Fréttir frá 2019

12 31. 2019

Gamlárspistill formanns RSÍ

rafidnadarsambandid2Kæru félagar,

Nú þegar árið er á enda er ekki úr vegi að fara yfir árið þó stiklað verði á stóru. Árið sem er að líða hefur verið sérstaklega viðburðaríkt, það byrjaði með mikilli óvissu á vinnumarkaði þar sem mikill fjöldi kjarasamninga runnu úr gildi um síðustu áramót. Viðræður hófust á síðasta ári en samt sem áður tók það á fimmta mánuð að endurnýja almenna kjarasamninginn en áður höfðu félagar okkar innan ASÍ margir hverjir gengið frá kjarasamningum. 

Tiltölulega erfiðar aðstæður voru þar sem hagkerfið var farið að kólna og nokkuð hressilega með óvissu eftir að WOW air varð gjaldþrota. Þá var ljóst að svigrúm gæti takmarkast við breyttar aðstæður og ákváðu þau félög sem gengu á undan að snúa úr sókn í varnarbaráttu. Hófstilltir kjarasamningar sem tóku mið af stöðu efnahagslífsins varð niðurstaðan, samningar sem voru léttir á fyrsta ári en þyngjast á síðari árum samningstímans. Hækkun lægstu taxtanna til þess að færa taxtana nær greiddu kaupi á markaði.

Áhersla var lögð á að ná stjórnvöldum að borðinu enda fjölmörg atriði sem skiptu verulega miklu máli í heildarsamhengi launafólks. Lækkun tekjuskatts verður raunveruleg um þessi áramót, fyrsta skrefið er stigið, skattþrepum er fjölgað um eitt þar sem öllum er tryggð lækkun á tekjuskatti. Mest mun skila sér til þeirra sem eru í verstri stöðu í samfélaginu, tekjulágir á vinnumarkaði, atvinnuleitendur, skólafólk sem vinnur samhliða skóla en ekki síður öryrkjar og ellilífeyrisþegar. Seinna skrefið verður stigið að ári liðnu. Vissulega hefðum við viljað sjá meiri lækkun tekjuskatts en við leggjum jafnframt ríka áherslu á góðan rekstur hins opinbera með réttri forgangsröðun. 

Gagnvart stærri hópi félaga okkar innan RSÍ þá hefur það raungerst að stýrivextir hafa lækkað um 1,5 prósentustig á árinu, frá því gengið var frá kjarasamningum í maí síðastliðnum. Þetta er lækkun á vaxtagreiðslum upp á rúman fjórðung eða um tæp 27%, sé miðað við breytilega vexti á óverðtryggðum lánum. 

En það eru ekki allir með óverðtryggð lán og þá er jafnframt ekki síður áhugavert að skoða hvernig breytilegir vextir á verðtryggðum lánum hefur breyst á árinu. Hjá Birtu lífeyrissjóði hafa breytilegir verðtryggðir vextir lækkað um tæp 40% á árinu. Nú eru vextirnir komnir niður í 1,64% sem er í sögulegu lágmarki. 

En af hverju skiptir þetta máli? Jú það er svo að tæplega 80% félaga okkar búa í eigin húsnæði. Rekstur húsnæðis er yfirleitt að langstærstum hluta í formi afborgana af húsnæðislánum. Ef við tökum dæmi um félaga sem hefur tekið 20 milljón króna lán til að fjármagna húsnæði, lánið sé óverðtryggt, jafnar afborganir, með breytilegum vöxtum. Þá þýðir þetta að á ársgrunni er viðkomandi að greiða 300.000 kr. minna í vexti. Samsvarar 25.000 krónum á mánuði!

Að geta dregið úr greiðslum um 25 þúsund krónur á mánuði er veruleg búbót! Þarna eru upphæðir eftir skattgreiðslur og samanburðar hefði þurft að hækka laun um tæpar 40.000 kr á mánuði til að 25.000 kr. sitji eftir í veskinu. Það er því augljóst að ávinningur vaxtalækkana getur haft gríðarlega jákvæð áhrif á fjárhagsbókhald heimilanna.

Þetta þýðir þó ekki að verkefnið sé farið frá okkur því nauðsynlegt er að hækka laun okkar félaga, markmiðið að sanngjörn laun verði greidd fyrir menntun. Starfsfólk með menntun í rafiðngreinum er mjög eftirsótt í dag og verður enn mikilvægara á komandi árum. Því verður áfram sótt fram til að bæta stöðu okkar félaga, hækka launin og tryggja örugga umgjörð.

