Ljostaeknifelag2015 2 

Ljóstæknifélag Íslands óskar eftir tilnefningum í samkeppni um Íslensku lýsingarverðlaunin árið 2015. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn síðastliðin vetur við hátíðlega athöfn í Perlunni í tengslum við Vetrarhátíð. Samtímis stóð LFÍ ásamt samstarfsaðilum fyrir dagskrá alla helgina í Perlunni við frábærar undirtektir.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar­ og viðskiptaráðherra var viðstödd athöfnina og afhenti verðlaunin. Þau féllu í skaut Akratorgs á Akranesi en hönnuðir verksins voru lýsingarteymi Verkís og Landmótunar og allur lýsingabúnaður var frá Johan Rönning.

Frestur til að skila inn tilnefningum fyrir lýsingarverðlaunin 2015 er til 15. janúar 2016.

Innsendum verkum verður að hafa verið lokið á árunum 2014 ­ 2015. Verkefnin geta verið af ýmsum toga, t.d. innanhússlýsing, utanhússlýsing bygginga, lýsing opinna svæða, lóðarlýsing o.s.frv. Verðlaunin verða afhent í febrúar 2016, nánari upplýsingar um stað og stund koma síðar.

Verðlaunahafi verður sjálfkrafa fulltrúi Íslands í Norrænu lýsingarverðlaununum (Nordisk Lyspris) ásamt síðasta verðlaunahafa. Norrænu lýsingarverðlaunin eru afhent annað hvert ár og verða næst afhent hér á landi árið 2016.

Íslendingar hafa unnið Norrænu lýsingarverðlaunin einu sinni árið 2006 fyrir Bláa Lónið ­ Heilsulind. Þau voru síðast veitt árið 2014 og komu þá í hlut danska verkefnisins ‘Multihallen på Gl. Hellerup Gymnasium’.

Tilnefningum skal skilað inn til lfi@ljosfelag.is merkt : Tilnefning til ÍLV 2015. Fylgja skal forskrift fyrir innsendar tilnefningar sem hægt er að nálgast hér: ÍLV 2015 ­
forskrift (smella hér)

jolakvedja RSI 2015 banner

Rafiðnaðarsamband Íslands óskar þér og þínum gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs.
Við þökkum ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða og hlökkum til samstarfs á komandi ári.

 

rafidnadarsambandidAtkvæðagreiðslu um kjarasamning RSÍ við Landsnet lauk fyrir helgi og eru niðurstöður eftirfarandi:

Á kjörskrá voru 29 en 28 greiddu atkvæði eða 96,55%

Já sögðu 18 eða 64,3%

Nei sögðu 9 eða 32,1%

Auður var 1 eða 3,6%

Samningurinn er því samþykktur.

asi rautt

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega áhuga- og úrræðaleysi ríkisstjórnarflokkanna þegar kemur að hagsmunum og aðstæðum þeirra tekjulægstu í samfélaginu. Enn er minnisstæð lækkun tekju- og eignaskatta stóreigna- og hátekjufólks og lækkun auðlindaskatta sem leiðir til kallar á niðurskurð ríkisútgjalda, þ.m.t. heilbrigðismála. Þessi ríkisstjórn hækkar skatt á mat en lækkar skatta á lúxusvörur. Hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga sitja eftir á sama tíma og skuldir eignafólks eru lækkaðar.

Í því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu stendur ekki til að mæta nauðsynlegri fjárþörf heilbrigðiskerfisins vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið. Það mun óhjákvæmilega leiða til dýrari og lakari læknisþjónustu. Á sama tíma er verið að undirbúa enn frekari markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Fyrir liggur að nú þegar hefur hópur fólks ekki efni á að nýta sér þessa þjónustu.

Þrátt fyrir að allir kjarasamningar sem ríkið hefur staðið að miði við að hækkun launa verði afturvirk frá og með 1. maí sl. og Kjararáð hafi hækkað laun alþingismanna og ráðherra frá og með 1. mars, hafnar ríkisstjórnin að hækka bætur almannatrygginga með sambærilegum hætti og nemur hækkun lægstu launa og miða við 1. maí. Á sama tíma leggur meirihluti efnahags- og skattanefndar til breytingar á tekjuskattsfrumvarpi fjármálaráðherra og heimila fulla samsköttun tekna hjóna/sambýlisfólks sem gæti lækkað tekjuskatt þeirra sem eru með meira en 1,4 milljón kr. á mánuði um allt að 900 þús. kr. á ári. Þessi aðgerð er talin kosta ríkissjóð um 3.500 milljónir króna á ári.

Áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum og aðstæðum tekjulágra fjölskyldna endurspeglast einnig í húsnæðismálum. Mikil vinna hefur verið lögð í mótun tillagna um nauðsynleg úrræði, einkum verulega hækkun húsaleigubóta og nýtt félagslegt húsaleigukerfi. Breið samstaða náðist um þá niðurstöðu. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin héti því að beita sér fyrir að lögfesta þessar breytingar á haustþingi, er fyrirséð að þessi mál muni dragast fram á næsta ár. Miðstjórn ASÍ lýsir fullri ábyrgð af þessum drætti á fjármála- og efnahagsráðherra, en fyrirséð er að þetta er forsendubrestur gagnvart endurskoðun kjarasamninga í febrúar.

Miðstjórn ASÍ hafnar þeim áherslum og forgangsröðun sem lýst er hér að framan.

asi rautt 

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á jólamatvöru í átta matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag. Kannað var verð á 108 algengum vörum sem eru í boði fyrir jólahátíðina. Bónus Korputorgi var með lægsta verðið í 50 tilvikum af 108, Krónan Lindum í 38 tilvikum og Víðir Skeifunni í 12 tilvikum. Samkaup-Úrval Hafnarfirði var með hæsta verðið í 56 tilvikum af 108, Hagkaup Holtagörðum í 22 tilvikum, Iceland Vesturbergi 17 og Fjarðarkaup í 11 tilvikum. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði en sjá mátti allt að 147% verðmun.

Mestur verðmunur reyndist vera á ódýrustu fersku jarðaberjunum sem fáanleg voru, en þau voru dýrust á 3.740 kr./kg. hjá Krónunni en ódýrust á 1.512 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, verðmunurinn er 2.228 kr. eða 147%. Minnstur verðmunur að þessu sinni reyndist vera á Jólasíldinni frá ORA sem var dýrust á 829 kr. hjá Hagkaupum og Iceland en ódýrust á 773 kr. hjá Bónus og Krónunni sem er 7% verðmunur.

Mikill munur á vöruúrvali verslana
Engin verslun sem skoðuð var átti til allar vörurnar sem skoðaðar voru í mælingunni. Vöruúrval reyndist mest í verslun Krónunnar þar sem fáanlegar voru 96 vörur af 108, Fjarðarkaup átti til 94, Hagkaup 93 og Nettó Mjódd átti 91 vöru. Minnsta úrvalið var hjá hjá Víði en þar voru aðeins til 67 vörur af 108, Bónus átti 78 og Samkaup-Úrval átti 80.
Af þeim vörum sem til voru í öllum verslunum má byrja á því að nefna að mikill verðmunur var á KEA hamborgarhrygg m/beini sem var ódýrastur á 1.485 kr./kg. hjá Víði en dýrastur á 1.898 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 28% verðmunur. Ódýrasti frosni kalkúnninn var ódýrastur á 1.185 kr./kg. hjá Víði en dýrastur á 1.699 kr./kg. hjá Iceland sem er 43% verðmunur. Jólabríe frá MS var ódýrastur á 632 kr. hjá Bónus en dýrastur á 849 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 34% verðmunur. Laufabrauðið frá Ömmubakstri var ódýrast á 1.785 kr. í Bónus en dýrast á 2.298 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 29% verðmunur. Konfektkassinn frá Nóa 135 gr. var ódýrastur á 935 kr. hjá Bónus en dýrastur á 1.298 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 39% verðmunur. Að lokum má nefna að Egils malt og appelsín ½ l. var ódýrast á 138 kr. hjá Víði en dýrast á 209 kr. hjá Samkaupum-Úrvali sem er 51% verðmunur.

Verðsamanburð á jólamat má sjá hér (smella)

Kannað var verð á 108 matvörum s.s. kjötvörum, mjólkurvörum, kökum, konfekti, drykkjarvörum, grænmeti og ávöxtum. Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru sem er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur/tilboðsverð af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum. Tilboð eru víða í matvöruverslunum nú fyrir hátíðarnar og verðbreytingar tíðar. Neytendur ættu því að vera vel vakandi vilji þeir gera hagstæð innkaup á jólamatnum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Víði, Fjarðarkaupum, Samkaupum – Úrvali og Hagkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Banner KjarasamningarAtkvæðagreiðslu um kjarasamning RSÍ við Norðurorku sem undirritaður var 11. desember síðastliðinn er lokið. Niðurstöður talningar eru eftirfarandi:

Á kjörskrá voru 12 og kusu 12 eða 100%.

