Fréttir frá 2020

01 26. 2020

Norræna Rafiðnaðarsambandið - kjarasamningar undirritaðir

rafidnadarsambandid2Síðasta vika byrjaði á fundi formanna norrænna Rafiðnaðasambanda, (NEF, Nordisk el-federation). Fundurinn fór fram hér á Íslandi en farið er yfir stöðu félags og efnahagsmála í hverju landi fyrir sig. Vettvangurinn hefur skilað gríðarlegum ávinningi í gegnum tíðina, má þar nefna samræmda menntun landanna. Grunnur menntunar er sá sami sem við vinnum eftir. Við miðlum upplýsingum um framkomu fyrirtækja, sérstaklega þegar fyrirtækin brjóta á starfsmönnum og sýnum samstöðu. Fundurinn sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu þar sem kollegar okkar í Finnlandi berjast fyrir grundvallarrétti til að tilheyra verkalýðsfélögum í sinni starfsgrein. Formannafundurinn sendi því stuðningsyfirlýsingu til félaga okkar í Finnlandi. 

Fjöldi samningafunda voru í vikunni. Skrifað var undir kjarasamninga við Ríkið og Reykjavíkurborg. Samningarnir verða kynntir þeim félagsmönnum sem taka laun samkvæmt þeim kjarasamningum. Fundað var með fulltrúum Norðuráls, Alcoa og fundað var með fulltrúum ISAL á formlegum fundum hjá Ríkissáttasemjara.  

Í vikunni fundaði miðstjórn ASÍ en þar var farið yfir þau mál sem snúa að stjórnvöldum vegna kjarasamninganna sem í gildi eru. Ljóst er að enn á eftir að uppfylla í ýmis ákvæði úr yfirlýsingu stjórnvalda til þess að tryggt verði að forsendur kjarasamninga haldi þegar kemur að endurskoðun í haust. Unnið er að því að innleiða breytingar á fjármögnun fasteigna þegar snýr að fyrstu kaupum fólks sem er gríðarlega mikilvægt. Mikilvægar breytingar þarf að gera á lögum um lífeyrissjóði sem ekki fóru í gegnum Alþingi á réttum tíma en mjög mikilvægt er að málinu verði lokið áður en til endurskoðunar kemur. Á fundinum var jafnframt farið yfir málareksturs Neytendasamtakanna gegn smálánafyrirtækjum en það er ólíðandi að sjá hvernig þessi fyrirtæki halda fólki í heljargreipum oftar en ekki með ólögmætum kröfum. 

Dagur rafmagns var haldinn hátíðlegur á fimmtudag þar sem Rafmennt - fræðslusetur rafiðnaðarins var formlega opnuð með pompi og prakt. Húsið var opið fyrir gesti og gangandi þar sem starfsemin var sýnd en eins og fram hefur komið ávarpaði formaður RSÍ samkomuna auk þess sem Kristín Birna B. Fossdal, deildarstjóri rafbúnaðar og stjórnkerfa hjá ON sagði frá reynslu sinni úr starfi. Auk þess ávörpuðu Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar og Hjörleifur Stefánsson, formaður SART, samkomuna.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?