágrannalöndunum.

- Heimilt verði að nota iðgjald til lífeyrissjóðs sem er umfram 12% (3,5%) til fyrstu íbúðarkaupa í allt að 60 -70 virka mánuði auk séreignarsparnaðar.

Velferð fyrir alla
Gerðar verði breytingar skattkerfinu með það að markmiði að auka jöfnuð. Það verði gert með því að tengja persónuafslátt við launavísitölu og fjölga skattþrepum.
 

Öllum verði tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu án tillit til efnahags. Þetta verði m.a. gert með því að dregið verði úr kostnaðarþátttöku sjúklinga, unnið verði markvisst að því að eyða biðlistum og að aðstaða þeirra sem búa á landsbyggðinni til að sækja þjónustu í heilbrigðiskerfinu verði bætt.

Tekjutengingar vegna elli- og örorkulífeyris verði afnumdar í áföngum og stefnt verði að því að þær verði 30% í lok samningstímans. Tekjutengingar vegna elli- og örorkubóta verði miðaðar við 12% iðgjald án tillits til þess hvort það renni til samtryggingar eða séreignar. Hækka þarf viðmiðunartekjur vegna barnabóta.

 

Félagslegum undirboðum útrýmt
Efla þarf eftirlit með félagslegum undirboðum á vinnustöðum. Koma þarf á fót skjótvirkum úrskurðaraðila til að úrskurða í ágreiningsmálum um starfskjör og sameina þarf núverandi vinnumarkaðsstofnanir í eina öfluga stofnun. Gert verð i átak í að útrýma kennitöluflakki. Keðjuábyrgð verði almenn og taki til alls vinnumarkaðarins.

 

Verk- og tæknimenntun í forgang
Verk- og tæknimenntun verði sett í forgang og fjármagn tryggt til nauðsynlegrar uppbyggingar. Gerðar verði nauðsynlegar breytingar ákvæðum iðnaðarlaganna til að hægt sé beita þeim gegn brotum fyrirtækja á löggjöfinni.

 

Reykjavík, 30. nóvember 2018

Félags hársnyrtisveina
Félags vélstjóra- og málmtæknimanna
Grafía

Matvís
Rafiðnaðarsambands Íslands
Samiðn

Rafidnarsamband islands jolaskjar 2017 03Árið er á enda og því gott að renna yfir verkefni sem unnin hafa verið á árinu. Hæst á lofti eru auðvitað kjarasamningarnir. Þeir renna út á miðnætti. RSÍ og iðnaðarmannafélögin hafa unnið mikla undirbúningsvinnu vegnar endurnýjunar almennu kjarasamninganna og hafa verið haldnir fjölmargir fundir á undanförnum mánuðum vegna þessa. Fundir með Samtökum atvinnulífsins hafa verið nokkuð reglubundnir í desember en kröfur iðnaðarmanna voru lagðar fram í lok nóvember.

Helstu markmið kjaraviðræðna iðnaðarmannafélaganna er að festa í sessi þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum auk þess að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Við sjáum mikil tækifæri í því að stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun. Augljóst er að vinnutími iðnaðarmanna er lengri en almennt gerist, meiri yfirvinna er unnin hjá okkur, því er bráðnauðsynlegt að ná að stytta raunverulegan vinnutíma til hagsbóta fyrir félagsmenn bæði hvað varðar laun og frítíma.

Það er augljóst að nauðsynlegt er að hækka verulega lágmarkslaun sem skilgreind eru í kjarasamningum iðnaðarmannafélaganna en töluvert bil er á milli þeirra markaðslauna sem greidd eru og lágmarkslaunanna. Slík breyting er til hagsbóta fyrir alla aðila, launafólk og atvinnurekendur. Við gerum jafnframt þá lágmarkskröfu að allir njóti sambærilegra kjara og réttinda óháð uppruna fólks er. Laun erlendra starfsmanna eru oft á tíðum mun lægri en íslenskra starfsmanna, þessum mun þarf að eyða.

Aftur að málefnum líðandi stundar. Kjararáð úrskurðaði alþingismönnum, ásamt fleiri hópum, gríðarlegum launahækkunum árið 2016 sem við höfum mótmælt síðan. Kjararáð var lagt niður af hálfu Alþingis og vildu alþingismenn meina að þá væri málið leyst. Svo er hins vegar ekki. Upplegg stjórnarliða ríkisstjórnarinnar var að láta úrskurðina jafnast út miðað við launavísitöluna á lengri tíma en til að sýna raunverulegt innsæi þá lagði ríkisstjórnin fram lagafrumvarp sem bætti heldur betur í, vísitölutryggð laun þingmanna inn í ókomna framtíð!

Já mikill vill miklu meira!

