rafidnadarsambandid rautt

 

Kæru félagar

Ársfundur Birtu lífeyrissjóðs verður haldinn þriðjudaginn 9. maí nk., kl. 17.00 í Silfurbergi í Hörpu, Reykjavík. Auk kjörinna fulltrúa eiga allir sjóðfélagar rétt til setu á fundinum. Boðið verður upp á léttar veitingar. Við hvetjum alla félagsmenn til að mæta.

Dagskrá

1.    Almenn ársfundarstörf samkvæmt samþykktum sjóðsins

2.     Önnur mál, löglega upp borin

 

Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu frá ársfundinum á heimasíðu sjóðsins, https://birta.is/

rafidnadarsambandid

 

Rafiðnaðarsambandið hefur tekið í notkun rafrænt umsóknarkerfi, „Þjónustusíður“ sem á að einfalda félagsmönnum að sækja um styrki, fylgjast með upplýsingum um greiðslu iðgjalda, þ.e. hvort þau séu greidd eða ógreidd, upplýsingar um punktastöðu í orlofskerfi osfrv. Við viljum biðja félagsmenn að uppfæra persónuupplýsingar á „mínum síðum“ sé þess þörf. Mikilvægt er að upplýsingar séu réttar þegar sótt er um styrki, sérstaklega bankaupplýsingar. 

Til að komast inn á þjónustusíðuna, þarf að smella á hlekkinn „ÞJÓNUSTUSÍÐUR“    á heimasíðunni. Innskráning er með íslykli. 

orlofslogStefnt er að því að opna hluta af tjaldsvæðinu á Skógarnesi föstudaginn 12. maí næstkomandi.

rafidnadarsambandid rautt

Sambandsstjórnarfundur Rafiðnaðarsambands Íslands var haldinn í Borgarfirði dagana 28. og 29. apríl síðastliðinn.

Árlega eru veittir styrkir til góðgerðarmála.Fjölmargar umsóknir bárust þetta árið og ljóst að ekki væri hægt að verða við öllum styrkbeiðnum. Þeir sem fengu úthlutað styrk þetta árið eru;

Styrkur

Heilsustofnun vesturlands Borgarnesi kr. 140.000
Björgunarsveitin  Brák kr. 300.000
Björgunarsveitin Heiðar kr. 800.000  
Smiðjan Ólafsvík kr. 400.000

rafidnadarsambandid rautt

Sambandsstjórnarfundur Rafiðnaðarsambands Íslands, haldinn í Borgarnesi dagana 28. og 29. apríl gagnrýnir harðlega þá fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að ætla að stytta bótatímabil atvinnuleysisbóta úr tveimur og hálfu ári í tvö ár. Stutt er síðan tímabilið var stytt úr þremur árum í tvö og hálft ár.

Rök ríkisstjórnarinnar eru þau að atvinnuástand sé gott um þessar mundir og ástæðulaust sé því að hafa bótatímabil langt. Ríkisstjórnin heitir því einnig að leggja aukna áherslu á að aðstoða fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Rafiðnaðarsambandið tekur undir þær áherslur, þ.e. að aðstoða fólk við endurkomu á vinnumarkað, en aðgerðir m.a. í starfsendurhæfingu í gegnum VIRK, hafa þegar skilað gríðarlega miklum árangri. Rafiðnaðarsambandið telur þó að eitt útiloki ekki annað, þ.e. hægt væri að halda bótatímabilinu óbreyttu og leggja einnig aukna áherslu á aðstoð við atvinnuleitendur.

Jafnvel þótt atvinnuástand sé gott nú um stundir geta alltaf einhverjir einstaklingar fallið á milli og lent í langtímaatvinnuleysi og þá þarf velferðarkerfið að koma til móts við þá einstaklinga. Aðilar vinnumarkaðarins hafa stefnt að því að koma á nýju samningalíkani á Íslandi, í ætt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum, og órjúfanlegur hluti þess er sterkt velferðarkerfi.

Sambandsstjórn Rafiðnaðarsambandsins leggst alfarið gegn hugmyndum um styttingu bótatímabilsins og hvetur ríkisstjórnina til þess að endurskoða þessar áætlanir.

 

Nánari upplýsingar veitir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, í síma 856 3466

rafidnadarsambandid2Formaður RSÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson, var aðalræðumaður í Reykjanesbæ 1. maí 2017. Hér má sjá ræðuna sem hann flutti þar.

