Fréttir frá 2020

09 1. 2020

Ný verðkönnun -verðkönnun á tíðarvörum

ASI Verdlagseftirlit

Lækkun á virðisaukaskatti á tíðarvörum að hluta til skilað sér í lægra vöruverði 
Verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ á tíðarvörum sýnir að lækkun virðisaukaskatts úr 24% í 11% sem tók gildi 1. september 2019 hefur á um einu ári skilað sér að einhverju leyti til neytenda, þó misvel eftir verslunum. Mest hafa tíðavörur lækkað í Iceland, um 17,6% og næst mest í Krambúðinni um 7,5%. Minnst hafa þær lækkað í Bónus, um 1% og næst minnst í Krónunni, 3,5% á meðan verð stóð í stað í 10-11. Verðkönnunin sýnir einungis breytingar á verði yfir tíma í verslunum en tekur ekki tillit til þess hvar lægsta verðið er að finna.   

Þann 1. september 2019 tóku í gildi ný lög sem kveða á um að tíðarvörur ásamt öllum tegundum getnaðarvarna skuli vera í neðra þrepi virðisaukaskatts, 11% í stað efra þrepsins, 24%. Breytingin ætti að öllu óbreyttu að skila 10,5% lækkun á verði til neytenda. Markmiðið með lögunum var að stuðla að bættri lýðheilsu og auka jafnræði, lækka kostnað á nauðsynlegum hreinlætisvörum kvenna og jafna aðstöðumun notenda mismunandi forma getnaðarvarna. Lækkun á virðisaukaskatti á tíðavörum, oft kallaður bleiki skatturinn eða túrskatturinn, er nú jafn hár og virðisaukaskattur sem lagður er á aðrar hreinlætis- og nauðsynjavörur eins og bleyjur, matvöru, heitt vatn og rafmagn. 

Mestar verðlækkanir á tíðavörum í Iceland en minnstar í Bónus 
Verðlagseftirlit ASÍ safnaði gögnum um verðbreytingar á tíðavörum í matvöruverslunum í lok ágústs 2019, áður en lögin tóku gildi og svo aftur um miðbik ágústst 2020, þegar rétt innan við ár var liðið frá því að breytingarnar tóku gildi. Á tímabilinu lækkaði verð á tíðarvörum í öllum verslunum nema í 10-11. Mest lækkaði verð á tíðavörum í Iceland, 17,6% sem er í takt við verðlækkanir sem sést hafa í versluninni í öðrum könnunum verðlagseftirlitsins. 

Næst mest lækkaði verð á tíðavörum í Krambúðinni, 7,5% og þá lækkaði verð á tíðarvörum um 6,2% í Hagkaupum, 5,4% í Nettó og 4,5% Í Fjarðarkaupum. Minnst lækkuðu tíðavörur í Bónus, um 1% og næst minnst í Krónunni 2,1%. Engin breyting var á verði á tíðavörum í 10-11 á tímabilinu. 

 

Veiking krónu vegur upp á móti lækkun virðisaukaskatts 
Vert er að taka fram að frá 30. ágúst 2019- 14. ágúst 2020 veiktist krónan gagnvart helstu gjaldmiðlum en gengisveiking er einn af þeim þáttum sem getur haft áhrif á verð innfluttra vara. Á tímabilinu sem um ræðir veiktist krónan um 16,3% gagnvart Evru, um 8,8% gagnvart dollar og um 17% gagnvart breska pundinu.  

Um könnunina
Samanburðurinn nær til verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ á tíðavörum í matvöruverslunum sem fóru fram dagana 30. ágúst 2019 og 14. ágúst 2020 

Verðbreytingar voru skoðaðar í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni , Kjörbúðinni, Krambúðinni, 10-11 og Fjarðarkaupum. Þess ber að geta að hér eru einungis birtar upplýsingar um verðbreytingar í verslanakeðjunum á milli verðmælinga en ekki er um beinan verðsamanburð að ræða,  þ.e.a.s. hvar ódýrustu tíðavörurnar var að finna.  

Óheimilt er að vitna í niðurstöðurnar í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. 

 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?