Fréttir frá 2015

10 7. 2015

Alþjóðlegur aðgerðadagur vegna Rio Tinto í dag!

RioTintoÍ dag er baráttudagur verkalýðsfélaga víðsvegar um heiminn þar sem augun beinast að Rio Tinto. Rio Tinto hefur unnið að því með grimmum hætti að fækka fastráðnum starfsmönnum sinum og vilja frekar fá starfsmenn verktaka á hverjum stað til þess að sinna ýmsum verkefnum í verksmiðjum sem og námum. Á sama tíma dregur fyrirtækið markvisst úr réttindum starfsfólks sem á heimtingu á að fá meira starfsöryggi, góðan aðbúnað og mannsæmandi laun.

En þá spyrja sumir, “Af hverju geta starfsmenn ekki notið sömu réttinda hjá verktaka?”. Svarið við þessu er mjög einfalt því í fullkomnum heimi þá ætti það að vera mögulegt EN þegar svo stór aðili er á smáum markaði getur viðkomandi risi beitt ýmsum aðferðum til að þrýsta verði niður með útboðum sem getur verið langt umfram eðlilega samkeppni, eins og raun ber vitni. Ætli aðilar sér að lifa í slíku umhverfi þá verða þeir nánast að taka því sem boðið er til greiðslu fyrir verk og sætta sig við það að stóri aðilinn í þessu hagnist á því að nýta krafta viðkomandi verktaka.

Námu og álrisinn, Rio Tinto, vill því lágmarka óeðlilega mikið það sem fyrirtækið skilur eftir í hverju samfélagi. Rio Tinto vill losna undan því að greiða sambærileg laun og greidd eru í viðkomandi samfélagi og losna þannig undan sem flestum skuldbindingum. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja á að vera á þann veg að verið sé að hámarka gæði fyrirtækja og samfélagsins í kring en alls ekki á kostnað launafólks!

Við þurfum því að spyrja okkur sem samfélag, ætli stjórnendur fyrirtækja eingöngu að græða sem mest, sama hvað það kostar, er það virkilega það sem íslenskt samfélag vill? Vilja Íslendingar sætta sig við það að íslensk náttúra sé nýtt á þann veg að sem minnst skili sér til samfélagsins?

Á síðustu mánuðum höfum við fengið að kynnast þessum áformum námu- og álrisans til þess að losa sig við sem flestar skuldbindingar í samfélaginu. Risinn vill fá að kaupa þjónustu hér á landi á lægstu mögulegu kjörum sem bjóðast og raunar helst langt undir því. Risinn vill ekki þurfa að hafa starfsmenn í fastri vinnu því erfitt reynist að lækka laun fólksins án þess að brjóta kjarasamninga. Það er hins vegar auðveldara að níðast á verktökum.

Ætlar íslenskt samfélag að leyfa námu risanum að mjólka íslenskt samfélag með því að nýta mannauð og náttúru án sanngjarns endurgjalds?

Er þetta eðlileg framkoma við starfsmenn? Viljum við sætta okkur við framkomu sem þessa í þróuðu ríki eins og á Íslandi? Viljum við að risi eins og þessi komi fram með þessum hætti í vanþróuðum ríkjum þar sem fólk á erfiðara að svara fyrir sig? NEI!

Í dag, miðvikudaginn 7. október 2015 kl. 12:00, verður safnast saman fyrir utan skrifstofuhúsnæði Rio Tinto (ISAL) þar sem við ætlum að sýna starfsmönnum ISAL samstöðu! Hvetjum við alla að gefa sér tíma til þess að mæta á svæðið og styðja við bakið á okkar fólki!

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?