Kæru félagar, innilega til hamingju með daginn. 

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag. 1. maí er dagur okkar launafólks. Það er ætíð á þessum árstíma sem við í verkalýðshreyfingunni förum yfir farinn veg og gerum upp liðnin tíma. Við skrifuðum undir kjarasamninga árið 2015 eftir nokkur átök. Hreyfingin var nokkuð sundruð á þeim tímapunkti sökum þess að við höfðum ekki sömu sýn á það með hvaða hætti við teldum heppilegast að hækka laun. Úr urðu kjarasamningar sem voru þó mjög áþekkir en ekki var mikil sátt um niðurstöðuna.

Mikilvægast fyrir okkur er að kjarasamningar miði að því að okkur takist að auka kaupmátt launa en ekki endilega hversu háar launahækkanirnar eru. Kaupmátt launa er mjög einfalt að reikna út en með því að draga ársverðbólgu frá launaskriði ársins þá sést hver kaupmátturinn hefur verið. 

Á árunum 2015 og 2016 upplifðum við einhverja mestu kaupmáttaraukningu launa frá árinu 2000. Við erum núna að upplifa eitt lengsta tímabil sem hefur skilað okkur samfelldri aukningu kaupmáttar en allt frá árinu 2010 hefur kaupmáttur launa aukist á hverju ári. Aukningin hefur verið allt frá tæpu prósenti upp í 7,1% á ári. Þetta er líklega mesta kaupmáttaraukning frá því að ég fæddist hér í Keflavík, árið 1980. 

Við höfum náð nokkuð góðum árangri að laun okkar hafa hækkað mun meira en hjá nágrannaþjóðum okkar. Við eigum væntanlega Norðurlandamet í launahækkunum undanfarinna áratuga og síðustu aldar. 

En þrátt fyrir þetta eru ráðstöfunartekjur nágranna okkar jafnvel meiri en hjá okkur og það er fyrst og fremst sökum stöðugs verðlags. Þeir búa jafnframt við meiri stöðugleika að flestu leyti.

Verkefni komandi ára verður að halda í þann árangur sem við höfum náð á undanförnum árum. En það er augljóst að við þurfum að gera enn betur til þess að tryggja góðan grunn. Við þurfum að ná að hækka laun þannig að þau dugi til framfærslu en það er ærið verkefni! 

Við viljum að launin séu mannsæmandi og dugi til framfærslu. 

Í febrúar fór fram endurskoðun á forsendum kjarasamninga þar sem það kom skýrt fram að forsendur kjarasamninganna voru brostnar. Þegar við höfum reynt að tryggja sátt í samfélaginu og reynt að byggja undir stöðugleika þá ríða menn á vaðið og kjararáð ákvað að laun alþingismanna skuli hækkuð um 45%. 

Það má alveg reyna að færa rök fyrir því að laun þeirra hafi verið of lág en ef menn ætla að horfa í slík rök núna þá hafa mínir félagsmenn nákvæmlega sömu rök, við höfum öll sömu rök í höndunum. Alþingismenn myndu eflaust telja að það væri í góðu lagi að við hækkuðum alla hópa sem hafa þessi rök, eða hvað?

En ef við horfum í kringum okkur þá eru þingmenn í Noregi með nokkuð lægri laun en íslenskir alþingismenn. En laun alþingismanna í Noregi fylgja sambærilegum launahækkunum og almenningur fær. Það er talið þar ytra að mikilvægt sé að tryggja sátt í samfélaginu um samningalíkanið.

Verði ekkert að gert í að endurskoða ákvarðanir kjararáðs má fastlega gera ráð fyrir því að samningum verði sagt upp á næsta ári.

En ágætu félagar, við höfum notið þess að íslenska krónan hefur verið að styrkjast á undanförnum misserum sem hefur skilað okkur lægri verðbólgu en ella. Þrátt fyrir styrkinguna erum við ekki að sjá ávinning beint til landsmanna í formi jafn mikillar lækkunar. Það er þó áhugavert að fylgjast með þeim hræringum sem eru að verða á verðlagningu ýmissa fyrirtækja en það er ekki langt síðan fyrirtæki boðaði verulega lækkun á verði á hjólbörðum. Allt að 40% lækkun var boðuð og sögð vera vegna styrkingu krónunnar. Ef við skoðum hvernig krónan hefur styrkst gagnvart Evrunni á undanförnum mánuðum þá hefur evran veikst um 1,6% frá því í desember. Ef við horfum eitt ár aftur í tímann þá hefur evran veikst um 17% gagnvart krónunni.