Í samtali aðila vinnumarkaðarins hefur komið fram ádeila á þessa úrskurði og bent hefur verið á hversu skaðlegt þetta er inn í samfélagið. Stjórnvöld ætla sér ekki að opna augum. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætla ekki að leggja við hlustir. Ráðherrar ætla ekki að leiðrétta þessa vitleysu sem mun á endanum skaða samfélagið með auknum ójöfnuði.

Þrátt fyrir síendurtekin varnaðarorð ætla stjórnvöld bæta í vandamálið. Það má vera að ríkisstjórnin ætli sér að komast í gegnum þennan vetur kjaraviðræðna með kjararáðsúrskurðina á bakinu en vilja síðan tryggja að aðrir megi alls ekki njóta sambærilegra hækkana því þá fari allt í kalda kol.

Verðbólgan

Við erum enn og aftur að sjá þann gamla en síður góða takt stjórnvalda, sveitarfélaga og fyrirtækja að hækka gjaldskrár og ýmsa skatta um áramótin. Í tengslum við kjarasamninga 2014 tókst að stöðva þennan sjálfvirka vítahring sem þessir aðilar voru búnir að búa til. Víxlhækkanir ollu nefnilega þeirri verðbólgu sem þá var í gangi. Alþingi hefur ákveðið að bæta í og hækka ýmis gjöld t.d. á eldsneyti og tóbak. Fasteignaskattar hækka verulega á milli ára vegna nýs fasteignamats sem eykur útgjöld heimilanna.

Allt þetta mun auka verðbólgu sem aftur mun hækka vaxtastig, auka skuldir heimilanna og auka útgjöld heimilanna í formi hærri vaxta. Við erum því væntanlega að verða komin aftur í gamla farið!

Ég tel afar brýnt að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr mælingu vísitölu neysluverðs en ég tel auk þess sérstaklega mikilvægt að við tökum til skoðunar að draga úr vægi verðtryggingar á skuldum heimilanna. Afnám verðtryggingar? Það væri auðvitað langbesta leiðin en til þess þá þarf samfélagið að taka risastór skref í gjaldmiðlamálum sem við erum sennilega ekki tilbúin til að viðurkenna eða takast á við.

Ég tel brýnt að skoða áhrif þess að verðtryggingu verði breytt og þá að hætt verði hækka skuldir sem nemur fullri hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) þess í stað verði hámark sett á þannig að eingöngu helmingur hækkunar VNV verði til verðtryggingar. Það er óeðlilegt að dreifa hækkun á verðlagi að fullu leyti á skuldsett heimili.

Að lokum óska ég félagsmönnum RSÍ og aðildarfélaga, fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Rafidnarsamband islands jolaskjar 2017 02Starfsfólk og stjórn RSÍ óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra, sem og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

ASI VerdlagseftirlitMestur verðmunur á kjöti og konfekti 
Mikill verðmunur var á jólamat milli verslana í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var á mánudaginn síðastliðinn. Mestur var verðmunurinn á algengum jólamat eins og kjöti, gosi, jólaöli og konfekti og er því ljóst að neytendur geta sparað sér töluverðar fjárhæðir þegar keypt er í jólamatinn. Allt að 1.400 kr. verðmunur var á kílóverðinu af hangilæri sem gerir 4.200 kr. verðmun ef 3kg hangilæri er keypt og 890 kr. verðmunur var á kílói af Nóa konfekti.  

4.200 kr. verðmunur á hangilæri
Mestur verðmunur var á léttreyktum lambahrygg frá Kea eða 73% verðmunur á kílóinu. Lægsta verðið var í Bónus, 1.679 kr en það hæsta í Hagkaup, 2.899 kr sem gerir 1.220 króna verðmun. Þá var 54% verðmunur á kílói af úrbeinuðu Fjalla hangilæri eða 1.400 kr. verðmunur. Lægsta verðið var í Bónus, 2.598 kr. en það hæsta í Iceland 3.998 krónur. Ef við gefum okkur að keypt sé 3 kg hangilæri gerir það 4.200 króna verðmun. 

Mikill verðmunur var á gosi eða upp í 134% verðmunur á hálfs líters dós af Hátíðarblöndu frá Vífilfelli. Lægsta verðið mátti finna í Bónus, 85 kr. en það hæsta, 199 kr. í Iceland en það gerir 114 kr. eða 134% verðmun. Þá var 58% verðmunur á 2l flösku af Pepsi Max, hæst var verðið í Hagkaup 339 kr. en lægst, 215 kr. í Bónus.  

Verðmunur á konfekti var einnig mikill. Mestur var hann 135% eða 420 kr. á 300 gr. After eight kassa. Lægsta verðið, 319 kr. mátti finna í Fjarðarkaup en það hæsta, 749 kr. í Iceland. Mestur verðmunur í krónum talið var á kílói af Nóa konfekti, lægsta verðið, 2.999 mátti finna í Krónunni en það hæsta, 3.899 í Hagkaup sem gerir 30% eða 890 kr. verðmun.

