Fréttir frá 2016

01 21. 2016

Nýr kjarasamningur ASÍ-SA - hvað með ISAL?

Banner KjarasamningarÍ dag er stefnt að því að ljúka undirskrift nýs kjarasamnings vegna allra almennra kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ. Um er að ræða sameiginlegan kjarasamning þar sem verið er að uppfylla bókun sem skrifað var undir 5. maí 2011 varðandi jöfnun lífeyrisréttinda en jafnframt er verið að bæta í launahækkanir almennu kjarasamninganna til samræmis við það sem ákveðið var í rammasamkomulagi sem aðilar skrifuðu undir 27. október 2015. Þar kemur fram að þeir samningsaðilar sem standa að rammasamkomulaginu skuli hafa sambærilegan samningskostnað af kjarasamningum frá nóvember 2014 til loka desember 2018 eða allt að 132 á þessum tíma (kostnaðarmat upp á 32% á umræddu tímabili).

Þessi samningur nær í fyrstu lotu eingöngu til almennu kjarasamninganna en nauðsynlegt verður að uppfæra alla sérkjarasamninga RSÍ í kjölfarið með sambærilegum hætti og munu breytingar taka gildi á sömu dagsetningum og almenni samningurinn segir til um. 

Á sama tíma og verið er að ganga frá þessum kjarasamningi, verði hann samþykktur í atkvæðagreiðslu á meðal allra þeirra félagsmanna ASÍ sem hann nær til, þá verður kostnaðarmat kjarasamninga meira en gengið var frá síðastliðið sumar. 

Samtök atvinnulífsins eru með þessu að skrifa undir samkomulag við aðildarfélög ASÍ um að kostnaðarauki allra sérkjarasamninga, sem þarf að uppfæra sérstaklega, verði til samræmis við þessa niðurstöðu.

Þetta þýðir að það mun til dæmis bætast aukinn kostnaður í kjarasamning RSÍ og annarra stéttarfélaga sem gerður verður við ISAL, Rio Tinto. Á sama tíma reynir forstjóri Rio Tinto úti í heimi að frysta öll laun Rio Tinto. Það er því ljóst að kjaradeila verkalýðsfélaganna mun taka á sig nýjan mynd í kjölfar þessarar niðurstöðu. 

Munu Samtök atvinnulífsins standa við gerðan kjarasamning, verði skrifað undir í dag, og framfylgja þeirri niðurstöðu gagnvart Rio Tinto eða eru þetta enn og aftur orðin tóm??

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?