Tekur það virkilega eitt ár fyrir fyrirtæki að lækka vöruverð vegna styrkingar krónunnar? Eða er þetta eingöngu tilkomið vegna þess að fyrirtæki hafa verið með okurálagningu og þurfa að gefa örlítið eftir af álagningu vegna mögulegrar samkeppni stórs erlends fyrirtækis? 

Ég ætla ekki að svara því hér en við verðum að gera okkur grein fyrir því að mikil styrking á gjaldmiðli okkar veldur einnig óstöðugleika. Best væri fyrir samfélagið í heild sinni að gengið héldist nokkuð stöðugt í jafnvægisgengi þar sem jafnvægi ríkir fyrir inn- og útflutning.

Það eru samt sem áður blikur á lofti varðandi gengi íslensku krónunnar. Krónan hefur styrkst nokkuð á undanförnum misserum og eru útflutningsfyrirtæki farin að krefjast viðbragða. Þau vilja sem sagt að gengi krónunnar verði fellt til þess að tryggja betri grunn fyrir rekstur fyrirtækjanna. Arðgreiðslur eru væntanlega ekki nægilega miklar að þeirra mati.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er með þetta eins og svo margt annað, partýið getur ekki staðið endalaust. Við þurfum að sjá til þess að partýinu ljúki á okkar forsendum en ekki forsendum annarra. 

Það er augljóst að verulegra breytinga er þörf í samfélaginu ef við ætlum okkur að halda í vonina að okkur takist að móta nýtt samningalíkan á komandi árum. 

Nýja samningalíkanið sem hefur verið unnið ötullega að á undanförnum árum getur skipt okkur miklu máli til lengri tíma. Samningalíkanið gengur út á það að allir sitji við sama borð, launaþróun allra hópa verði sambærileg og það þurfi enginn hópur að sitja eftir í þeirri merkingu að njóta ekki sambærilegra launahækkana. 

Útgangspunkturinn er jú að laun hækki meira en verðlag þannig að kaupmáttur launa aukist.

Við höfum rýnt í samningalíkön frænda okkar á Norðurlöndum og viljum læra af þeirra reynslu. En það væri mjög mikil einföldun að halda því fram að nýtt samningalíkan snúi eingöngu að því að ákvarða launahækkanir. Norrænu módelin byggja öll á því að búa til og styrkja norræna velferðarkerfið. 

Norræna velferðarkerfið er kerfi þar sem fjallað er um hvernig skattfé landsmannanna er nýtt til uppbyggingu samfélagsins. Hvernig heilbrigðiskerfi við viljum að fólk njóti, hvernig aðgengi fólks er að menntakerfinu, hvernig við nýtum fjármagn samfélagsins til þess að styðja við bakið á þeim sem eru í hvað verstri stöðu t.d. vegna veikinda eða þeirra sem missa atvinnuna. 

Ágætu félagar, á undanförnum árum höfum við jafnframt unnið að því að auka við réttindi okkar í lífeyrissjóðum. Með viðbótarframlagi sem samið var um er verið að auka ávinnslu réttinda þannig að þegar einstaklingur sem hefur greitt af launum sínum alla starfsævi í lífeyrissjóð hefur töku lífeyris þá getur hann átt von á því að fá í kringum 76% af meðalævitekjum sínum í ellilífeyri. Fyrir breytingu er lágmarkið 56%. En valkvætt verður einnig að ráðstafa þessari viðbót í séreignarsjóð en þá lækkar þetta hlutfall. 

Réttindi okkar í lífeyrissjóðum eru okkur afar verðmæt og við eigum að standa vörð um þau réttindi. Það er ekki vinsælt í dag að vera talsmaður lífeyrisréttinda. Það er miklu auðveldara að tala niður kerfi sem þetta. Það sést oftar en ekki að frösum er kastað fram sem við vitum að flestir vilja heyra. En ef við myndum skoða í hvaða stöðu við værum án þessa kerfis þá sæjum við að það eru töluverð verðmæti fólgin í þessu kerfi þó svo það sé að sjálfsögðu ekki gallalaust. Okkur ber að gera hvað við getum til að bæta kerfið.