Já sögðu 11 eða 91,7%
Nei sagði 1 eða 8,3%

Samningurinn er því samþykktur.

rafidnadarsambandid rautt

Félagsfundir og kynning á niðurstöðum launakönnunar.

Þriðjudaginn 15.des. á Strikinu Akureyri kl.12:00 og Kaffi Krók á Sauðárkróki kl.12:00

asi rautt

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á jólabókum í sjö bókabúðum og matvöruverslunum víðsvegar um landið mánudaginn 7. desember.
Kannað var verð á 92 bókatitlum, sem eru í bókatíðindum 2015. Penninn-Eymundsson, A4, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu töldu það ekki þjóna hagsmunum sínum að verðlagseftirlitið upplýsi neytendur um verð á bókum í þeirra verslunum fyrir jólin.

Oftast var á milli 20-40% munur á hæsta og lægsta verði milli verslana. Lægsta verðið var oftast að finna í verslun Bónus Langholti Akureyri eða á 51 titli, hjá Samkaupum-Úrvali á 11 titlum, Nettó á 10 titlum og Krónan var með lægsta verðið á níu titlum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Hagkaupum Skeifunni eða á 41 bókatitli, Forlagið Fiskislóð var með hæsta verðið á 36 titlum og Bóksala stúdenta á 16 titlum.

Mjög mikill munur á vöruúrvali
Mikill munur er á vöruúrvali á milli þeirra sjö verslana sem könnunin náði til. Af þeim 92 bókatitlum sem skoðaðir voru átti Forlagið 85, Hagkaup 81, Bóksala Stúdenta 77 og Samkaup-Úrval 75. Fæstir bókatitlar voru fáanlegir hjá Samkaupum-Úrvali í Hafnarfirði eða 33, Nettó Borgarnesi átti til 54 og Bónus 58.
Mestur verðmunur í könnuninni var á skáldverkinu Þýska húsið, eftir Arnald Indriðason, sem var ódýrust hjá Krónunni á 3.899 kr. en dýrust hjá Forlaginu á 6.490 kr. sem er 2.591 kr. verðmunur eða 66%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á 501 feluhlutur sem var ódýrust hjá Samkaupum-Úrvali á 1.918 kr. en dýrust hjá Forlaginu á 2.090 kr. sem er 172 kr. verðmunur eða 9%.

Í um helmingi tilvika var verðmunurinn á milli 20-40%

Af þeim bókum sem til voru hjá öllum söluaðilum má nefna bókina Grímsævintýri, fyrir unga og gamla sem var ódýrust á 5.398 kr. hjá Bónus
en dýrust á 7.190 kr. hjá Bóksölu stúdenta, eða 33% verðmunur. Vísindabók Villa, Geimurinn og geimferðir var ódýrust á 3.759 kr. hjá Bónus en dýrust á 5.290 kr. hjá Forlaginu sem er 41% verðmunur. Bókin Fléttur – skref fyrir skref var ódýrust á 2.369 kr. hjá Bónus en dýrust á 3.190 kr. hjá Forlaginu. Að lokum má nefna að bókin Týnd í paradís, eftir Mikael Torfason var ódýrust 4.598 kr. hjá Bónus en dýrust á 6.590 kr. hjá Forlaginu sem er 43% verðmunur.

Sjá verðsamanburð á bókatitlum 2015 í töflu.(smella hér)

Penninn-Eymundsson, A4, Mál og menning Laugavegi og Iða Lækjargötu neituðu þátttöku í könnuninni.

Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, A4 Skeifunni, Bóksölu Stúdenta Sæmundargötu, Nettó Borgarnesi, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Langholti AKureyri, Krónunni Lindum og Samkaupum-Úrvali Hafnarfirði.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Neytendur ættu einnig að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast oft ört í verslunum á þessum árstíma.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

asi rautt 

Um áramótin verða tollar afnumdir á fatnaði og skóm. Þetta eru 324 tollskránúmer. Er um að ræða ýmiskonar fatnað, t.d. notaðan fatnað, skófatnað, höfuðfatnað, leðurfatnað, loðskinn, fatnað úr plasti og gúmmí sem og fylgihluti þeirra; hnappar, tölur og rennilásar.

Afnám tolla af fatnaði og skóm á að skila 13% meðallækkun verðs til neytenda á þeim vörum sem áður báru tollinn. En þetta er ekki svona einfalt. Þegar skoðað er hlutfall þeirra vara í flokknum sem bera toll kemur í ljós að það eru aðeins 60% þeirra vara sem fluttar eru til landsins sem bera toll. Miðað við það hlutfall ætti afnámið að skila 7,8% lækkun á liðnum fatnaður og skór í vísitölu neysluverðs.

