jolakvedjaRSI2020isl banner jolakvedjaRSI2020eng

 

raudikrossinn 2020 banner

Iðnfélögin í 2F Húsi Fagfélaganna:

Byggiðn – Félag byggingamanna,
FIT – Félag iðn- og tæknigreina,
MATVÍS – Matvæla- og veitingafélag Íslands,
RSÍ – Rafiðnaðarsamband Íslands og
Samiðn – samband iðnfélaga,

hafa að þessu sinni ákveðið að veita innanlandsstarfi Rauða kross Íslands fjárstuðning fyrir jólin og vilja með því styrkja Rauða krossinn í því mikilvæga verkefni að styðja þá fjárhagslega sem höllustum fæti standa í samfélaginu og þá sérstaklega yfir jólahátíðina.

Iðnfélögin sem standa að 2F Húsi Fagfélaganna eru nú að ljúka sínu fyrsta starfsári í sameiginlegu húsnæði og með sameiginlega þjónustuskrifstofu, en markmiðið með nánara samstarfi er að efla starf félaganna og auka vægi þeirra til hagsbóta fyrir félagsmenn sína og iðngreinarnar í landinu.

Við óskum Rauða krossinum velfarnaðar og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

raudikrossinn 2020 1200 x 771

ASI verdlagseftirlit rautt

Nokkur þúsund króna verðmunur á sumum jólamat

Mestur verðmunur var á grænmeti og ávöxtum, kjöti, konfekti og ís í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat sem gerð var 15. desember. Allt að 2.750 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af kjöti og 3.402 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af bláberjum. 

Bónus var oftast með lægsta verðið, í 79 tilfellum af 137 en Hagkaup oftast með hæsta verðið, í 51 tilfelli. Verð á matvöru getur breyst ört á þessum árstíma og ættu neytendur því að fylgjast vel með verðbreytingum vilji þeir gera hagstæð innkaup á mat fyrir jólin. 

Í helmingi tilvika yfir 40% munur á hæsta og lægsta verði
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á jólamat væri undir 20%, í 64 tilfellum af 137 eða í 47% tilfella. Í 38 tilfellum af 137 eða 28% tilfella var munurinn 20-40% og í 34 tilfellum eða 25% tilfella var munurinn yfir 40%. Í 72 tilfellum eða í 53% tilvika var því munur á hæsta og lægsta verði yfir 40%.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 79 tilfellum af 137 og Krónan næst oftast, í 21 tilfelli. Fjarðarkaup var með lægsta verðið í 12 tilfellum, Nettó og Hagkaup í 9 tilfellum, Iceland og Kjörbúðin í 8 tilfellum og Heimkaup í 6 tilfellum. Hagkaup var oftast með hæsta verðið eins og fyrr segir, í 51 tilfelli af 137. Heimkaup var með hæsta verðið í 28 tilfellum, Iceland 24 sinnum, Fjarðarkaup í 23 tilfellum, Kjörbúðin í 12 og Nettó í sjö tilfellum.

Í verðtöflunni hér að neðan má sjá verð á öllum vörum í könnuninni. Ef ýtt er á nafnið á vöruflokknum kemur fellilisti þar sem skipta má um vöruflokk. Ef ýtt er á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið á viðkomandi vöru. E merkir að varan hafi ekki verið til en em merkir að varan hafi ekki verið verðmerkt.  

 

  

Allt að 2.750 kr. munur á kílóverði á kjöti 
Mestur verðmunur var á ávöxtum, grænmeti, kjöti og konfekti og ís í könnuninni. Í sumum tilfellum nam munur á hæsta og lægsta kílóverði á kjöti nokkur þúsund krónum. Mestur verðmunur í krónum talið var á kílóverði af íslensku hangilæri frá Norðlenska, þurrverkuðu og hálf úrbeinuðu, 2.750 kr. eða 60%. Hæst var verðið í Iceland, 7.349 kr. en lægst í Krónunni 4.599 kr. Mestur hlutfallslegur munur á hæsta og lægsta verði var á frosnum kjúklingabringum, 163% eða 2.601 kr. Lægst var verðið í Bónus, 1.598 kr. en hæst í Nettó, 4.199 kr. Þá var 50% eða 1.300 kr. munur á hæsta og lægsta verði af taðreyktu úrbeinuðu hangilæri frá Kjarnafæði. Lægsta verðið var í Nettó, 2.599 kr. en hæsta verðið var í Hagkaup, 3.899 kr. 

