Fréttir frá 2018

10 24. 2018

Réttlátara samfélag!

rafidnadarsambandid2Í dag hefst þing Alþýðusambands Íslands þar sem fjallað verður um fjölda málefna. Meðal veigamestu málefna er umfjöllun um aukinn ójöfnuð á Vesturlöndum og það sama á við um stöðuna hér á landi.

Við sjáum ein skýrustu merki aukins ójöfnuðar þegar kjararáð úrskurðaði alþingismönnum gríðarlegar launahækkanir. Hækkunin nam hundruðum þúsunda króna á mánuði. Fulltrúar RSÍ hafa mótmælt þessum úrskurðum harkalega á undanförnum árum en án þess að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hlusti. Alþingi leiðir með þessu aukinn ójöfnuð á Íslandi.

Skattkerfinu hefur verið breytt á þann veg að skattbyrði þeirra tekjuhæstu hefur minnkað. Mikill fjöldi fólks hefur komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar með því að greiða arðgreiðslur út úr fyrirtækjum sem ber lægri skattprósentu. Þessu þarf að breyta, fjármagnstekjuskattur á að vera til samræmis við hæsta þrep tekjuskattsins enda eiga allir að leggja til samfélagsins. Það er sama hvort um er að ræða venjulegt launafólk eða stóreignafólk sem hingað til hefur lagt hlutfallslega minna af mörkum.

Þing ASÍ mun taka á þessum þáttum og berum við miklar væntingar til þess að starf þingsins verði gæfusamt og stefna ASÍ verði skýr hvað varðar þau málefni sem við ætlum okkur að taka fast á næstu tvö árin.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?