Fréttir frá 2020

11 11. 2020

Minni fagmennska sparar ekki fé

rafidnadarsambandid2Í gær var skýrsla OECD kynnt um samkeppnismat OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Í kjölfarið birtust yfirlýsingar iðnaðarmálaráðherra, þar sem ráðherra lýsir því yfir að hægt sé að búa til eða losa um 30 milljarða kr. á ári í tengslum við þessa skýrslu. Í umfjöllun ráðherra kemur líka fram að nauðsynlegt sé að fara yfir löggildingu iðngreina, og þá líklega til þess að „búa til“ þessa 30 milljarða, þó svo það muni mæta andstöðu. Það verður að viðurkennast að þessi umræða sem þarna er sett af stað enn á ný, virðist eins og áður vera sett fram án þess að málefnaleg rök liggi að baki.

Með lögverndun iðngreina er stuðlað að meiri fagmennsku í vinnubrögðum, aukinni neytendavernd og öryggi landsmanna. Sparnaður fyrir samfélagið næst ekki með því að fella niður kröfur um fagleg vinnubrögð og fagréttindi. Þvert á móti má fastlega gera ráð fyrir því að kostnaður við nýbyggingar geti aukist verulega verði kröfur um fagmennsku felldar út. Kostnaður við breytingar, viðgerðir og viðhald verður meiri sé ekki farið eftir reglugerðum og stöðlum, né notast við hæft og vel menntað fagfólk sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sínu sviði. Sparnaður fæst ekki með minni gæðum. Líf og heilsa íbúanna veltur á því að fagmennska ríki í vinnubrögðum.

Sú ríkisstjórn sem nú heldur um stjórnartaumana hefur ítrekað talað um mikilvægi menntunar en ekki síður mikilvægi þess að auka veg iðn- og verkgreina og fjölga nemendum í greinunum. Afnám löggildinga þessara greina myndi koma illilega í bakið á þessum nemendum og þeim sem starfa í þessum greinum, með alvarlegum afleiðingum.

Ríkisstjórnin talar um að efla íslenskan vinnumarkað og vill samtal um það, en á sama tíma lýsir ráðherra sig viljuga til að svipta beinlínis undan honum grundvellinum, með því að vega að menntun og fagmennsku. Það er ekki með nokkru móti hægt að taka undir orð ráðherra um endurskoðun á löggildingu iðngreina eða hefja samtal um aukna framþróun mála þegar farið er inn í umræðuna á þeim forsendum.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?