Úrval af kjöti var bæði mismikið og ólíkt eftir verslunum í könnuninni og nokkur dreifing var á því hvar mátti finna lægstu verðin á kjöti. Neytendur eru hvattir til að fylgjast vel með örum verðbreytingum á matvöru í aðdraganda jóla til að gera hagstæð kaup á jólamatnum. 

Mikill verðmunur var á sumu konfekti en sem dæmi má taka 47% eða 1.004 kr. mun á hæsta og lægsta verði af 260 gr. Nóa konfekt kassa. Hæsta verðið var í Kjörbúðinni, 3.139 kr. en lægsta verðið í Bónus, 2.135 kr. Þá var 43% munur á hæsta og lægsta verði af Kjörís konfekt ístertu, 43% eða 942 kr. Lægsta verðið var í Bónus, 2.179 kr. en það hæsta í Heimkaup, 3.120 kr. 

Mikill verðmunur var á grænmeti og ávöxtum en mestur munur var á hæsta og lægsta kílóverði af bláberjum 379% eða 3.402 kr. Hæst var kílóverðið á bláberjum í Iceland, 4.300 kr. en lægst í Bónus, 898 kr. 

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 137 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Korputorgi, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Smáralind, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Jolabaekur2020 

Algengur verðmunur á jólabókum 1.500-2000 kr.

Í yfir helmingi tilfella var 1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á vinsælum jólabókum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var 10. desember. Í 12 tilfellum af 53 var verðmunur á bókum yfir 2.000 kr. en mest fór munurinn upp í 3.000 kr. Penninn.is var oftast með hæsta verðið í könnuninni en Forlagið var næst oftast með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið.

Penninn Eymundsson neitaði þátttöku í könnuninni og var fulltrúa verðlagseftirlits ASÍ vísað út úr versluninni í Austurstræti. Fyrirtækið virðist ekki telja það þjóna hagsmunum sínum að neytendur séu upplýstir um verð í versluninni. Rétt er að vekja athygli á að verð var kannað á Penninn.is sem er netverslun Pennans Eymundssonar.

Allt að 2000 kr. munur á barnabókum og 3.000 kr. munur á öðrum bókum
Í meirihluta tilfella eða 35 af 53 var 30-40% verðmunur á bókum í könnuninni. Í 45 af 53 tilfellum var verðmunurinn yfir 1.000 kr. og í 29 tilfellum yfir 1.500 kr. Bækur eru vinsælar jólagjafir og getur slíkur verðmunur því verið fljótur að telja ef margar bækur eru keyptar. Penninn.is var oftast með hæsta verðið, í 26 tilfellum af 53 en Forlagið var með hæsta verðið í 23 tilfellum. Bónus var oftast með lægsta verðið á bókum, í 47 tilfellum af 53. 

Í tveimur tilfellum var yfir 3.000 kr. verðmunur í könnuninni. Mestur munur á hæsta og lægsta verði í krónum talið var á bókinni um arkitektinn Guðjón Samúelsson húsameistara, 3.009 kr. eða 21%. Hæst var verðið á Penninn.is, 13.999 kr. en lægst í Forlaginu og á Heimkaup.is, 10.990 kr. Þá var 3.001 kr. eða 40% munur á hæsta og lægsta verði á bókinni Ellert eftir Ellert B. Schram og Björn Jón Bragason. Lægst var verðið í Bónus, 4.498 kr. en hæst á Penninn.is, 7.499 kr. 

Einnig var mikill verðmunur á ódýrari bókum en sem dæmi má nefna 2.001 kr. eða 33% mun á hæsta og lægsta verði á bókinni Aprílsólarkuldi e. Elísabetu Jökulsdóttur. Lægst var verðið í Bónus, 3.998 kr. en hæst á Penninn.is, 5.999 kr. Þá var 1.592 kr. eða 27% munur á hæsta og lægsta verði á Þagnarmúr eftir metsöluhöfundinn, Arnald Indriðason. Lægst var verðið í Bónus, 4.398 kr. en hæst í Forlaginu, 5.990 kr.

