Fréttir frá 2017

12 21. 2017

Ályktun miðstjórnar ASÍ um fjárlagafrumvarið fyrir árið 2018

asi rauttReykjavík 20. desember 2017

Alþýðusambandið hefur það að leiðarljósi að hefja samstarf við nýjar ríkisstjórnir á jákvæðum nótum. Þróun þess samstarfs mótist síðan af þeim áherslum og aðgerðum sem komið er í framkvæmd. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um þessa ríkisstjórn. Þannig styður ASÍ áform nýrrar ríkisstjórnar um eflingu menntakerfisins og opinbera heilbrigðiskerfisins, m.a. með auknum fjárveitingum og áherslubreytingum. 

Lestur fjárlagafrumvarps nýrrar ríkisstjórnar gefur hins vegar lítið tilefni til bjartsýni og að óbreyttu mun bilið á milli ríkra og fátækra í samfélaginu enn fara vaxandi.  

Aukin framlög til heilbrigðiskerfisins eru vissulega til bóta en þau duga með engu móti til að mæta þeirri miklu fjárþörf sem til staðar er.  Greiðsluþátttaka sjúklinga er allt of mikil og enn er gert ráð fyrir því að framlög til einkareksturs í heilbrigðiskerfinu aukist umtalsvert meira en til opinberu þjónustunnar. Jafnframt mótmælir ASÍ harðlega viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að auka jöfnuð og endurreisa réttindi launafólks. Þetta birtist m.a. í veikingu á barna- og vaxtabótakerfinu og virðingaleysi fyrir afkomutryggingu launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi. Gríðarlegur húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er ekki tekinn alvarlega og sá hluti menntakerfisins sem þjónar launafólki með litla formlega menntun er vanræktur. Þá sjást engin merki um að efna eigi loforð um efling verk- og starfsnáms.

Miðstjórn ASÍ kallar eftir þeim áherslum í fjárlögum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins um efnahagslegan og samfélagslegan stöðugleika. Ljóst má vera að þetta fjárlagafrumvarp dugar ekki til þess að leggja grunn að slíku samstarfi. Miðstjórn lýsir jafnframt vonbrigðum sínum með að ríkisstjórnin ætli ekki að hafa neitt frumkvæði að bættum lífskjörum og auknu afkomuöryggi félagsmanna ASÍ. 

Bilið milli ríkra og fátækra eykst
Í rannsókn hagdeildar ASÍ á þróun skattbyrði launafólks síðastliðin 20 ár kemur skýrt fram að skattbyrði launafólks hefur aukist og þeim mun meira eftir því sem tekjurnar eru lægri. Það eru því mikil vonbrigði að ekki sé brugðist við þessari þróun í fjárlagafrumvarpinu heldur þvert á móti haldið áfram á sömu braut með því að lækka útgjöld til barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta. Tekjuójöfnuður mun halda áfram að aukast þar sem dregið er enn frekar úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins.

Afkomuöryggi launafólks ógnað
Afkomutrygging launafólks í atvinnuleysistryggingum, ábyrgðasjóði launa og fæðingarorlofi er veikt enn eitt árið. Atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki sem hlutfall af lágmarkslaunum og mun það hlutfall enn lækka á milli ára. Hámarksgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa nema nú rétt um 50% af meðaltekjum á vinnumarkaði en voru um 90% á árinu 2009. Ekki á að endurreisa fæðingarorlofskerfið þrátt fyrir tillögur starfshóps stjórnvalda þar um. Kaupmáttur hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði mun því rýrna áfram og verður um 40% lægri en á árinu 2007. Engin áform eru heldur uppi um lengingu fæðingarorlofsins. 

Vanefndir í húsnæðismálum
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 2015 var gert ráð fyrir byggingu 600 íbúða í almenna íbúðakerfinu árlega til ársins 2019. Árleg framlög til að mæta þessu hafa verið 3 milljarðar kr. en byggingarkostnaður hefur hins vegar hækkað á tímabilinu og því dugir framlagið ekki fyrir þeim fjölda íbúða sem lofað var. 

ASÍ hefur ítrekað lýst því yfir að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áformað er  eða um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin til að mæta uppsafnaðri þörf og slá á þenslu á húsnæðismarkaði. Almennar íbúðir eru fyrir tekjulægsta launafólkið en margir í þeim hópi eru í alvarlegum húsnæðisvanda. Stjórnvöld verða að sjá sóma sinn í því að tryggja öllum húsnæðisöryggi. Núverandi ástand er smánarblettur á samfélaginu. 

Framhaldsfræðslan skilin eftir 
Framlög til vinnustaðanámssjóðs og framhaldsfræðslu sem þjónar þeim hópum sem hafa hvað minnsta menntun á vinnumarkaði munu að óbreyttu lækka að raungildi. Þá sjást þess ekki merki í frumvarpinu að efna eigi fyrirheit stjórnarsáttmálans um eflingu verk- og starfsnáms.  Ekki er gert ráð fyrir neinum frekari fjármunum vegna þróunar fagháskólanáms sem verið hefur í vinnslu undanfarin ár. Undrun vekur að verkefnið eigi að færa í hendur háskólanna og að ekkert sé minnst á hlutverk Samráðshóps um fagháskólanám.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?