Fréttir frá 2018

02 28. 2019

Kröfugerð iðnaðarmannafélaganna 2018

rafidnadarsambandid2

Markmið
Markmið iðnaðarmannafélaganna við gerð nýrra kjarasamninga er að festa í sessi þann árangur sem náðst hefur á síðustu árum og tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu. 

Endurskipuleggja þarf kauptaxtakerfið svo það endurspegli markaðslaun á hverjum tíma. Iðnaðarmannafélögin gera þá kröfu að samið verði um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Félögin leggja áherslu á að félagslegum undirboðum verði útrýmt og tryggt verði að erlendir starfsmenn njóti sömu réttinda og kjara og íslenskir starfsmenn.

Gera þarf breytingar á skattkerfinu til að tryggja aukinn jöfnuð, aðgerða er þörf í húsnæðismálum svo allir búi við húsnæðisöryggi og draga þarf verulega úr tekjutengingum í tryggingakerfinu.

Launabreytingar 
Laun iðnaðarmanna verði leiðrétt enda hefur starfsfólk í iðngreinum dregist aftur úr í kjörum á undanförnum árum í samanburði við aðrar stéttir. Launabreytingar á samningstímanum verði hlutfallslegar og stuðli að auknum kaupmætti. Launahækkanir nái til allra. Verði samningur gerður til lengri tíma er mikilvægt að samið verði um áfangahækkanir á samningstímanum. 

Kauptaxtar 
Samið verði um nýtt kauptaxtakerfi sem endurspegli greidd laun á markaði á hverjum tíma; taki tillit til starfstíma í starfsgrein, ábyrgðar í starfi, menntunar og starfsþróunar. Mikilvægt er að nýtt kauptaxtakerfi taki mið af þeim breytingum sem hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði með tilkomu erlends vinnuafls. 

Auk þess að færa kauptaxta að greiddu kaupi, þannig að þeir gefi raunhæfa mynd af því kaupi sem greitt er á markaði, þarf að tengja taxtana við skilgreinda menntun svo þeir nái til þeirra starfsheita sem fjallað er um í kjarasamningum. 

Þegar einstaklingur hefur staðist sveinspróf eða lokið meistaraskóla þarf launahækkun að fylgja í kjölfarið. Fjölga þarf starfsaldurshækkunum kauptaxtakerfisins, þannig að laun hækki eftir starfsaldri viðkomandi.

Námskeiðsálag 
Námskeiðsálag komi inn í kjarasamninga.

Vinnutími 
Sökum mikillar vinnu og langs vinnutíma iðnaðarmanna setja iðnaðarmannafélögin þá kröfu á oddinn, að vinnutími félagsmanna verði styttur. Með betra skipulagi telja félögin að mögulegt sé að stytta heildarvinnutíma án skerðingar á afköstum. Stytting vinnuvikunnar verði þannig án skerðingar launa.

 Þar sem starfsmenn ganga skipulagðar vaktir skal 80% vaktavinna vera skilgreind sem full vinna.

Bakvaktarákvæði 
Nauðsynlegt er að endurskoða ákvæði um bakvaktir með eftirfarandi í huga:
 

· Ákvæði um 16,5% bakvaktarálag falli brott.  

· Skipulagning og boðun bakvakta verði skilgreind betur. 

· Fjallað verði skýrar um greiðslur fyrir þjónustu í gegnum síma eða tölvu, án mætingar á 'verkstað. Þetta á jafnframt við um þjónustu þó ekki sé um formlega   bakvakt að ræða. 

· Bakvaktargreiðsla sé greidd á meðan á útkalli stendur. 

· Sé starfsmaður kallaður aftur út í kjölfar útkalls (á meðan á útkallsgreiðslutíma stendur) skuli greiða annað útkall fyrir það. 

· Sé starfsmaður vakinn að næturlagi og svefn truflaður skuli greiða útkall fyrir slíkt.

 

Iðnnemar 
Kaup og kjör iðnnema verði endurskoðuð m.a vegna breytinga á námsskrá. Tryggja þarf að greitt sé endurmenntunargjald af nemum.
 