Hægt að spara sér háar upphæðir
Verðmunur á jólamat getur fljótt orðið mikill enda í mörgum tilfellum um að ræða nokkuð dýrar vörur sem mikið er keypt af yfir hátíðarnar. Mörg þúsund króna verðmunur getur verið á sömu jólasteikinni milli verslana og þá eru upphæðirnar fljótar að telja þegar mikið er keypt af gosi auk þess sem mikill verðmunur getur verið á konfekti sem er tiltölulega dýr vara. Hér eru dæmi um tvær vörukörfur, önnur keypt í Bónus og Iceland en hin í Bónus og Hagkaup en þar má glöggt sjá hversu mikill verðmunur er á lítilli vörukörfu milli verslana. Neytendur geta því sparað umtalsvert með því að kaupa í jólamatinn þar sem verðið er lágt. 

Bónus/Iceland Fjöldi/Magn Verðmunur milli verslana
Jólapinnar Vanilluís (Kjörís) 1 350 kr.
Ömmubakstur laufabrauð steikt 15 stk. 1 550 kr.
Fjallalamb hangilæri úrbeinað 3 kg. 4.200 kr.
Þykkvabæjar brúnaðar kartöflur 690 gr. 2 480 kr.
Vífilfell hæatíðarblanda 0,5 lítrar 6 684 kr.
  Samtals 6,264 kr.

 

Bónus/Hagkaup Fjöldi/Magn Verðmunur milli verslana
Jóla Brie 150 gr. (MS) 2 408 kr.
Kristjáns laufabrauð steikt 15 stk. 1 610 kr.
Kea hangiframpartur - kg. verð 3 kg. 2.760 kr.
Nóa konfektkassi 135 gr. með mynd 1 240 kr.
  Samtals 4.018 kr.


Verðbreytingar hraðar á þessum árstíma
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða í 55 tilfellum af 105 en Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 20 tilfellum. Hæstu verðin voru oftast í Iceland, 46 tilfellum af 105 en næst oftast í Hagkaup eða í 40 tilfellum. Lægstu verðin á kjöti og konfekti dreifðust þó á margar verslanir. Algengt er að verslanir séu með ýmis tilboð á þessum árstíma og eru verðbreytingar tíðar. Neytendur eru því hvattir til að fylgjast vel með tilboðum og verðbreytingum á næstu dögum. 

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Skeifunni, Krónunni Bíldshöfða, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Garðabæ, Kjörbúðinni Garði og Costco. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Sjá töflu (smella hér)

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

RSI jol 2018 bannerOpnunartími skrifstofu RSÍ um jólin

Aðfangadagur 24. desember LOKAÐ

27. desember opið frá 13:00-16:00

28. desember opið frá 9:00-16:00

Gamlársdagur 31. desember LOKAÐ

2. janúar 2019  opið frá 13:00-16:00

rafis bordar 1300x400 24

Ummæli Bjarna Benediktssonar um stöðuna á vinnumarkaði eru til marks um það áhugaleysi sem lesa má frá ríkisstjórn til þess að byggja upp sanngjarnt samfélag. Árið 2016 úrskurðaði kjararáð um 45% hækkun launa alþingismanna og hefur mætt gríðarlegri gagnrýni í samfélaginu síðan. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að þessi úrskurður valdi miklu ósætti á vinnumarkaði þá hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar ekki látið það á sig fá, sennilega ekki meðtekið skilaboðin. Fjármálaráðherra ákvað síðan að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi sem mun bæta í skömmina og tryggja alþingismönnum hinn fullkomna jólapakka, vísitölutryggð laun. Þingmenn munu samkvæmt því halda 45% hækkuninni og fylgja launaþróun opinberra starfsmanna. 

Hins vegar þegar kemur að því að semja um launakjör almennings þá á allt um koll að keyra. Fjármálaráðherra skammast yfir því að fólkið sé frekt og hótar því, já hótar því að ef almenningur hefur sig ekki hægan þá verði sko ekki neitt gert til að bæta stöðu launafólks, skattalækkun komi ekki til almennings. 

Það er klárt mál að þessi viðbrögð fjármálaráðherra eru ekki til þess fallin að stuðla að einhverri sátt eða ýta undir að jákvæðari niðurstöður á vinnumarkaði.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

jol 2016

Jólaball RSÍ var haldið í Gullhömrum 16.desember síðastliðinn.

Myndir frá ballinu (smella hér)

KLUKK 5x20 2018

Klukk er frítt tímaskráningarapp fyrir launafólk. Þú skráir vinnutímana þína með einum smelli í Klukk og veist þá nákvæmlega hversu mikið þú vinnur og hvenær. Hægt er að virkja staðsetningarbúnað í appinu sem minnir þig á að klukka þig inn eða út. Náðu þér í Klukk í AppStore eða á GooglePlay.

Nánar á asi.is/klukk

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?