Fréttir frá 2017

05 2. 2017

Ályktun Sambandsstjórnar Rafiðnaðarsambands Íslands um styttingu bótatímabils atvinnuleysisbóta

rafidnadarsambandid rautt

Sambandsstjórnarfundur Rafiðnaðarsambands Íslands, haldinn í Borgarnesi dagana 28. og 29. apríl gagnrýnir harðlega þá fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að ætla að stytta bótatímabil atvinnuleysisbóta úr tveimur og hálfu ári í tvö ár. Stutt er síðan tímabilið var stytt úr þremur árum í tvö og hálft ár.

Rök ríkisstjórnarinnar eru þau að atvinnuástand sé gott um þessar mundir og ástæðulaust sé því að hafa bótatímabil langt. Ríkisstjórnin heitir því einnig að leggja aukna áherslu á að aðstoða fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Rafiðnaðarsambandið tekur undir þær áherslur, þ.e. að aðstoða fólk við endurkomu á vinnumarkað, en aðgerðir m.a. í starfsendurhæfingu í gegnum VIRK, hafa þegar skilað gríðarlega miklum árangri. Rafiðnaðarsambandið telur þó að eitt útiloki ekki annað, þ.e. hægt væri að halda bótatímabilinu óbreyttu og leggja einnig aukna áherslu á aðstoð við atvinnuleitendur.

Jafnvel þótt atvinnuástand sé gott nú um stundir geta alltaf einhverjir einstaklingar fallið á milli og lent í langtímaatvinnuleysi og þá þarf velferðarkerfið að koma til móts við þá einstaklinga. Aðilar vinnumarkaðarins hafa stefnt að því að koma á nýju samningalíkani á Íslandi, í ætt við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum, og órjúfanlegur hluti þess er sterkt velferðarkerfi.

Sambandsstjórn Rafiðnaðarsambandsins leggst alfarið gegn hugmyndum um styttingu bótatímabilsins og hvetur ríkisstjórnina til þess að endurskoða þessar áætlanir.

 

Nánari upplýsingar veitir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ, í síma 856 3466

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?