rafidnadarsambandidÍ dag var dregið úr innsendum niðurstöðum verðlaunakrossgátunnar sem birtist í fréttablaði RSÍ sem félagsmenn fengu sent heim um áramótin. Mjög mikil og góð þátttaka var í krossgátunni en alls bárust 78 rétt svör að þessu sinni sem er mjög vel gert!

Í verðlaun var helgardvöl í orlofshúsi RSÍ innanlands, vor eða haust 2016 (fyrir utan páska- og sumartímabil).

Vinningshafinn er Jón Magnús Eyþórsson.

Við óskum Jóni innilega til hamingju með vinninginn og vonum að hann komi að góðum notum.

Lausnarorðið var Klifabotn

Banner Kjarasamningur undirritadurÍ gær var skrifað undir nýjan kjarasamning á milli aðildarfélaga ASÍ og SA vegna almennra kjarasamninga aðila. Kjarasamningurinn er gerður vegna rammasamkomulags frá 27. október 2015 sem og bókun um jöfnun lífeyrisréttinda frá 5. maí 2011. Helstu breytingar eru þær að launahækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. maí 2016 verður flýtt til 1. janúar 2016 (á þessu ári) og verður launahækkunin hærri en áður var samið um en í stað 5,5% launahækkunar verður hún 6,2%. Baksýnisspegill er tekinn úr sambandi en þó með vísun í bókun þess efnis (sjá bókun til skýringar á 4. gr.). Launahækkanir 2017 og 2018 hækka jafnframt frá gildandi kjarasamningi en eftir breytingu verður almenn launahækkun 2017 upp á 4,5% og árið 2018 upp ár 3%.

Jöfnun lífeyrisréttinda kemur í skrefum til ársins 2018, eftir árið 2018 er stefnt að því að réttindaávinnsla verði upp á 76% af meðalævitekjum viðkomandi sjóðfélaga í stað lágmarks upp á 56% í dag, þetta næst með þeim hætti að mótframlag launagreiðenda hækkar úr 8% í 11,5% á tímabilinu.

Þessi kjarasamningur verður settur í atkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna aðildarfélaga ASÍ sem taka laun samkvæmt almennum kjarasamningum félaganna, hér er um að ræða kjarasamning RSÍ-SA/SART. Niðurstaða úr atkvæðagreiðslu skal liggja fyrir eigi síðar en 26. febrúar næstkomandi. Hjá RSÍ þarf að uppfæra alla sérkjarasamninga til samræmis við rammasamkomulagið sem gert var 27. október 2015 ásamt þeim viðbótum sem felast í þessum samningi varðandi lífeyrismál. Þegar þeirri vinnu er lokið verður niðurstaðan borin undir atkvæði hjá hverjum hópi fyrir sig. 

Í umræddum kjarasamningi er EKKI verið að gera breytingar á samningalíkani okkar en sú vinna mun fara fram á þessu ári og fer væntanlega í atkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna þegar þeirri vinnu er lokið, takist að ljúka henni.

Sameiginlegt kynningarefni aðildarfélaga ASÍ er að finna hér.

Kjarasamninginn í heild sinni er að finna hér.

Banner KjarasamningarÍ dag er stefnt að því að ljúka undirskrift nýs kjarasamnings vegna allra almennra kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ. Um er að ræða sameiginlegan kjarasamning þar sem verið er að uppfylla bókun sem skrifað var undir 5. maí 2011 varðandi jöfnun lífeyrisréttinda en jafnframt er verið að bæta í launahækkanir almennu kjarasamninganna til samræmis við það sem ákveðið var í rammasamkomulagi sem aðilar skrifuðu undir 27. október 2015. Þar kemur fram að þeir samningsaðilar sem standa að rammasamkomulaginu skuli hafa sambærilegan samningskostnað af kjarasamningum frá nóvember 2014 til loka desember 2018 eða allt að 132 á þessum tíma (kostnaðarmat upp á 32% á umræddu tímabili).

Þessi samningur nær í fyrstu lotu eingöngu til almennu kjarasamninganna en nauðsynlegt verður að uppfæra alla sérkjarasamninga RSÍ í kjölfarið með sambærilegum hætti og munu breytingar taka gildi á sömu dagsetningum og almenni samningurinn segir til um. 

Á sama tíma og verið er að ganga frá þessum kjarasamningi, verði hann samþykktur í atkvæðagreiðslu á meðal allra þeirra félagsmanna ASÍ sem hann nær til, þá verður kostnaðarmat kjarasamninga meira en gengið var frá síðastliðið sumar. 