Atvinnuöryggi og tækniþróun 
Tryggja þarf þeim sem missa vinnuna vegna nýrrar tækni rétt til endurmenntunar og starfsþróunar.

Starfsaldurstengd réttindi 
Orlofs-, veikindaréttur og uppsagnarfrestur verði tengd starfsaldri í grein frekar en lengd starfstíma hjá sama fyrirtæki. Kennitöluflakk getur gert réttindi sem tengjast vinnu hjá sama fyrirtæki óvirk og valdið því að réttindasöfnun sem er háð samfelldu starfi hjá sama fyrirtæki glatist.

Tryggt verði að greiðsluskylda atvinnurekenda á lífeyrisiðgjaldi haldist eftir 70 ára aldur.

Orlofs- og desemberuppbætur 
Orlofs- og desemberuppbætur verði
112 mánaðarlaun starfsmanns fyrir fulla dagvinnu.

Orlof og orlofstímabil 
Álag komi sjálfkrafa á orlof sem tekið er utan orlofstímabils. Breyta þarf orlofstímabili svo það falli að sumarfríi skólabarna. Óski starfsmaður eftir því að taka vetrarorlof, þá geymist 5 dagar af sumarorlofi og verði þá vetrarorlof samtals 1
O dagar. 

Veikindaréttur 
Útvíkka þarf veikindarétt vegna veikinda barna þannig að hann nái til náinna aðstandenda (s.s. foreldra og maka). Jafnframt þarf rétturinn að ná til barna upp að 18 ára aldri þegar um alvarleg veikindi eða slys er að ræða.
 

Kostnaðarliðir 
Mikilvægt er að dagpeningar vegna ferðalaga erlendis séu greiddir fyrirfram svo starfsfólk þurfi ekki að leggja út fyrir kostnaði sjálft.

 

Greiðslur á ferðum. 
Skilgreina þarf fasta álagsgreiðslu vegna ferða á milli vinnustöðvar og dvalarstaðar. Samræma þarf skilgreiningar, t.d. greiðslur og frítökurétt, vegna ferða á vegum fyrirtækja.

 

Hvíldartímabrot 
Nauðsynlegt er að yfirfara og skýra ákvæði um hvíldartíma- og frítökurétt.
 
Fella skal niður ákvæði um samanlagða 11 tíma hvíld ef útkalli/vinnu lýkur fyrir miðnætti.

Ráðningarsamningar 
Samkeppnisákvæði, sem meina starfsmanni að hefja störf hjá samkeppnisaðila, verði bönnuð í ráðningarsamningum iðnaðarmanna eða þeim settur tímarammi í mánuðum. Skal þá starfsmaður halda óskertum heildarlaunum á því tímabili.

 

Vernd trúnaðarmanna, stjórnarmanna og meðlima samninganefndar 
Starfsmenn sem sitja í samninganefnd, stjórnum stéttarfélaga eða sinna öðrum störfum fyrir sín félög skulu njóta sambærilegrar uppsagnarverndar og trúnaðarmenn.

 

Tryggingar
Fara þarf yfir tryggingaákvæði svo starfsmenn séu betur tryggðir lendi þeir í slysum eða óhöppum.

Um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi 
Tímabært er að endurskoða þann kafla kjarasamninga sem fjallar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

 

Aðfangadagur og gamlársdagur
Aðfangadagur og gamlársdagur verði stórhátíðardagar allan daginn.

Starfslok
Ákvæði um starfslok (vegna aldurs) miðist við 5 ár hjá sama fyrirtæki í stað 10 ára.

Gildissvið og skilgreiningar
Samningurinn gildi einnig um störf iðnaðarmanna
í verslunar- og þjónustufyrirtækjum. 

Uppfæra þarf kjarasamninginn þannig að hann nái yfir öll störf tengd aðildarfélögum RSÍ. Sérstaklega skal nefna Félag tæknifólks í rafiðnaði sem og Félag kvikmyndagerðarmanna.