Þessar breytingar á tollum eru til hagsbóta fyrir neytendur. Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um 13% lækkun á hinum ýmsum fatnaði.

   2015      2016   Lækkun í kr. 
2 pör sokkar í pakka 1.990 1.731 259
Náttgalli 4.570 3.976 594
Brjóstahaldari  8.900   7.743  1.57
Peysa  13.990  12.171  1.819 
Barnaúlpa 14.624  12.723  1.901 
Gallabuxur 16.990 14.781  2.209 
Kjóll 35.700  31.059 4.641 
Leðurstígvél  46.995  40.886  6.109
Fullorðinsúlpa 69.500  60.465  9.035 


Verðlagseftirlitið vonast til þess að afnám tollanna á fatnað og skóm skili sér sem fyrst til neytenda með lækkun á vöruverði. Mun verðlagseftirlit Alþýðusambandsins fylgjast vel með breytingunum og hvetur neytendur til hins sama.

rafidnadarsambandid rautt
Eins og undanfarin ár geta atvinnulausir félagsmenn sótt um styrk fyrir jólin.
Jólastyrkurinn 2015 er:
Kr: 19.500 auk þess kr: 19.500 með hverju barni undir 18 ára aldri og sannanlega á framfæri félagsmanns, þ.e. eiga sama lögheimili.
Af upphæðinni er tekinn staðgreiðsluskattur 39.74%.
Reglur um styrkinn eru þessar:
Að félagsmaður hafi verið án atvinnu undangengna 6 mánuði.
Að félagsmaður hafi greitt félagsgjald af fullum atvinnuleysisbótum.
Að félagsmaður hafi verið fullgreiðandi félagsmaður undangengna 12 mánuði fyrir atvinnumissi.
Skila verður inn umsóknum fyrir 18.desember 2015
Styrkurinn verður greiddur út 21.desember 2015

Atvinnuleitendum er heimilt að hafa tekjur upp að vissu marki en frítekjumark er kr. 59.047 á mánuði og getur því atvinnuleitandi notið aukatekna sem því nemur. Fari tekjur upp fyrir frítekjumarkið skerðast bætur um hálfa krónu fyrir hverja eina krónu.
Atvinnuleitendur verða sjálfir að tilkynna Vinnumálastofnun um allar aukatekjur er þeir njóta og er það á ábyrgð hvers og eins að tilkynna það.
Við hvetjum því atvinnuleitendur til þess að kynna sér ítarlega lög og reglur tengdar Atvinnuleysistryggingasjóði áður en jólastyrkur RSÍ er nýttur.
Umsóknareyðublað er hér, má senda rafrænt: 
(smella hér)

Undirflokkar

whiteRafræn leynileg atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls er hafin meðal félagsmanna í aðildarfélögum Rafiðnaðarsambands Íslands sem starfa á almennum kjarasamningi RSÍ og Samtaka atvinnulífsins. Atkvæðagreiðslur standa einnig yfir í öðrum félögum iðnaðarmanna.

Félagsmenn eru spurðir hvort þeir vilji að boðað verði allsherjarverkfall sem standi frá miðnætti aðfararnótt 10. júní til miðnættis að kvöldi 16. júní 2015 og til ótímabundins allsherjarverkfalls frá miðnætti aðfararnótt 24. ágúst 2015. Verkfall mun eingöngu koma til framkvæmda ef þörf krefur og ef kjarasamningar hafa ekki verið undirritaðir. Atkvæðagreiðslu lýkur þann 1. júní kl. 10.

Þeir félagsmenn sem starfa á almenna samningnum fá bréf sent heim til sín með upplýsingum um atkvæðagreiðsluna og kóða sem þeir geta notað til þess að greiða atkvæði. Fái einhver ekki bréf sem telur sig eiga rétt á að kjósa er hægt að hafa samband við skrifstofu RSÍ.

Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur félagsmenn eindregið til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og sýna hug sinn í verki. Góð þátttaka og góð samstaða sendir mikilvæg skipaboð að samningaborðinu. Við viljum að íslenskur vinnumarkaður verði samkeppnishæfur við Norðurlöndin og að fólk geti lifað mannsæmandi fjölskyldulífi af dagvinnulaunum. Með því að nýta samtakamáttinn getum við náð markmiðum okkar og fengið sanngjarnar kjarabætur.

Hér má nálagast ýmsar upplýsingar um kjaraviðræður 2015.

Hér er hlekkur á kosningasíðu.          

Tökum öll þátt í atkvæðagreiðslunni!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?