 

 

 

 

 

2.000 kr. verðmunur á barnabókum
Í mörgum tilfellum var mikill verðmunur á barnabókum en mestur munur á hæsta og lægsta verði á barnabók var 2.101 kr. eða 35% á bókinni Krakkalögin okkar. Lægst var verðið í Bónus, 3.898 kr. en hæst á Penninn.is, 5.999 kr. Þá var 38% eða 1.501 kr. munur á bókinni Öflugir strákar: Trúðu á sjálfan þig eftir Bjarna Fritzson. Lægst var verðið í Nettó, 2.589 kr. en hæst í Hagkaup, 3.999 kr. 

 

 

 

 

 

Neytendur ættu að hafa hugfast að verð á algengum bókatitlum breytast ört í verslunum á þessum árstíma.

Um könnunina
Könnunin var gerð samtímis í eftirtöldum verslunum: Forlaginu Fiskislóð, Nettó Mjódd, Hagkaupum Skeifunni, Bónus Smáratorgi, Heimkaup.is og Pennanum.is. Penninn Eymundsson vísaði starfsmanni verðlagseftirlitsins út úr verslun í Smáralind og meinaði honum að taka niður upplýsingar um verð.  

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Þær verslanir sem eru í könnuninni eru ólíkar og bjóða sumar hverjar einungis upp á bækur í kringum jól og eru með minna úrval á meðan aðrar selja bækur allan ársins hring. 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

bordspil 2 

3.000 kr. verðmunur á Scrabble 

Algengast var að 20-40% munur væri á hæsta og lægsta verði á spilum í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var 10. desember. Í krónum talið var munur á hæsta og lægsta verði oftast 1.500- 2.000 kr. en mesti verðmunur á spili var 3.000 kr. Verslunin Margt og mikið var oftast með hæsta verðið en A4 oftast með lægsta verðið en þessa dagana er afsláttur af spilum og púslum í A4. Verslunin Spilavinir var með mesta úrvalið.

Margt og mikið oftast með hæsta verðið á spilum
Verslunin Margt og mikið var oftast með hæsta verðið, í 10 tilfellum af 30, Spilavinir í 7 tilfellum og Kids coolshop í 6 tilfellum. A4 var oftast með lægsta verðið, í 20 tilfellum af 30. Í um helmingi tilfella eða 16 tilfellum af 30 var yfir 1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á spilum í könnuninni en í 24 tilfellum var 30-70% munur á hæsta og lægsta verði. Mestur munur á hæsta og lægsta verði var á spilinu Skjaldbökuhlaupið, 120% eða 2.405 kr. en hæsta verðið var í Margt og Mikið, 4.400 kr. en lægsta verðið á Heimkaup.is, 2.290 kr. Í krónum talið var mestur verðmunur á íslensku sígildu útgáfunni af Scrabble, 3.191 kr. Lægst var verðið í Hagkaup, 6.799 kr. en hæsta verðið í Margt og mikið, 9.999 kr.

 

 

 

3.000 kr. munur á hæsta og lægsta verði af Ticket to ride
Mikill verðmunur var á ýmsum vinsælum spilum eins og Ticket to ride – Europe en munur á hæsta og lægsta verði á því spili var 52%. Í krónum talið nam munurinn 3.071 kr. Hæsta verðið var í Margt og mikið, 8.990 kr. en lægsta verðið í A4, 5.919 kr. Munur á hæsta og lægsta verði á íslenskri útgáfu af orðaspilinu Codenames, nam 61% eða 1.699 kr. Hæsta verðið var í Margt og mikið, 4.490 kr. en lægsta verðið í A4, 2.791 kr.