Við skulum ekki gleyma því að við viljum njóta Norrænnar velferðar. Við viljum tryggja okkur mannsæmandi stöðu þegar kemur að ellinni eða ef við lendum í því að missa starfsgetuna varanlega. Þegar við hættum að vinna sökum aldurs þá þurfum við tekjur og fyrirsjáanleika. Með því að leggja fé til hliðar þá getum við tryggt okkur betri stöðu. 

Í þeim lífeyrissjóði sem ég greiði til í dag, Birtu lífeyrissjóðs, er mögulegt að tryggja okkur iðnaðarmönnum meiri réttindi en lágmarkslög segja til um. Við erum sífellt að feta okkur inn í nútímann með stjórnun sjóðsins og er ekki langt síðan við sameinuðum tvo lífeyrissjóði í einn. Það voru tveir stórir iðnaðarmannasjóðir að miklu leyti þar sem réttindaávinnsla var með sambærilegum hætti. Réttindi sjóðfélaga voru því sambærileg og uppbygging að sama skapi. Við teljum það mikilvægt fyrir okkur að gera hvað við getum til þess að efla sjóðinn og draga úr rekstrarkostnaði eins og mögulegt er án þess að það komi niður á réttindum sjóðfélaga t.d. vegna lakari stýringar.

Það fer ekki á milli mála að við leggjum mikla áherslu á að draga úr rekstrarkostnaði okkar sjóðs og það þarf að gerast með tíð og tíma. 

Ágætu félagar, staða atvinnumála er almennt góð í dag. Við upplifum enn og aftur að uppsveiflan er það mikil og hröð að skortur er á starfsmönnum í hinum ýmsu greinum. Til þess að taka á þessari sveiflu þá er gripið til þess ráðs að fá starfsmenn erlendis frá til að vinna þau störf sem ekki næst að manna. 

Það þarf alls ekki að vera neikvætt að það sé gert sé það rétt gert. Það vill hins vegar brenna við að launakjör sem erlendum starfsmönnum er boðið standast ekki þá kjarasamninga sem gilda hér á landi. Fyrirtækin sum hver grípa til þess að nýta sér neyð fólks sem kemur hingað til lands og brjóta á því. 

Lág laun, jafnvel undir lágmarkslaunum, slæmur aðbúnaður á vinnustað og óásættanlegt íbúðarhúsnæði og svo framvegis. Við sem samfélag eigum ekki að sætta okkur við að það sé komið svona fram við fólk.

Við sem samfélag eigum að gera kröfu til þess að þau störf sem verða til hér séu vel launuð og að ítrustu kröfur séu gerðar til aðbúnaðar og umhverfismála. Við höfum alla þá þekkingu sem til þarf að geta bætt rekstur fyrirtækja og dregið úr losun óæskilegra lofttegunda. Við eigum ekki að sætta okkur við það að fyrirtæki geri ekki allt sem þau geta til þess að bæta umhverfið. 

Hluti af Norrænni velferð er að tryggja stöðu þeirra sem missa atvinnuna tímabundið. Nú er stefnt að því af hálfu stjórnvalda að stytta tímabil sem mögulegt er að nýta atvinnuleysisbætur úr tveimur og hálfu ári niður í tvö ár. 

Þó svo að atvinnuleysi í dag sé með minnsta móti þá er það algjörlega óásættanlegt að reglunum sé breytt með þessum hætti. Nú ætti að vera tími uppbyggingar þar sem við eigum að undirbúa kerfið undir næstu niðursveiflu! Ef rýnt er í söguna þá kemur reglulega kerfisbundin niðursveifla og það styttist óðfluga í næstu niðursveiflu.

Ef við rýnum í heilbrigðiskerfið hjá okkur þá er ljóst að við erum að mörgu leyti á rangri leið. Sífellt erum við að færast frá því að þjónustan sé gjaldfrjáls fyrir þá sem þurfa að nýta sér hana. Sjúklingar þurfa sífellt að auka við greiðsluþátttöku og þurfa í dag að greiða allt of mikið fyrir þjónustuna! Nú er það einnig orðið svo að ef þú átt nóg að peningum þá getur þú keypt þig fram fyrir í röðinni á ákveðnum tilfellum. Það er alls ekki í anda Norrænnar velferðar að fólk þurfi að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Þetta er algjörlega óásættanlegt!