Rétt er að benda á fleiri þætti sem skipta verulega miklu máli þegar kemur að samfélaginu og þeim breytingum sem náðust fram í tengslum við kjarasamningana. Fæðingarorlof hefur verið lengt og mun verða lengt enn meira í lok nýs árs. 12 mánuðir í fæðingarorlof verður raunin. Gríðarlega mikilvægt skref til að bæta stöðu nýbakaðra foreldra.

Áskoranir sem eru framundan snúa eins og áður sagði að bæta stöðu félaga okkar, hækka launin, en jafnframt verður mikilvægt að tryggja lögverndun starfanna. Sífellt er reynt að höggva í iðnaðarlögin. Á nýafstöðnu þingi hófst vegferð stjórnvalda til þess að breyta lögunum. Þar skorti alfarið metnað til þess að bæta stöðuna, auka eftirlit og koma í veg fyrir brotastarfsemi. Í tengslum við kjarasamningana þá var þvert á móti unnið með að koma í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði og bæta löggjöfina. Fulltrúar RSÍ, 2F - Hús fagfélaganna og annarra iðnfélaga munu beita sér fyrir bættri löggjöf og skilvirkara eftirliti. Félögin hafa á þessu ári verið að efla vinnustaðaeftirlit með ráðningu á sameiginlegum eftirlitsfulltrúa sem nú þegar hefur sýnt sig að skilar árangri í þessari baráttu. 

En nýtt ár er framundan og berum við miklar væntingar til ársins, þeirra áskorana sem framundan eru og tækifæra. Enn á eftir að ljúka gerð kjarasamninga sem runnu út á árinu og nú um áramótin bætast við fleiri kjarasamningar auk þess að kjarasamningur Alcoa rennur út á fyrrihluta nýs árs. Í kjarasamningunum eru fjöldi verkefna sem þarf að vinna úr, sum hver hafa dregist úr hömlu sökum kjaraviðræðna en mikil áhersla verður á að ljúka þeim verkefnum á tilsettum tíma.

Fjölmargt jákvætt er að gerast í eftirmenntunarkerfi okkar hjá Rafmennt en gríðarlegar breytingar hafa verið gerðar á rekstrinum þar og fjöldi nýrra námskeiða stendur félögum okkar til boða. Rafmennt kallar auk þess ætíð eftir óskum félaga að nýjum námskeiðum sem vinnumarkaðurinn kallar eftir. 

Breytingar hafa orðið á aðildarfélögum RSÍ á árinu þar sem Félag sýningastjóra við kvikmyndahús sameinuðust við Félag tæknifólks í rafiðnaði. Grafía - stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum varð aðildarfélag að RSÍ á árinu. Með nýju aðildarfélagi opnast mikil tækifæri til að efla starfsemi okkar. Félagið hefur náð miklum sigrum í baráttunni um bætt kjör á undanförnum áratugum, hafa lengi verið samhliða okkur í menntamálum. Sterkari sjóðir, aukin þekking og reynsla, aukin breidd í sambandinu og fleiri valkostir í orlofsmálum eru þættir sem skipta okkur máli. 

RSÍ gerðist bakhjarl UN Women á Íslandi en með því vildi þing RSÍ stíga risastórt skref fram á við til að stuðla að breytingu á íslenskum vinnumarkaði, að vera breytingin. Við erum gríðarlega stolt af því að vera bakhjarl UN Women og berum miklar væntingar til þess að það nýtist bæði RSÍ en ekki síður UN Women til að vinna að jafnrétti og að okkur takist í sameiningu að koma í veg fyrir ofbeldi á vinnumarkaði.

Á næsta ári mun RSÍ fagna 50 ára afmæli, sambandið var stofnað 28. nóvember 1970. Af því tilefni verða fleiri viðburðir skipulagðir á árinu auk þess að fjölskylduhátíðin verður veglegri en oft áður. Þetta eru merk tímamót sem vert er að fagna en krefst þess jafnframt að við horfum fram á veginn, hvernig viljum við sjá Rafiðnaðarsambandið á næstu árum og áratugum. 

Ég óska félögum RSÍ, fjölskyldum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir ánægjulegar stundir á liðnum árum. Göngum hægt um gleðinnar dyr og njótum samveru með fjölskyldu og vinum.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?