Fréttir frá 2020

12 17. 2020

Verðkönnun á jólamat

ASI verdlagseftirlit rautt

Nokkur þúsund króna verðmunur á sumum jólamat

Mestur verðmunur var á grænmeti og ávöxtum, kjöti, konfekti og ís í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á jólamat sem gerð var 15. desember. Allt að 2.750 kr. munur var á hæsta og lægsta kílóverði af kjöti og 3.402 kr. munur á hæsta og lægsta kílóverði af bláberjum. 

Bónus var oftast með lægsta verðið, í 79 tilfellum af 137 en Hagkaup oftast með hæsta verðið, í 51 tilfelli. Verð á matvöru getur breyst ört á þessum árstíma og ættu neytendur því að fylgjast vel með verðbreytingum vilji þeir gera hagstæð innkaup á mat fyrir jólin. 

Í helmingi tilvika yfir 40% munur á hæsta og lægsta verði
Algengast var að munur á hæsta og lægsta verði á jólamat væri undir 20%, í 64 tilfellum af 137 eða í 47% tilfella. Í 38 tilfellum af 137 eða 28% tilfella var munurinn 20-40% og í 34 tilfellum eða 25% tilfella var munurinn yfir 40%. Í 72 tilfellum eða í 53% tilvika var því munur á hæsta og lægsta verði yfir 40%.

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 79 tilfellum af 137 og Krónan næst oftast, í 21 tilfelli. Fjarðarkaup var með lægsta verðið í 12 tilfellum, Nettó og Hagkaup í 9 tilfellum, Iceland og Kjörbúðin í 8 tilfellum og Heimkaup í 6 tilfellum. Hagkaup var oftast með hæsta verðið eins og fyrr segir, í 51 tilfelli af 137. Heimkaup var með hæsta verðið í 28 tilfellum, Iceland 24 sinnum, Fjarðarkaup í 23 tilfellum, Kjörbúðin í 12 og Nettó í sjö tilfellum.

Í verðtöflunni hér að neðan má sjá verð á öllum vörum í könnuninni. Ef ýtt er á nafnið á vöruflokknum kemur fellilisti þar sem skipta má um vöruflokk. Ef ýtt er á vöruheitin raðast verslanirnar eftir því hver er með hæsta og lægsta verðið á viðkomandi vöru. E merkir að varan hafi ekki verið til en em merkir að varan hafi ekki verið verðmerkt.  

 

  

Allt að 2.750 kr. munur á kílóverði á kjöti 
Mestur verðmunur var á ávöxtum, grænmeti, kjöti og konfekti og ís í könnuninni. Í sumum tilfellum nam munur á hæsta og lægsta kílóverði á kjöti nokkur þúsund krónum. Mestur verðmunur í krónum talið var á kílóverði af íslensku hangilæri frá Norðlenska, þurrverkuðu og hálf úrbeinuðu, 2.750 kr. eða 60%. Hæst var verðið í Iceland, 7.349 kr. en lægst í Krónunni 4.599 kr. Mestur hlutfallslegur munur á hæsta og lægsta verði var á frosnum kjúklingabringum, 163% eða 2.601 kr. Lægst var verðið í Bónus, 1.598 kr. en hæst í Nettó, 4.199 kr. Þá var 50% eða 1.300 kr. munur á hæsta og lægsta verði af taðreyktu úrbeinuðu hangilæri frá Kjarnafæði. Lægsta verðið var í Nettó, 2.599 kr. en hæsta verðið var í Hagkaup, 3.899 kr. 

Úrval af kjöti var bæði mismikið og ólíkt eftir verslunum í könnuninni og nokkur dreifing var á því hvar mátti finna lægstu verðin á kjöti. Neytendur eru hvattir til að fylgjast vel með örum verðbreytingum á matvöru í aðdraganda jóla til að gera hagstæð kaup á jólamatnum. 

Mikill verðmunur var á sumu konfekti en sem dæmi má taka 47% eða 1.004 kr. mun á hæsta og lægsta verði af 260 gr. Nóa konfekt kassa. Hæsta verðið var í Kjörbúðinni, 3.139 kr. en lægsta verðið í Bónus, 2.135 kr. Þá var 43% munur á hæsta og lægsta verði af Kjörís konfekt ístertu, 43% eða 942 kr. Lægsta verðið var í Bónus, 2.179 kr. en það hæsta í Heimkaup, 3.120 kr. 

Mikill verðmunur var á grænmeti og ávöxtum en mestur munur var á hæsta og lægsta kílóverði af bláberjum 379% eða 3.402 kr. Hæst var kílóverðið á bláberjum í Iceland, 4.300 kr. en lægst í Bónus, 898 kr. 

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 137 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Mjódd, Bónus Korputorgi, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Engihjalla, Hagkaup í Smáralind, Kjörbúðinni Sandgerði og á Heimkaup.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?