Samningstími
Nýr kjarasamningur gildi frá lokum þess sem rennur út þann 31. desember 2018.
 

Iðnaðarmannafélögin áskilja sér rétt til að breyta eða bæta við kröfum á meðan á viðræðum stendur eftir því hvernig þær þróast. Jafnframt getur hvert félag fyrir sig lagt fram sérkröfur í viðræðuferlinu.

 

Kröfur á stjórnvöld 

Húsnæðismál
Iðnaðarmannafélögin leggja áherslu að stjórnvöld grípi til eftirfarandi aðgerða í húsnæðismálum, svo allir geti notið húsnæðisöryggis:

 - Innleidd verði ný húsnæðisstefna með það að markmiði að tryggja öllum öruggt húsnæði til langs tíma.

 - Farið verði í sérstakt átak í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að vinna upp þann skort sem er á nýju íbúðarhúsnæði.

- Horft verði til fjölbreytni og lausnir verði aðlagaðar að ólíkum þörfum almennings og byggðarlaga.

- Lögfestar verði skyldur sveitarfélaga til að hafa nægjanlegt framboð af félagslegu húsnæði og hagstæðum lóðum fyrir óhagnaðardrifin húsnæðisfélög. Lausnir og leiðir þurfa að taka      mið af því að aðstæður eru misjafnar eftir landsvæðum.

- Tryggja þarf betur rétt leigjenda ekki síst hvað varðar hækkanir á leiguverði.

- Finna þarf lausnir fyrir fólk sem er yfir tekjuviðmiðum félagslega kerfisins en ræður ekki við að eignast húsnæði á almennum markaði.

- Húsnæðisliður í vísitölu neysluverðs verði tekinn út úr vísitölunni í áföngum.

- Íbúðarkaupendur eigi kost á hagstæðum lánum með vaxtakjörum sem verði hliðstæð þeim sem tíðkast í nágrannalöndunum.

- Heimilt verði að nota iðgjald til lífeyrissjóðs sem er umfram 12% (3,5%) til fyrstu íbúðarkaupa í allt að 60 -70 virka mánuði auk séreignarsparnaðar.

Velferð fyrir alla
Gerðar verði breytingar skattkerfinu með það að markmiði að auka jöfnuð. Það verði gert með því að tengja persónuafslátt við launavísitölu og fjölga skattþrepum.
 

Öllum verði tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu án tillit til efnahags. Þetta verði m.a. gert með því að dregið verði úr kostnaðarþátttöku sjúklinga, unnið verði markvisst að því að eyða biðlistum og að aðstaða þeirra sem búa á landsbyggðinni til að sækja þjónustu í heilbrigðiskerfinu verði bætt.

Tekjutengingar vegna elli- og örorkulífeyris verði afnumdar í áföngum og stefnt verði að því að þær verði 30% í lok samningstímans. Tekjutengingar vegna elli- og örorkubóta verði miðaðar við 12% iðgjald án tillits til þess hvort það renni til samtryggingar eða séreignar. Hækka þarf viðmiðunartekjur vegna barnabóta.

 

Félagslegum undirboðum útrýmt
Efla þarf eftirlit með félagslegum undirboðum á vinnustöðum. Koma þarf á fót skjótvirkum úrskurðaraðila til að úrskurða í ágreiningsmálum um starfskjör og sameina þarf núverandi vinnumarkaðsstofnanir í eina öfluga stofnun. Gert verð i átak í að útrýma kennitöluflakki. Keðjuábyrgð verði almenn og taki til alls vinnumarkaðarins.

 

Verk- og tæknimenntun í forgang
Verk- og tæknimenntun verði sett í forgang og fjármagn tryggt til nauðsynlegrar uppbyggingar. Gerðar verði nauðsynlegar breytingar ákvæðum iðnaðarlaganna til að hægt sé beita þeim gegn brotum fyrirtækja á löggjöfinni.

 

Reykjavík, 30. nóvember 2018

Félags hársnyrtisveina
Félags vélstjóra- og málmtæknimanna
Grafía

Matvís
Rafiðnaðarsambands Íslands
Samiðn

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?