Þá var mikill munur á spilinu Partners + en munur á hæsta og lægsta verði á því spili var 41% eða 2.630 kr. Hæst var verðið á Heimkaup.is, 8.990 kr. en lægsta verðið í A4, 6.380 kr. Svipaða sögu var að segja af Útvegsspilinu sem var endurútgefið á árinu en munur á hæsta og lægsta verði af því spili nam 2.320 kr. eða 30%. Lægst var verðið í A4, 7.679 kr. en hæst var verðið í Kids Coolshop, 9.999 kr. 

Mesta úrvalið í Spilavinum
Mesta úrvalið var í Spilavinum en þar fengust 28 spil af þeim 30 sem könnuð voru. Minnsta úrvalið var í Nexus en þar fengust 10 spil af þeim sem könnunin náði til. Nexus selja ekki íslenskar útgáfur af spilum en mörg spilanna í könnuninni voru annað hvort íslensk eða í íslenskri útgáfu. Það getur því verið að sömu spil séu til í öðrum útgáfum í verslununum á öðru verði. Einnig var tiltölulega lítið úrval í Kids Coolshop en 13 spil af 30 voru til þar. 24 spil fengust í Hagkaup, 22 í A4, 21 í Heimkaup, 20 í Elko og 19 í Margt og mikið. 

Um könnunina
Í könnuninni voru verð á 30 spilum skráð niður. Ef afsláttur var gefinn upp af verði var hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru; Heimkaup.is, Kids Coolshop, Hagkaup, Elko, Spilavinir, Nexus, Margt og mikið og A4.

Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekki lagt mat á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana. Einhverjar verslanir bjóða t.d. upp á heimsendingu með sínum vörum en ekki er tekið tillit til þess í könnuninni. Sum spilanna voru einungis fáanleg á tveimur stöðum enda fáir staðir með mikið eða sama úrval af og spilum. 

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ

Kofid og hrunid

Tekjufall mest hjá láglaunafólki - hætta á vaxandi ójöfnuði.

Ný greining sérfræðingahóps ASÍ, BSRB og BHM um efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar.

 

Vísbendingar eru um að efnahagsleg áhrif COVID-veirufaraldursins komi harðast niður á láglaunahópum á Íslandi. Konur eru sérstaklega útsettar fyrir áhrifum kófsins, en einnig ungt fólk og innflytjendur. Þegar má sjá merki þess hér á landi að ójöfnuður fari vaxandi vegna heimsfaraldursins. 

Þetta er á meðal þess sem fram kom á opnum veffundi sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar um efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar sem efnt var til í dag undir yfirskriftinni „Kófið og hrunið: lærdómur og leiðin fram á við“.

Á fundinum kynnti Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, nýja greiningu hópsins þar sem efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar eru borin saman við áhrif kreppunnar sem varð í kjölfar bankahrunsins 2008. Niðurstöðurnar eru í samræmi við rannsóknir Eurostat á áhrifum faraldursins eftir atvinnugreinum og mismunandi hópum launafólks.

Greining sérfræðingahópsins sýnir að samdrátturinn í ferðaþjónustu er veigamikill í þessu samhengi. Þá hafa listamenn og starfsfólk í menningartengdum greinum upplifað mun meiri samdrátt nú en í kjölfar hrunsins. Ekki mælist samdráttur í greinum í opinbera kerfinu sem skýrist af því að opinber kerfi hafa verið í framlínu í baráttu við veiruna og vinnuálag t.d. innan heilbrigðisþjónustu því mjög mikið. Konur eru í meirihluta starfandi í þessum greinum. Þá er hlutdeild kvenna í mörgum greinum ferðaþjónustu og framlínustörfum í baráttunni við COVID-19 hærri hér á landi en meðaltalið í löndum Evrópu. 

Í greiningunni er einnig vikið að áskorunum framtíðar með tilliti til heimsfaraldursins. Fram kemur að alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðabankann hafa þungar áhyggjur af vaxandi ójöfnuði í kjölfar faraldursins og hvetja ríki heims til viðbragða.

Í samantekt Vilhjálms er stuðst við gögn um samdrátt í launagreiðslum innan einstaka atvinnugreina annars vegar milli mars og september 2008 og 2009 og milli mars og september 2019 og 2020 hins vegar. Samkvæmt niðurstöðum greiningarinnar hefur launafólk í láglaunagreinum tekið mun meiri skell af kófinu en bankahruninu 2008 og vegur atvinnumissir þar þyngst. 

