Fréttir frá 2020

02 2. 2020

Vikulegur pistill formanns

rafidnadarsambandid2Áfram halda kjaraviðræður. Fundað var með fulltrúum Norðuráls fyrri hluta vikunnar þar sem haldið var áfram umræðum um breytingar á vaktakerfi fyrirtækisins sem og tillögur iðnaðarmanna til breytinga á stóriðjuskólanum og þá sérstaklega hvað varðar aðkomu iðnaðarmanna í það kerfi. Fínn gangur er í samtalinu en væntingar starfsfólks er að gengið verði frá kjarasamningi sem fyrst. 

Fundað var með fulltrúum ISAL í vikunni á formlegum fundi hjá Ríkissáttasemjara. Fínn gangur hefur verið í þessum viðræðum hingað til en þess ber þó að geta að samningurinn rann út í lok maí 2019 og því augljóst að ferlið hefur verið alltof langt og starfsfólk löngu orðið óþreyjufullt eftir því að sjá kjarasamning á borðinu. Í fyrra var gert samkomulag um frestun á viðræðum yfir sumartímann og fram á haust en ljóst er að nú er komið að þeim tímapunkti að ekki verður unað við frekari drátt á viðræðum. Það er augljóst að aðstæður eru erfiðar í Straumsvík, starfsfólk hefur nú þegar tekið á sig ákveðið högg eftir hrakfarir undanfarinna ára en starfsfólk er ekki sátt við að slíkt haldi áfram. Augljóst er að skortur er á samningsumboði samninganefndar fyrirtækisins til að semja fyrir hönd þess. Gera má ráð fyrir að félögin muni skipuleggja fundi á næstu dögum til þess að fara yfir stöðu mála með félögum okkar.

Kynningarfundir voru haldnir vegna kjarasamninga sem undirritaður vöru við Reykjavíkurborg og Ríkið. Fundirnir voru haldnir í samstarfi við Samiðn. Atkvæðagreiðslur um kjarasamningana standa yfir og hvetjum við félaga okkar til þess að kynna sér ákvæði samninganna og taka afstöðu til þeirra með þátttöku í atkvæðagreiðslum. Hlekkur á atkvæðagreiðslurnar eru á forsíðunni.

Undir lok vikunnar fundaði forsetateymi ASÍ með fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Efni fundarins var eftirfylgni við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga síðasta árs. Nú þegar hafa ýmsar breytingar litið dagsins ljós en má þar nefna breytingar á skattkerfi, hækkun barnabóta og lenging fæðingarorlofs svo dæmi séu tekin. Vinna er í gangi í fjölda mála sem snúa að því að draga úr brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði en við höfum kallað eftir refsiákvæði í lög þegar brotið er á starfsfólki með kerfisbundnum hætti. Styrking lagaákvæða sem þessu tengjast hafa verið í starfshópum og er sú vinna að mörgu leyti langt komin en hins vegar sér ekki fyrir endann á þeirri vinnu sem veldur miklum vonbrigðum. Endurskoðun kjarasamninga mun fara fram í haust og augljóst er að nauðsynlegt verður að málin séu komin í höfn sem um var samið að ætti að breyta.

Framundan eru launahækkanir sem koma til framkvæmda 1. apríl 2020 en þá hækka kauptaxtar að lágmarki um 24.000 kr. En almennar launahækkanir verða 18.000 kr. 

Lágmarkstímakaup fyrir rafiðnaðarsvein, einstakling sem hefur lokið sveinsprófi, verður 2.616 kr á unna klukkustund frá 1. apríl 2020. Fyrir fulla dagvinnu verða lágmarkslaun 418.496 kr. Frá og með sama tíma.

Upptaka virks vinnutíma tekur gildi þann 1. apríl. Engin breyting verður á dagvinnutíma starfsfólks vegna þess, 35 mínútna kaffitímar eru áfram inni í dagvinnunni en teljast ekki til greiddra stunda. Tímakaup í dagvinnu hækkar því sem þessu nemur, eða um 8,33% til viðbótar við launahækkunina sem nemur 112,5 krónum á hverja klukkustund eða 18.000 kr. á hvern unninn mánuði í dagvinnu.

Vinnutímastytting er möguleg á þessum tímamótum á almennum vinnumarkaði niður í 36 virkar vinnustundir. Styttingin vinnutímans þarf að vera gerð í samstarfi starfsfólks og fulltrúa fyrirtækisins á hverjum vinnustað fyrir sig með formlegum samningi sem starfsfólk greiðir atkvæði um og meirihluti þarf að samþykkja breyttan vinnutíma. Stytting vinnutímans verða þá 13 mínútur á hverjum degi til viðbótar við niðurfellingu á formlegum kaffitímum sem nema 35 mínútum á dag. Samtals gerir þetta 48 mínútur á dag eða 4 klst á hverri vinnuviku. Virkar vinnustundir í dagvinnu eiga ekki að vera fleiri en 36 klst á hverri viku að jafnaði.

Ítarlegra kynningarefni verður gefið út varðandi launahækkanir og vinnutímastyttinguna. Trúnaðarmenn á hverjum vinnustað eru hvattir til þess að vera í samstarfi við skrifstofu RSÍ vegna þessara mála sé nánari útlistunar óskað.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?