En það er augljóst að það er nauðsynlegt að efla heilbrigðiskerfið, auka fjármagn sem fer í þjónustuna og á sama tíma þarf að draga úr hinum ýmsu gjöldum sem veikir einstaklingar þurfa að greiða fyrir hana. Við viljum að allir sitji við sama borð en ekki að útvaldir njóti betri þjónustu og séu jafnvel sendir erlendis til meðferðar sem stendur öðrum ekki til boða.

Ef við snúum okkur síðan að menntakerfinu okkar. Við viljum að öllum standi til boða að mennta sig og sækja þá menntun sem hentar hverjum og einum. Á undanförnum árum hefur raunverulegur niðurskurður verið með þeim hætti að deildir geta ekki tekið þann fjölda sem ella hefði óskað eftir aðgengi t.d. í iðnnám. Iðnnám er dýrara í rekstri í skólakerfinu og því virðist á stundum að það bitni á náminu með takmörkunum. Auk þess að takmarkanir hafa verið settar á aðgengi þeirra sem eru eldri en 25 ára. Þess má geta að meðalaldur þeirra sem ljúka starfsnámi er 26 ár. Það er afar mikilvægt að hömlur til náms verði ekki reistar þannig að það ýti nemendum frá og þá allra síst ætti að reyna að ýta frá nemendum sem velja sér iðngreinar því í dag eru það helst þær greinar sem okkur skortir starfskrafta á vinnumarkaði.

Við þurfum svo sannarlega að taka okkur á í húsnæðismálum þjóðarinnar. Leigumarkaðurinn er allt of óstöðugur fyrir leigjendur og samkeppni við leigumiðla eins og AirBNB gerir það að verkum að leiguverð er mjög hátt og skortur er á íbúðum. 

Fasteignaverð er að sama skapi að hækka töluvert mikið vegna skorts á íbúðum og gerir það að verkum að ungt fólk sem og fólk sem hefur ekki fjárfest í íbúð og er á leigumarkaði getur vart komist í eigið húsnæði vilji það auka íbúðaöryggi sitt. Því hefur ASÍ staðið fyrir afar brýnu verkefni við að stofna Bjarg Íbúðafélag þar sem þeim tekjulægstu verður gert kleift að komast í leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. En samhliða þessu þarf svo sannarlega að tryggja öruggt leiguhúsnæði fyrir ungt fólk.

Það er því ekki að ástæðulausu að slagorð 1. Maí í ár er:

Húsnæðisöryggi - sjálfsögð mannréttindi!

En stór þáttur í því að ungt fólk ræður illa við afborganir af lánum til að fjármagna fasteignakaup er sökum hás vaxtastigs, bæði verðtryggt en ekki síður óverðtryggt. Á 25 milljóna króna óverðtryggðu láni getum við verið að greiða rúmlega 60.000 krónum hærri vexti á mánuði en nágrannar okkar í Noregi. Þetta eru rétt um 750.000 krónur á ári! Varlega áætlað! 

Verðtryggðu lánin eru skárri hvað varðar greiðslubyrði en skuldin greiðist hægar niður á lánstímanum. Við verðum að ná að lækka vaxtastig en það er óskiljanlegt hversu háir stýrivextir eru þrátt fyrir lága verðbólgu. Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í rúm þrjú ár.

En ágætu félagar, við höfum klárlega verk að vinna í samfélaginu. Við þurfum virkilega að passa að við förum ekki framúr okkur og þurfum svo sannarlega að standa vörð um okkar réttindi. Við þurfum að auka jöfnuð í samfélaginu en þar skortir verulega á í dag! 

Við verðum að aðstoða þá sem eru í erfiðustu stöðunni á vinnumarkaði og tryggja að ekki sé brotið á þeim sem koma til starfa á okkar vinnumarkaði.

Við þurfum að taka á í launamálum, við skulum halda áfram á réttri braut og þar skiptir lang mestu máli að við séum samstíga í þeirri vegferð! Tökum höndum saman og bætum samfélagið saman.

Eigið góðan dag, takk fyrir mig.

 

rafidnadarsambandid bleikur

Sólardagar - vegna forfalla er önnur orlofsíbúðin á Spáni laus frá 9.-23. maí 2017. 