Samtök atvinnulífsins eru með þessu að skrifa undir samkomulag við aðildarfélög ASÍ um að kostnaðarauki allra sérkjarasamninga, sem þarf að uppfæra sérstaklega, verði til samræmis við þessa niðurstöðu.

Þetta þýðir að það mun til dæmis bætast aukinn kostnaður í kjarasamning RSÍ og annarra stéttarfélaga sem gerður verður við ISAL, Rio Tinto. Á sama tíma reynir forstjóri Rio Tinto úti í heimi að frysta öll laun Rio Tinto. Það er því ljóst að kjaradeila verkalýðsfélaganna mun taka á sig nýjan mynd í kjölfar þessarar niðurstöðu. 

Munu Samtök atvinnulífsins standa við gerðan kjarasamning, verði skrifað undir í dag, og framfylgja þeirri niðurstöðu gagnvart Rio Tinto eða eru þetta enn og aftur orðin tóm??

rafidnadarsambandidMiðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands mótmælir harðlega ákvörðun kjararáðs þar sem laun dómara eru hækkuð um 300.000 – 560.000 kr á sama tíma og laun hins almenna launamanns hafa hækkað um um það bil 30.000 kr. Seðlabanki Íslands hefur ítrekað bent á að ígildi 10% af launahækkun dómaranna geti valdið efnahagslegum hamförum í samfélaginu hvað þá tíföld sú upphæð! Það gefur auga leið að vonlaust er að byggja upp samfélag með jafnmikilli stéttarskiptingu eins og raun ber vitni. Ákvarðanir um að deila meiri gæðum til þeirra sem meira hafa er óásættanlegt.

Hækkun launa í stjórnunarstöðum ýmissa fyrirtækja hér á landi benda til þess að sama launastefna sé viðhöfð og áður en íslenskt efnahagskerfi hrundi. Við sáum þá að ofurlaunastefna fyrirtækjanna hafði ekkert með gæði fyrirtækjanna að gera og því er ekki ástæða til að ætla að svo sé nú.

Miðstjórn RSÍ tekur undir áskorun ASÍ til stjórnvalda um að tekið verði upp alvöru hátekjuskattur á ofurlaun. Það þarf að tryggja jöfn skipti í samfélaginu og ofurlaunastjórnendur sem eru aflögufærir eiga að leggja meira til samfélagsins. Jöfn skipti á þjóðarkökunni er forsenda sáttar í samfélaginu til lengri tíma! Miðstjórn RSÍ skorar á stjórnvöld að skipa fulltrúa launafólks af almennum vinnumarkaði í kjararáð.

 

Klukk 1300x400Hvað er Klukk?

Klukk er nýtt frítt tímaskráningar app fyrir Android/iOS  sem ætlað er launafólki. Notandi skráir vinnutímana sína með Klukk og hefur þannig yfirsýn yfir unnar vinnustundir. Í klukk er hægt að virkja staðsetningarbúnað sem minnir notandann á að klukka sig inn og út. Einnig er hægt að senda sér tímaskráningarskýrslu úr Klukk á netfang viðkomandi. Nánar á www.asi.is/klukk  

 

Hvers vegna Klukk?

Hugmyndin varð til eftir ábendingar frá stéttarfélögunum þar sem ítrekað koma inn á borð deilur um vinnutíma. Auk þess hafa nemendur rætt sama vandamál þegar fulltrúar ASÍ hafa farið í fræðsluheimsóknir í framhaldsskóla. Verkalýðshreyfingin er því að svara óskum unga fólksins með appinu. Inn í Klukk er sérstaklega bent á gildi þess fyrir launafólk að vera í stéttarfélagi.

 

Apple:

https://itunes.apple.com/us/app/klukk/id1048984062?ls=1&mt=8

 

Google:

https://play.google.com/store/apps/details?id=is.stokkur.klukk.android


 

asi

Búferlaflutningar hafa verið í umræðunni síðustu misseri og ekki að ósekju þar sem sveiflur í flutningsjöfnuði, þ.e. fjölda aðfluttra umfram brottflutta, hafa verið miklar undanfarin ár. Í raun hafa sveiflur í búferlaflutningum undanfarin áratug verið þær mestu frá árinu 1961, eða svo langt aftur sem gögn Hagstofunnar ná og gildir þá einu um hvort skoðaður sé fjöldi einstaklinga eða hlutfall af mannfjölda. Auknar sveiflur í seinni tíð má m.a. rekja til aukins hreyfanleika vinnuafls um Evrópu þar sem aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og síðar stækkun Evrópusambandsins til austurs hafa gert búferlaflutninga auðveldari. (Nánar Smella hér)

asi

Reykjavík 6.janúar 2016

Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega ákvörðun kjararáðs um laun dómara og krefst þess að stjórnvöld setji á hátekjuskatta til þess að stemma stigu við ofurlaunum.