Hópurinn vekur athygli á einhæfni útflutningsgreina Íslendinga og sveiflukenndu hagkerfi. Viðbragða sé þörf til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu 

Að kynningunni lokinni ræddu þær Drífa Snædal, forseti ASÍ, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, niðurstöður greiningarinnar, langtímaáhrif faraldursins og þau efnahags- og samfélagslegu viðfangsefni sem því fylgja. Sérfræðingahópurinn mun fjalla frekar um tillögur að sértækum aðgerðum á næstu misserum. 

 

Um sérfræðingahópinn  

Sérfræðingahópur ASÍ, BSRB og BHM var skipaður 16. september sl. og hefur þegar skilað af sér skýrslu um áhrif kreppunnar á atvinnuleysi ólíkra hópa. (smella hér)

Hópinn skipa: 

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, formaður  

Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í viðskiptafræði og fulltrúi í fjármálaráði  

Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR  

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB  

Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands  

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur hjá Eflingu  

Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM  

Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur ASÍ, starfar með hópnum 

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, var í hópnum og tók þátt í gerð fyrstu skýrslu hans og hugmyndavinnu hópsins.

grai herinn 

Almenn umsamin launahækkun hjá BSRB-ASI-BHM fyrir árið 2021 eru 15.750 kr.

Fjármála — og efnahagsrádherra hefur sagt að meginreglan við hækkun ellilífeyris milli ára skuli vera að miða við almennar umsamdar launhækkanir á almennum vinnumarkaði. Það sé í fullu samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar. (Sjá þingskjal 327 - 149 löggjafarþing)

Þad er skýlaus krafa eldra fólks að við ákvörðun um hækkun ellilifeyris fyrir árið 2021 fari Alþingi að lögum og lífeyririnn hækki að lágmarki um 15.750 kr.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 er hins vegar gert ráð fyrir að ellilífeyrir hækki um 3.6%, sem myndi hækka lífeyrinn um 9.244 kr. á mánuði á sama tíma og lágmarks launahækkun skv. kjarasamningum er 15.750 kr. Að frádregnum skatti og skerðingum verða þessar 9.244 kr. að rétt um 4000 kr.

Þvi er fagnað að öryrkjum skuli ætlud 50 þús. kr. eingreiðsla í desember og minnt á jafnræðisreglu í þvi sambandi.

Eldra fólk hefur ekki samningsrétt og verður að treysta á að Alþingi fari að lögum við ákvörðun um hækkun ellilífeyris.

Veidikortid 2020 banner 1300x400 

Veiðikortið fyrir 2021 er komið í sölu hjá RSÍ, verð til félagsmanna er  kr. 5000. Hver félagsmaður getur aðeins keypt eitt kort. 

Vekjum athygli á að vegna Covid-19 er eingöngu hægt að kaupa veiðikortið á orlofsvef okkar. (smella hér)

Informujemy, że RSÍ rozpoczęło sprzedaż kart wędkarskich na rok 2021. Cena dla członków związków to 5000 ISK, przy czym zastrzega się, że każdy członek może kupić tylko jedną kartę.

Należy pamiętać, że ze względu na pandemię Covid-19, kartę można kupić tylko przez naszą stronę internetową. (clik here)

Launakonnun 2020 banner

Launakönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Rafiðnaðarsamband Íslands er komin á heimasíðu RSÍ.

Árleg launakönnun RSÍ var gerð í október síðastliðnum. Þátttaka í könnuninni var heldur minni en í fyrra en alls svöruðu 1.319 félagsmenn eða um 28% félagsmanna samanborið við 34% 2019.  Það sem mikilvægast er að horfa í er hvernig launaþróun dagvinnulauna er á milli ára. Að meðaltali eru dagvinnulaun í september 2020 648.000 kr. og  hækka um rúm 4,4% að meðaltali frá 2019. Það er hins vegar misjafnt á milli félaga hvernig breytingar mælast en mest er hækkun dagvinnulauna hjá félagi rafeindavirkja eða 7,4% en dagvinnulaun lækka að meðaltai um 4% hjá félagi Rafiðnaðarmanna á Suðurlandi. Rétt er að taka fram að tiltölulega fáir svarendur eru í hvorum hópi fyrir sig sem getur valdið meiri sveiflum í mælingum á milli ára. Hækkun heildarlauna er á svipuðu róli og hækkun dagvinnulauna en heildarlaun mældust 804.000 kr og hækka um 3,8% á milli ára.

