Fréttir frá 2020

04 17. 2020

Vikulegur pistill formanns RSÍ

rafidnadarsambandid2Síðustu vikur hafa að langmestu leyti farið í að sinna verkefnum sem tengjast því alvarlega ástandi sem við búum við vegna Covid-19. RSÍ hefur sett upp sérstaka upplýsingasíðu vegna mála sem þessu tengjast til að halda utan um málefnin á einum stað. Verkefnið er og verður í vinnslu á meðan málin þróast áfram. 

Gríðarlega mikilvægt var að túlkun Samtaka atvinnulífsins var leiðrétt vegna hlutaatvinnuleysisbóta en í vikunni var allur vafi tekinn af því að það er með öllu óheimilt að nýta hlutaatvinnuleysisbætur og láta uppsagnarfrest líða á sama tíma. Ef fyrirtæki þurfa að nýta sér úrræði Vinnumálastofnunar og lækka starfshlutfall starfsmanna tímabundið þá verður ráðningarsamband að vera í fullu gildi. Komi til þess að segja þurfi starfsfólki upp þá fellur hlutabótaúrræðið úr gildi um leið og fyrirtæki verður að greiða starfsfólki full laun á uppsagnarfresti. Við hvetjum félaga okkar til að vera í sambandi við RSÍ ef þið lendið í slíkum uppsögnum.

Nú þegar hefur verið gripið til ýmissa úrræða til að bæta erfiða stöðu í samfélaginu. Eitt þeirra úrræða er heimild til þess að taka út séreignarsparnað upp að ákveðnu hámarki vegna Covid-19. Rétt er að taka fram að þessi úttekt er ekki skattfrjáls og er því greiddur tekjuskattur af úttektinni, ólíkt skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Því er mjög mikilvægt að félagar okkar geri sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á mögulegan sparnað til lengri tíma litið. Sé markmið að taka út sparnað til daglegrar neyslu þá getur verið skynsamlegt að ráða frá því en uppgreiðsla á langtímaskuldum getur alltaf verið skynsamleg. Sé sparnaður ávaxtaður til lengri tíma (fyrir skattgreiðslur) þá getur ávinningur verið mun meiri til lengri tíma litið. Við hvetjum félaga okkar eindregið til þess að kynna sér möguleika þess að eiga sparnað til efri ára í stað þess að taka sparnaðinn út.

Nú er unnið að breytingum á húsnæðismarkaði líkt og hefur komið fram á undanförnum mánuðum sem eru tilkomin vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir voru fyrir ári síðan. Hlutdeildarlán eru meðal mikilvægra mála sem nú er farið að sjá eftir vinnu að undanförnu. Með þessum lánum er verið að búa til betra aðgengi fólks til þess að koma inn á fasteignamarkað með fyrstu kaupum. Mun auðvelda fyrstu kaup fasteigna. Á sama tíma mun fyrirkomlagið jafnframt ýta undir eðlilega uppbyggingu íbúða á markaðnum. Það er gríðarlega mikilvægt að þessari vinnu verði lokið á næstu vikum svo mögulegt verði að taka upp nýtt úrræði, til hagsbóta fyrir ungt fólk sem og þá sem hafa ekki átt húsnæði um nokkurt skeið.

Atvinnuleysi hefur aukist verulega á undanförnum vikum en gríðarleg aðsókn hefur verið í hlutaatvinnuleysisbætur VMST líkt og kom fram fyrr í pistlinum. Úrræðið hefur það meignmarkið að tryggja að ráðningarsamband launafólks haldist þrátt fyrir þær hremmingar sem standa yfir. Þess ber jafnframt að geta að atvinnuleysi hefur á sama tíma aukist nokkuð þrátt fyrir þessar aðgerðir. Landshlutarnir verða misjafnlega fyrir barðinu á samdrætti atvinnu en Suðurnesin verða einna verst úti eins og staðan er núna en má rekja það fyrst og fremst til gríðarlegra áhrifa á ferðaþjónustuna. 

Nú er gríðarlega mikilvægt að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar til þess að draga úr tekjufalli þeirra sem eru á meðallaunum á vinnumarkaði. Þess má geta að við innan ASÍ höfum lagt á það mikla áherslu að upphæðir atvinnuleysisbóta verði hækkaðar. 

Við leggjum mikla áherslu á að staða heimilanna verði tryggð þannig að þau áföll sem við upplifum lendi ekki á heimilunum en gengisfall íslensku krónunnar veldur að sjálfsögðu miklum áhyggjum en miklar líkur er á að þetta fall, verði það til lengri tíma, muni á endanum skila sér í hærri mælingum á verðlagi hér á landi. 

Það er ljóst að ríkið, okkar sameiginlegi sjóður sem landsmenn eiga sameiginlega, er að greiða gríðarlegar fjárhæðir til að létta undir á þessum tímum. Það hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvægt að fjármunum verði ekki sóað í óþarfa eða óábyrgar aðgerðir sem ekki skila fleiri störfum og bættum aðstæðum fyrir launafólk. Það er ljóst að stuðningur við fyrirtækin er mikill og er það vel. Við þurfum hins vegar sem samfélag að huga að því að stuðningurinn þarf að vera skilyrðum háður. Fyrst er að huga að því að fyrirtæki sem hafa borð fyrir báru eiga að leggja sitt af mörkum. Fyrirtæki sem þurfa stuðning, fyrirtæki sem hafa verið vel og skynsamlega rekin, eiga að fá stuðning en ríkið ætti svo sannarlega að setja skilyrði fyrir stuðningi til fyrirtækja við að störf séu tryggð, að laun séu tryggð. Sé hins vegar ekki farið að skilyrðum þá greiði fyrirtækin fyrir slíkt t.d. með sektargreiðslum, endurgreiðslu á stuðningi eða þá hreinlega að ríkið eignist hlut í fyrirtækjum sem stuðningur er veittur við. Slíkt væri hægt að greiða til baka á komandi árum þegar betur fer að ára aftur.

Að lokum er mikilvægt að við tökum áfram höndum saman í baráttunni við þessa óværu sem herjar á heiminn. Þó svo okkur sé að takast að draga verulega úr smiti hér á landi þá hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvægt að við stöndum saman og fylgjum sóttvarnarlögum og reglum til að tryggja að vírusinn komist ekki aftur á skrið í samfélaginu. Við þurfum að halda áfram baráttunni við að draga úr smithættunni. Þó þróunin sé jákvæð þá hefur það sýnt sig erlendis að ef það er farið of geyst af stað aftur þá getur smitum fjölgað hratt aftur. Hlýðum Víði - áfram!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?