 

rafidnadarsambandid rautt

 

Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur alla félagsmenn til að sýna samstöðu og mæta á hátíðahöld í tilefni dagsins sem haldin eru víðsvegar um landið

Reykjavík
Dagskrá 1. maí hátíðarhaldanna í Reykjavík 2017 verður sem hér segir: Safnast saman á Hlemmi kl. 13.00 en gangan hefst kl. 13.30. Lúðrasveitir leika í göngunni.
Útifundur á Ingólfstorgi settur klukkan 14:10

Dagskrá:
Söngfjelagið
Ræða: Lilja Sæmundsdóttir, formaður félags hársnyrtisveina
Söngfjelagið
Ræða: Garðar Hilmarsson, formaður starfsmannafélags Reykjavíkurborgar
Amabadama flytur 2 lög
Söngfjelagið/samsöngur – Maístjarnan og Nallinn
Fundarstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og Hulda M. Halldórsdóttir mun syngja á táknmáli í tónlistaratriðum

 

Rafiðnðarsambandið býður félagsmönnum og gestum þeirra upp á kaffiveitingar  á Stórhöfða 27, 1 hæð gengið inn Grafarvogsmegin, að loknum hátíðahöldum.

 

Hafnarfjörður
Baráttutónleikar verða haldnir í Bæjarbíó að Strandgötu 6, Hafnarfirði, í húsi Menningar- og listafélags Hafnarfjarðar milli kl. 13 og 15 
Kynnir: Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar 
Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, flytur 1. maí ávarp verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði
At-Breakpoint  - Jóhanna Guðrún og Davíð - Jón Jónson og Margrét Eir troða upp

 

Hátíðahöld á landsbyggðinni.

Akranes
Safnast verður saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn verður hringur á neðri-Skaga. Undirleik í göngu annast Skólahljómsveit Akraness
Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40
Fundarstjóri: Vilhjálmur Birgisson
Ræðumaður dagsins: Ólafur Arnarson
Kvennakórinn Ymur syngur nokkur lög
Kaffiveitingar. Frítt í bíó fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15:00

 

Borgarnes
Hátíðar- og baráttufundur hefst í Hjálmakletti kl. 11.00
Hátíðin sett: Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands
Ræða dagsins: Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu
Boðið upp í dans, tvö pör sýna dans
Atriði frá Grunnskólanum í Borgarnesi 
Egill Ólafsson stuðmaður með meiru tekur lagið
Internasjónalinn
Félögin bjóða samkomugestum í súpu og brauð að fundi loknum 
Kvikmyndasýning fyrir börn verður í Óðali kl. 13:30, boðið verður upp á popp og ávaxtasafa



Búðardalur

Dagskrá í Dalabúð kl. 14:30
Kynnir: Kristín G. Ólafsdóttir, stjórnarmaður SDS 
Ræðumaður: Eiríkur Þór Theódórsson varaformaður ASÍUng og stjórnarmaður í Stétt Vest
Skemmtiatriði: Stórsöngvarinn og leikarinn Egill Ólafsson
Kaffiveitingar að lokinni dagskrá

 

Stykkishólmur
Kynnir: Dallilja Inga Steinarsdóttir
Ræðumaður: Dröfn Harðardóttir, sérfræðingur í félagsmáladeild ASÍ
Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Stórsveit Snæfellinga 
Ka­ffiveitingar

 

Grundarfjörður
Kynnir: Helga Hafsteinsdóttir
Ræðumaður: Dröfn Harðardóttir, sérfræðingur í félagsmáladeild ASÍ
Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Stórsveit Snæfellinga
Ka­ffiveitingar

 

Snæfellsbær
Kynnir: Guðmunda Wíum 
Ræðumaður: Dröfn Harðardóttir, sérfræðingur í félagsmáladeild ASÍ
Sigga Eyrún og Kalli Olgeirs
Stórsveit Snæfellinga
Ka­ffiveitingar
Sýning eldriborgara
Bíósýning

 