Nær allir svarendur eru í fullu starfi eða 94% sem er fjölgun um 2% frá síðustu könnun. Vinnutími fólks í fullu starfi er 182 stundir og styttist um nærri fimm stundir frá síðustu könnun. Samhliða þessu er fróðlegt að skoða niðurstöður varðandi vinnutímastyttingu en 63,7% svarenda segja vinnutímastyttingu þegar hafa farið fram á sínum vinnustað eða hafa verið undirbúna. Því fleiri sem svara því til að vinnutímastytting hafi farið fram því styttri er vinnutíminn að meðaltali.  

Þegar spurt var um áherslur í starfi RSÍ næstu mánuði kom fram að mesta áherslan er á kjaraþáttinn en því næst á stöðugleika verðlags en í könnun 2019 var mesta áherslan á styttingu vinnutíma. Þessar niðurstöður koma ekki á óvart því eins og fram kemur hér að framan hefur stytting vinnutíma farið fram eða verið undirbúin hjá tæplega 64% svarenda. 

 Launakönnunin er mjög umfangsmikil og hvetjum við félagsmenn til þess að kynna sér helstu niðurstöður hennar en jafnframt gefur könnunin félagsmönnum gott tækifæri til að bera sig saman við markaðinn og sækja launahækkanir séu laun ekki samkeppnishæf. 

Nýjasta og eldri kannanir eru staðsettar á síðunni undir "ÚTGÁFA"

Launakönnun (smella hér)

Tryggingarstofnun 1300x400

English    Polski

Félagslegum viðbótarstuðningi er ætlað að styrkja framfærslu aldraðra sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum.

Hverjir geta sótt um?
Einstaklingar sem eru 67 ára eða eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelja varanlega á Íslandi. Erlendir ríkisborgarar geta átt rétt á viðbótarstuðningi að uppfylltum nánari skilyrðum.

Í hverju fellst stuðningurinn?
Félagslegur viðbótarstuðningur getur mest orðið 90% af fullum ellilífeyri almannatrygginga. Einstaklingar geta einnig átt rétt á 90% af mánaðarlegri fjárhæð heimilisuppbótar.

Allar tekjur greiðsluþega koma til frádráttar fjárhæð mánaðarlegs viðbótarstuðnings utan 25.000 kr. frítekjumarks á mánuði.

Umsækjandi verður að hafa sótt um og tekið út að fullu öll réttindi sem hann kann að eiga eða hafa áunnið sér. Þetta á m.a. við um launatengd réttindi, greiðslur almannatrygginga og félagsleg aðstoð ríkisins sem og atvinnutengdar iðgjaldatengdar lífeyrisgreiðslur hjá íslenskum og erlendum aðilum.

Hvernig er umsóknarferlið?
Sótt er um rafrænt í gegnum Mínar síður á heimasíðu Tryggingastofnunar, www.tr.is. (Til þess að skrá sig inn á Mínar síður þurfa umsækjendur að hafa annað hvort rafræn skilríki eða Íslykil frá Þjóðskrá Íslands).

Mögulegt er að sækja um þrjá mánuði aftur í tímann. (Til 31. janúar 2021 er hægt að sækja um viðbótarstuðning frá gildistöku laganna, 1. júlí 2020).

Afgreiðsla umsókna tekur allt að fjórum vikum. Í kjölfar umsóknar á Mínum síðum er umsækjandi boðaður í viðtal hjá Tryggingastofnun.

Nánari upplýsingar og umsókn má finna á heimasíðu Tryggingastofnunar https://www.tr.is/65/vidbotarstudningur-vid-aldrada

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?