Fréttir frá 2018

12 31. 2018

Áramótakveðja formanns

Rafidnarsamband islands jolaskjar 2017 03Árið er á enda og því gott að renna yfir verkefni sem unnin hafa verið á árinu. Hæst á lofti eru auðvitað kjarasamningarnir. Þeir renna út á miðnætti. RSÍ og iðnaðarmannafélögin hafa unnið mikla undirbúningsvinnu vegnar endurnýjunar almennu kjarasamninganna og hafa verið haldnir fjölmargir fundir á undanförnum mánuðum vegna þessa. Fundir með Samtökum atvinnulífsins hafa verið nokkuð reglubundnir í desember en kröfur iðnaðarmanna voru lagðar fram í lok nóvember.

Helstu markmið kjaraviðræðna iðnaðarmannafélaganna er að festa í sessi þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum auk þess að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Við sjáum mikil tækifæri í því að stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun. Augljóst er að vinnutími iðnaðarmanna er lengri en almennt gerist, meiri yfirvinna er unnin hjá okkur, því er bráðnauðsynlegt að ná að stytta raunverulegan vinnutíma til hagsbóta fyrir félagsmenn bæði hvað varðar laun og frítíma.

Það er augljóst að nauðsynlegt er að hækka verulega lágmarkslaun sem skilgreind eru í kjarasamningum iðnaðarmannafélaganna en töluvert bil er á milli þeirra markaðslauna sem greidd eru og lágmarkslaunanna. Slík breyting er til hagsbóta fyrir alla aðila, launafólk og atvinnurekendur. Við gerum jafnframt þá lágmarkskröfu að allir njóti sambærilegra kjara og réttinda óháð uppruna fólks er. Laun erlendra starfsmanna eru oft á tíðum mun lægri en íslenskra starfsmanna, þessum mun þarf að eyða.

Aftur að málefnum líðandi stundar. Kjararáð úrskurðaði alþingismönnum, ásamt fleiri hópum, gríðarlegum launahækkunum árið 2016 sem við höfum mótmælt síðan. Kjararáð var lagt niður af hálfu Alþingis og vildu alþingismenn meina að þá væri málið leyst. Svo er hins vegar ekki. Upplegg stjórnarliða ríkisstjórnarinnar var að láta úrskurðina jafnast út miðað við launavísitöluna á lengri tíma en til að sýna raunverulegt innsæi þá lagði ríkisstjórnin fram lagafrumvarp sem bætti heldur betur í, vísitölutryggð laun þingmanna inn í ókomna framtíð!

Já mikill vill miklu meira!

Í samtali aðila vinnumarkaðarins hefur komið fram ádeila á þessa úrskurði og bent hefur verið á hversu skaðlegt þetta er inn í samfélagið. Stjórnvöld ætla sér ekki að opna augum. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætla ekki að leggja við hlustir. Ráðherrar ætla ekki að leiðrétta þessa vitleysu sem mun á endanum skaða samfélagið með auknum ójöfnuði.

Þrátt fyrir síendurtekin varnaðarorð ætla stjórnvöld bæta í vandamálið. Það má vera að ríkisstjórnin ætli sér að komast í gegnum þennan vetur kjaraviðræðna með kjararáðsúrskurðina á bakinu en vilja síðan tryggja að aðrir megi alls ekki njóta sambærilegra hækkana því þá fari allt í kalda kol.

Verðbólgan

Við erum enn og aftur að sjá þann gamla en síður góða takt stjórnvalda, sveitarfélaga og fyrirtækja að hækka gjaldskrár og ýmsa skatta um áramótin. Í tengslum við kjarasamninga 2014 tókst að stöðva þennan sjálfvirka vítahring sem þessir aðilar voru búnir að búa til. Víxlhækkanir ollu nefnilega þeirri verðbólgu sem þá var í gangi. Alþingi hefur ákveðið að bæta í og hækka ýmis gjöld t.d. á eldsneyti og tóbak. Fasteignaskattar hækka verulega á milli ára vegna nýs fasteignamats sem eykur útgjöld heimilanna.

Allt þetta mun auka verðbólgu sem aftur mun hækka vaxtastig, auka skuldir heimilanna og auka útgjöld heimilanna í formi hærri vaxta. Við erum því væntanlega að verða komin aftur í gamla farið!

Ég tel afar brýnt að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr mælingu vísitölu neysluverðs en ég tel auk þess sérstaklega mikilvægt að við tökum til skoðunar að draga úr vægi verðtryggingar á skuldum heimilanna. Afnám verðtryggingar? Það væri auðvitað langbesta leiðin en til þess þá þarf samfélagið að taka risastór skref í gjaldmiðlamálum sem við erum sennilega ekki tilbúin til að viðurkenna eða takast á við.

Ég tel brýnt að skoða áhrif þess að verðtryggingu verði breytt og þá að hætt verði hækka skuldir sem nemur fullri hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) þess í stað verði hámark sett á þannig að eingöngu helmingur hækkunar VNV verði til verðtryggingar. Það er óeðlilegt að dreifa hækkun á verðlagi að fullu leyti á skuldsett heimili.

Að lokum óska ég félagsmönnum RSÍ og aðildarfélaga, fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?