Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur konur til að leggja niður störf kl: 14:55 í dag og  mæta á samstöðufund á Arnarhóli kl 15:30 undir kjörorðunum: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Í tilefni dagsins er vel við hæfi að hlusta á fagra tóna Kvennakórsins Kötlu (smella hér)

 

 

rafidnadarsambandid2Í dag hefst þing Alþýðusambands Íslands þar sem fjallað verður um fjölda málefna. Meðal veigamestu málefna er umfjöllun um aukinn ójöfnuð á Vesturlöndum og það sama á við um stöðuna hér á landi.

Við sjáum ein skýrustu merki aukins ójöfnuðar þegar kjararáð úrskurðaði alþingismönnum gríðarlegar launahækkanir. Hækkunin nam hundruðum þúsunda króna á mánuði. Fulltrúar RSÍ hafa mótmælt þessum úrskurðum harkalega á undanförnum árum en án þess að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hlusti. Alþingi leiðir með þessu aukinn ójöfnuð á Íslandi.

Skattkerfinu hefur verið breytt á þann veg að skattbyrði þeirra tekjuhæstu hefur minnkað. Mikill fjöldi fólks hefur komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar með því að greiða arðgreiðslur út úr fyrirtækjum sem ber lægri skattprósentu. Þessu þarf að breyta, fjármagnstekjuskattur á að vera til samræmis við hæsta þrep tekjuskattsins enda eiga allir að leggja til samfélagsins. Það er sama hvort um er að ræða venjulegt launafólk eða stóreignafólk sem hingað til hefur lagt hlutfallslega minna af mörkum.

Þing ASÍ mun taka á þessum þáttum og berum við miklar væntingar til þess að starf þingsins verði gæfusamt og stefna ASÍ verði skýr hvað varðar þau málefni sem við ætlum okkur að taka fast á næstu tvö árin.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

kvennafri3

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.55 miðvikdaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Arnarhóli, kl. 15.30, undir kjörorðunum: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 - eftir 29 ár! Eftir því getum við ómögulega beðið. Síðaðstliðið ár hafa frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum undirstikað að brýnt sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Kvennafríið í ár er helgað #MeToo. 

Að fundinum standa samtök kvenna og launafólks. 

Konur víða á landsbyggðinni hyggjast einnig ganga út og safnast saman. Nánari upplýsingar um fundarstaði og Kvennafríið í heild má finna á kvennafri.is

 

 

rafidnadarsambandid2

 

Á föstudaginn í síðustu viku, 12. október, fóru fulltrúar RSÍ, VM, Eflingar og FIT í eftirlitsferð á byggingarvinnustað City Park Hótel við Ármúla. Ábending hafði borist frá félagsmanni í einum af félögunum um að e.t.v. væru aðstæður þar ekki í lagi. Eftirlitsfulltrúar stéttarfélaganna komu á vettvang og sáu strax að ekki var allt með felldu. Ekki var byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi en framkvæmdir samt komnar vel á veg. Aðstæður að öðru leyti voru hörmulegar. 

Vinnueftirlitið var kallað til og byggingarsvæðinu var lokað samdægurs. Í frétt á vef Vinnueftirlitsins kemur fram að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur og veruleg hætta fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Eftirlitsfulltrúar upplýstu starfsmennina um að þeir ættu að halda fullum launum á meðan verkstöðvun stendur yfir og voru þeir hvattir til að leita aðstoðar síns stéttarfélags ef misbrestur yrði á því.

Rafiðnaðarsambandið hefur lagt mikla áherslu á virkt vinnustaðaeftirlit og gott samstarf við opinberar eftirlitsstofnanir. Við tökum við öllum ábendingum um staði til að fara í eftirlitsferðir á, best er að hafa samband við Adam Kára Helgason.

 

asi rauttIlla verðmerkt hjá Nettó

Iceland er dýrasta matvöruverslunin samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var 10. október sl. en í 60% tilfella eða 53 af 89 var Iceland með hæsta verðið. Bónus var oftast með lægsta verðið eða í 54 tilfellum af 89 eða 61% tilfella. 

Lélegar verðmerkingar var víða að finna í verslun Nettó í könnuninni eða í 18% tilvika en slíkt kemur í veg fyrir að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun við innkaup. 

Í þriðjungi tilfella var munurinn á hæsta og lægsta verði í könnuninni yfir 60%, í 16% tilfella yfir 90% verðmunur en í 53% tilfella var verðmunurinn yfir 40%. Mestur verðmunur var á hreinlætisvörum, grænmeti og ávöxtum og ýmis konar þurrvörum.