Ísafjörður
Kröfugangan leggur af stað frá Baldurshúsinu, Pólgötu kl. 14.00 
Dagskráin í Edinborgarhúsi:
Lúðrasveit tónlistarskólans: Stjórnandi Madis Maekalle
Ræðumaður dagsins: Bergvin Eyþórsson sjómaður
Söngatriði: Sigrún Pálmadóttir, undirleikur Beata Joó
Pistill: Kolbrún Sverrisdóttir verkakona
Leikatriði: Dýrin í Hálsaskógi
Tónlistaratriði: Sigurvegarar Músíktilrauna Between Mountains
Kaffiveitingar í Sindragötu 6, að hátíðarhöldum loknum
Kvikmyndasýningar fyrir börn í Ísafjarðarbíói kl. 14:00 og 16:00

 

Suðureyri
Kröfuganga frá Brekkukoti kl. 14. Boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar.
Ræða dagsins: Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Tónlist og söngur barna. Dúettinn Between Moutains. 
Kaffiveitingar í félagsheimili Súgfirðinga.

 

Blönduós
Dagskráin hefst kl. 15:00 í félagsheimilinu
Ræðumaður dagsins: Hólmfríður Bjarnadóttir, fyrrum stjórnarkona í Stéttarfélaginu Samstöðu
Afþreying fyrir börnin
Kaffiveitingar

 

Sauðárkrókur
Hátíðarsamkoma stéttarfélaganna verður haldin kl. 15 í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra
Ræðumaður dagsins: Ásgerður Pálsdóttir, fyrrverandi formaður Stéttarfélagsins Samstöðu 
Nemendur úr Grunnskólanum austan Vatna munu skemmta veislugestum
Sigfús Arnar Benediktsson og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir leika nokkur lög 
Geirmundur Valtýsson leikur á nikkuna
Kaffiveitingar

 

Fjallabyggð
Dagskrá verður í sal félaganna,  Eyrargötu 24b Siglufirði milli kl. 14:30 og 17:00      
Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna flytur Margrét Jónsdóttir 
Kaffiveitingar

 

Akureyri
Göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið Kl. 13:30 og kröfugangan leggur af stað kl. 14 við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar 
Hátíðardagskrá í HOFI að lokinni kröfugöngu:     
Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna: Brynjar Karl Óttarsson kennari                   
Aðalræða dagsins: Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands Skemmtidagskrá: Norðlenskar konur í tónlist Ásdís Arnardóttir kontrabassi, Helga Kvam píanó, Kristjana Arngrímsdóttir söngur og Þórhildur Örvarsdóttir söngur 
Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Kaffiveitingar að lokinni dagskrá

 

Húsavík
Hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni kl. 14:00.
Dagskrá:
Ávarp: Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags
Hátíðarræða: Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags
Sálubót: Söngfélagið Sálubót syngur nokkur lög. Stjórnandi Jaan Alavere
Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir spila og syngja þekkt dægurlög
Ari Eldjárn skemmtir gestum 
Guðrún Gunnarsdóttir og Sigríður Beinteinsdóttir heiðra minningu Ellýjar Vilhjálms með því að syngja lögin hennar
Kaffiveitingar

 

Vopnafjörður 
Hátíðardagskrá  verður í Félagsheimilinu Miklagarði kl.  14:00 
Ræðumaður: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir
Tónlistaratriði
Kaffiveitingar

 

Borgarfjörður eystri
Hátíðardagskrá verður í Álfheimum kl. 12.00 
Ræðumaður: Reynir Arnórsson 
Súpa og meðlæti.

 

Seyðisfjörður
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Herðubreið kl. 15:00 
Ræðumaður: Pálína Margeirsdóttir
Kaffiveitingar og skemmtiatriði

 

Egilsstaðir
Hátíðardagskrá verður á Hótel Héraði  kl. 10.30 
Ræðumaður: Pálína Margeirsdóttir 
Morgunverður  og tónlistaratriði

 

Reyðarfjörður
Hátíðardagskrá verður í Safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 15:30
Ræðumaður: Grétar Ólafsson  
Kaffiveitingar og tónlist

 

Eskifjörður 
Hátíðardagskrá verður í Melbæ Félagsheimili eldri borgara kl. 14:00
Ræðumaður: Grétar Ólafsson 
Tónskóli Reyðarfjarðar
Kaffiveitingar og tónlistaratriði

 

Neskaupstaður 
Hátíðardagskrá verður á Hildibrand hótel kl. 14:00
Ræðumaður: Sverrir Kristján Einarsson
Tónlistaratriði: Félag harmonikkuunnenda Neskaupstað
Kaffiveitingar