Á fundi kjararáðs þann 17. desember sl. úrskurðaði ráðið um meira en 40% hækkun á launum dómara og verulega hækkun á launum bankastjóra Landsbankans. Þessar launahækkanir eru úr öllum takti við þann veruleika sem þorri launafólks býr við. Miðstjórn ASÍ telur augljóst, að kjararáð sé með þessum úrskurði sínum að taka mið af þeirri ofurlaunaþróun sem átt hefur sér stað hjá stjórnendum fyrirtækja á undanförnum misserum. Þarna er verið að hækka hálaunahópa langt umfram aðra og  almenningur sér augljóslega ekki hvaða sanngirni er í því? Það er eitthvað bogið við samfélag sem hækkar mánaðarlaun hátekjufólks um fleiri hundruð þúsund krónur í einu vetfangi á meðan hluti þjóðarinnar berst í bökkum.

Miðstjórn ASÍ varar einnig við því að með þessum nýjustu hækkunum kjararáðs sé í reynd lagður grunnur að frekari launahækkunum æðstu embættismanna ríkisins. Í næstu lotu verður því væntalega haldið fram, að komin sé skekkja í myndina og forseti, ráðherrar og alþingismenn þurfi ámóta glaðning frá kjararáði.  

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands áréttar andstöðu sína við þessa þróun ofurlaunanna og vill undirstrika að þróun í kjörum æðstu forystumanna bæði atvinnulífs og á hinum opinbera vettvangi hefur aukið hér launamun og valdið mikilli reiði almenns launafólks. Afleiðingin er að sífellt er verið að endurnýja tilefni deilna og átaka í samfélaginu og lýsir miðstjórn ASÍ þessa aðila ábyrga fyrir afleiðingunum. Jafnframt krefst ASÍ þess að ríkisstjórn og Alþingi  bregðist við með þeim eina hætti sem getur skapað sátt meðal almennings og það er að taka hér upp alvöru hátekjuskatta á ofurlaun.

asi

Alþýðusambandið fagnar þeirri umræðu sem skapast hefur í framhaldi af ábendingum ríkisskattstjóra í nýjasta tölublaði Tíundar um það mikla samfélagslega tjón sem skattaundanskot og þá ekki síst kennitöluflakkið veldur. Niðurstaða ríkisskattstjóra er að það vanti 80 milljarða á ári upp á þær skatttekjur sem umsvifin í þjóðfélaginu gefa tilefni til.

 

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur.  Í október 2013 lagði ASÍ fram tillögur í 16 liðum um aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki. Tillögunum fylgdi ítarleg úttekt á kennitöluflakkinu í íslensku samfélagi og afleiðingum þess.

 

Með úttektinni og tillögunum vildi ASÍ setja á dagskrá baráttuna gegn þessum skaðvaldi í íslensku atvinnulífi. Jafnframt bendir ASÍ á að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi þrífast gjarnan hlið við hlið. Tillögurnar voru sendar ráðherrum ríkisstjórnarinnar og boðin fram liðveisla ASÍ við að uppræta þennan ósóma úr íslensku atvinnulífi. Það er skemmst frá því að segja að engin raunverulegur áhugi hefur komið fram hjá stjórnvöldum á að taka á kennitöluflakkinu af einhverri festu.

 

Það er von Alþýðusambandsins að umræðan nú verði til að ríkisstjórnin og Alþingi vakni til vitundar um mikilvægi þess að taka á þeirri alvarlegu meinsemd sem kennitöluflakkið er. Enn sem fyrr er ASÍ tilbúið til samstarfs í þeim efnum.

 

Hvað er kennitöluflakk?

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi milljarða króna á ári.

 

Samfélagslegt tjón

Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgð hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt:

•    Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.

•    Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri, og starfsmenn þeirra, sem standa skil á sínu en búa við skekkta samkeppnisstöðu vegna þeirra sem hafa rangt við. Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota og einstaklingar sem eiga viðskipti við félagið.

 

•    Sameiginlega sjóði landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi svo dæmi séu tekin.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?