Iceland með hæsta verðið en Bónus það lægsta
Mikill verðmunur var á flestum þeim vörum sem kannaðar voru. Í 8 tilfellum af 89 var yfir 120% verðmunur og í 7 tilfellum yfir 90% verðmunur. Iceland er sem fyrr sú verslun sem oftast er með hæsta verðið eða í 60% tilfella en þar á eftir kemur Hagkaup með hæsta verðið í 21 tilfelli af 89 eða í 23% tilfella. Bónus var oftast með lægsta verðið eða í 53 af 89 tilfellum eða í 61% tilfella en Fjarðarkaup var næst oftast með lægsta verðið eða í 13 tilfellum. 

Lélegar verðmerkingar grafa undan samkeppni
Athygli vekur hversu oft vantaði verðmerkingar í Nettó en samkvæmt lögum ber fyrirtækjum að verðmerkja allar vörur, annaðhvort á vörunni sjálfri eða með hillumerkingu eða skilti við vöruna. Verðmerkingar eru afar mikilvægar til að stuðla að heilbrigðum markaði en nauðsynlegt er að verðmerkja vörur svo að neytandi átti sig á samhenginu milli vöru og verðs. Lélegar verðmerkingar gera neytendum erfitt fyrir að taka upplýsta ákvörðun og grafa þannig undan samkeppni. 

Mestur verðmunur á hreinlætisvörum og þurrvörum 
Mesti verðmunurinn er á hreinlætisvörum en sem dæmi má nefna að 175% verðmunur var á dömubindum en lægst var stykkjaverðið á þeim í Costco á 12 kr. en hæst í Iceland á 34 kr stk. Þá var 118% verðmunur á hæsta og lægsta verði á 50 rykklútum frá Takk, dýrastir voru þeir í Kjörbúðinni Garði á 649 kr. en ódýrastir í Bónus á 298 kr. 

235% verðmunur var á kílóverðinu á Neutral Storvask þvottaefni en hæst var það í Hagkaup, 1332 kr. en lægst í Bónus Árbæ, 398 kr. Mikill verðmunur var einnig á ýmsum þurrvörum en þar má nefna að 90% verðmun á kílóverði á Cheerios, lægst var það í Bónus, 864 kr. en hæst í Iceland, 1643 kr. 

Verðkönnunin í heild sinni (smella hér)

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 89 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina. Könnunin var framkvæmd á sama tíma í öllum verslunum en þær eru: Bónus Árbæ, Nettó Búðakór, Krónan Lindum, Hagkaup Kringlunni, Iceland Vesturbergi, Fjarðarkaup, Costco og Kjörbúðin Garði. Í könnuninni er einungis gerður samanburður á verði en ekkert mat er lagt á gæði eða þjónustu viðkomandi verslana.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

rafidnadarsambandid2Eins og glöggt sást í umfjöllun Kveiks, á RÚV í vikunni, þá eru málefni erlendra starfsmanna okkur mjög hugleikin. Staðan á vinnumarkaði er þannig að næga vinnu er að hafa enn sem komið er og skortur er á starfsmönnum. Fyrirtækin hafa þá æði oft gripið þeirra ráða að sækja erlenda starfsmenn og ráða þá til vinnu. Oft eru þeir ráðnir inn í gegnum starfsmannaleigur en í einhverjum tilvikum er um beinar ráðningar að ræða.

Staðan sem starfsmenn eru í er æði oft skelfileg og er það ástæða þess að Rafiðnaðarsamband Íslands stendur fyrir vinnustaðaeftirliti og á undanförnum árum höfum við unnið að verulegri eflingu á eftirlitinu og stefnir í að enn verði aukið við starfskrafta í þessum efnum.

Blekkingarleikur fyrirtækja er ansi oft mikill því fulltrúar fyrirtækjanna eru oft farnir að leita nýrra leiða til að svívirða starfsmenn, greiða ekki rétt laun fyrir unninn vinnutíma. Oft er það þannig að vinnutími sem greiddur er er eingöngu dagvinnutími þó svo að starfsmenn þurfi að vinna marga yfirvinnutíma á dag. Þetta sættum við okkur ekki við og samfélagið í heild á ekki að sætta sig við slíka framkomu! Við þurfum að taka höndum saman til að stöðva slík brot.

Starfsmenn eru í sífellt meiri mæli ráðnir inn sem verktakar í störf sem eru ekkert annað en störf sem hefðbundið ráðningarform á við. Með þessu eru fyrirtækin að setja alla ábyrgð á þann aðila sem ekki getur varið sig. Viðkomandi starfsmaður þarf að standa straum á öllum kostnaði vegna ófyrirséðra atriða. Þessi þróun er því miður víða í Evrópu en verkalýðsfélög vinna að því að stöðva þessa þróun.

Samkvæmt jafnréttislögum þá ber fyrirtækjum að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu óháð stöðu eða uppruna fólks.