 

Fáskrúðsfjörður
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Skrúð kl. 15:00 
Ræðumaður: Jökull Fannar Helgason
Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar
Kaffiveitingar

 

Stöðvarfjörður
Hátíðardagskrá í Saxa Guesthouse kl. 15:00
Ræðumaður: Sigurður Hólm Freysson  
Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar
Kaffiveitingar

 

Breiðdalsvík
Hátíðardagskrá verður  á Hótel Bláfelli  kl. 14:00
Ræðumaður: Sigurður Hólm Freysson 
Kaffiveitingar og tónlistaratriði

 

Djúpavogur 
Hátíðardagskrá verður á Hótel Framtíð  kl. 11:00 
Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson
Morgunverður og tónlistaratriði

 

Hornafjörður
Hátíðardagskrá á Z Bistro kl. 14:00 
Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson
Lúðrasveit Hornafjarðar, leikhópur FAS, tónlistaratriði
Kaffiveitingar

 

Selfoss
Kröfuganga við undirleik Lúðrasveitar Selfoss kl. 11:00. Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Lagt verður af stað frá húsi stéttarfélaganna Austurvegi 56 og gengið að Hótel Selfoss þar sem hátíðardagskráin verður haldin innandyra. 
Dagskrá á Hótel Selfossi
Kynnir: Hjalti Tómasson 
Ræður dagsins: Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands  
Skemmtiatriði: Karitas Harpa syngur nokkur lög. Leikhópur Menntaskólans á Laugarvatni sýnir atriði úr Konungi ljónanna. Félagar úr Bifreiðaklúbbi Selfoss sýna stórglæsilega bíla sína. Teymt undir börnum í Sleipnishöllinni frá kl. 12:30 til 14:30. Marie Valgarðsson verður með blöðrur fyrir börnin

 

Vestmannaeyjar
Dagskrá í Alþýðuhúsinu, húsið opnar kl. 14 og baráttufundur hefst kl. 14:30
Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins flytur 1. maí ávarpið Nemendur Tónlistarskóla Vestmannaeyja sjá um tónlistina
Kaffisamsæti í boði stéttarfélagana

 

Reykjanesbær
Hátíðardagskrá í Stapa, húsið opnar Kl.13:45 - Guðmundur Hermannsson leikur létt lög
Kynnir - Guðbrandur Einarsson formaður VS og LÍV
Setning kl.14:00: Guðbjörg Kristmundsdóttir, varaformaður VSFK
Leikfélag Keflavíkur – Litla Hryllingsbúðin
Ræða dagsins: Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ
Söngur – Jóhanna Guðrún og Davíð Sigurgeirsson
Sönghópurinn Víkingarnir
Kl.13:00 er börnum boðið á bíósýningu í Sambíói Keflavík

 

rafidnadarsambandid2Á föstudag og laugardag, dagana 28. og 29. apríl, fer fram sambandsstjórnarfundur RSÍ. Sambandsstjórnarfundur er árlegur fundur sem haldinn er þau ár sem þing er ekki haldið. Á sambandsstjórnarfundum RSÍ eru veittir 2-3 veglegir styrkir til ýmissa góðra málefna á því landssvæði sem fundurinn er haldinn. Að þessu sinni verður fundurinn haldinn í Borgarnesi og eru því áhugasöm félög hvött til þess að sækja um styrki til RSÍ. Styrkumsóknir má senda á kristjan (hjá) rafis.is og gott er að titill tölvupósts beri heitið "Styrkumsókn 2017". Umsóknir þurfa að berast fyrir kl 15:00, föstudaginn 28 apríl næstkomandi. Í umsókn er æskilegt að fram komi til hvaða verkefnis styrks er óskað.

Styrkveitingarnefnd fer í kjölfarið yfir þær umsóknir sem berast og velja 2-3 umsóknir úr þessum hópi og verða styrkir afhentir á fundinum á laugardag og þurfa styrkhafar að veita styrk móttöku þann dag.

rfs rautt

Aðalfundi Rafiðnaðarfélags Suðurnesja sem vera átti miðvikudaginn 19. apríl kl: 20:00 er frestað af óviðráðanlegum orsökum til þriðjudagsins 25. apríl 2017. Fundartími og fundarstaður óbreyttur. 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?