Það er jafnframt vert að þakka RÚV og starfsmönnum Kveiks fyrir góða umfjöllun um þau verkefni sem við hjá RSÍ og stéttarfélögum innan ASÍ vinnum að en eru ekki alltaf sýnileg.

Kristján Þórður
Formaður RSÍ

ASII UNG banner fb

Á nýafstöðnu þingi ASÍ-UNG mátti greina mikinn samhug og baráttuvilja hjá ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Málþing um hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi kjarasamningum bar einna hæst á þinginu. 

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt í lok þingsins en hún sýnir ágætlega hvar áherslur ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar liggja í komandi kjaraviðræðum.

  • Þing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess marka skýra stefnu í húsnæðismálum til þess að tryggja ungu fólki húsnæði við hæfi. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum.
  • ASÍ-UNG krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattlaus. 
  • ASÍ-UNG krefst þess einnig að aldurstengd launamismunun verði afnumin með öllu enda er hún klárt brot á mannréttindum. Jafnframt gerir ASÍ-UNG kröfu um að ungt fólk eigi sæti við samningaborðið til þess að tryggja hagsmuni þess. 
  • ASÍ-UNG leggur ríka áherslu á að vinnueftirlit verði aukið og viðurlög vegna brota á vinnustað verði hert. 
  • Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Brúa þarf bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka orlofsrétt vegna vetrarfría í skólum. 

5. þing ASÍ-UNG var haldið föstudaginn 14. september. ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks á aldrinum 16-35 ára, innan verkalýðshreyfingarinnar sem sér til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins.

 

felagmalaskoli althidu

Uppbókað á námskeiðið

Annar hluti trúnaðarmannanáms stendur trúnaðarmönnum og stjórnarmönnum í aðildarfélögum RSÍ til boða dagana 25. og 26. sept. næstkomandi.

UM NÁMSKEIÐIÐ:
Á námskeiðinu kynnast nemendur starfsemi stéttarfélagsins og réttindum félagsmanna. Einnig læra nemendur á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun þeirra, ásamt lestri launaseðla og uppbyggingu trygginga.

Dagsetning: 25. september - 26. september 2018

Tími: 09:00 - 16:00

Staður: Húsnæði Rafiðnaðarskólans Stórhöfða 27.

Nemendur læra reiknitölur helstu launaliða. Nemendur kynnast grunnuppbyggingu launaseðla og launaútreikninga svo og staðgreiðslu skatta og mikilvægi varðveislu launaseðla. Nemendur kynnast þeim tryggingum sem við höfum í gegnum kjarasamninga, almanntryggingakerfið og uppbygginu og tilgang lífeyrissjóðakerfisins. Nemendur kynnast starfsemi stéttarfélagsins, réttindum félagsmanna. Nemendur læra á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim. Nemendur kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim. 

Trúnaðarmenn eiga að vera búnir að fá boð á námskeiðið. Ef einhver hefur ekki fengið póst um málið, hafi viðkomandi samband við skrifstofu RSÍ.

Þeir stjórnarmenn sem hafa hug á að mæta á námskeiðið, hafi samband við skrifstofu RSÍ.

 

rafidnadarsambandid rautt

Vakin er athygli á því að þar sem 1. september ber upp á laugardag þá verður opnað fyrir bókanir í orlofshús okkar á Flórída mánudaginn 3. september kl 9:00

Opnað verður fyrir bókanir tímabilið 1. september 2019 til 28. febrúar 2020. 

Hægt er að bóka sólarhring í senn, að hámarki þrjár vikur.

 

 

malstofa idnarmenn
Málstofa iðnfélaganna verður haldin föstudaginn 7. sept. kl. 10:45 - 11:45 í Hofi, Akureyri.

Í almennri umræðu er talað um að fjórða iðnbyltingin sé hafin
En hvaða áhrif mun hún hafa t.d. á störf iðnaðarmanna í framtíðinni?

Munu róbótar taka yfir störfin?
Eða mun þeir fyrst og fremst breyta þeim og skapa tækifæri til að gera störfin áhugaverðari?

Til að ræða áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar og hvaða tækifæri hún býður iðnaðarmönnum.
Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir forstöðumaður viðhaldsþjónustu hjá Veitum er með framsögu og í pallborði verða fulltrúar frá atvinnulífi, verkmenntaskólum og endurmenntunarstofnunum til að gefa okkur innsýn inn í framtíðina.

Stjórnandi málstofunnar verður Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA

Pallborð: Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar, Hildur Elín Vignir framkvæmdastjóri IÐUNNAR fræðsluseturs, Haukur Eiríksson kennari við rafdeild Verkmenntaskólans á Akureyri á brautum í rafvirkjun, rafeindavirkjun, málm- og véltækni, Guðmundur H.Hannesson sölu- og markaðsstjóri Kælismiðjunnar Frost.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?