Fréttir frá 2019

12 16. 2019

Lenging fæðingarorlofs, breytingar á tekjuskattskerfi og kjarasamningar

rafidnadarsambandid2Nú er runnin upp síðasta heila vikan fyrir jólafrí sem verður líklega kærkomið hjá flestum. Það hefur verið mjög annasamt á skrifstofu RSÍ að undanförnu líkt og fram hefur komið. Búið er að afgreiða alla kjarasamninga í orkugeiranum, nú síðast voru kjarasamningar við Orkuveitu Reykjavíkur og Landsnet samþykktir, og nú eru kjarasamningar við Reykjavíkurborg, Ríki, 365/Sýn, ISAL og NRTF (Advania í Grindavík) eftir af þeim kjarasamningum sem runnu út á þessu ári. Þess ber þó að geta að fleiri kjarasamningar eru að bætast við um áramótin og fram á næsta ár þar sem Elkem, Norðurál og Alcoa renna út annars vegar um áramótin eða á fyrstu mánuðum næsta árs.

Í þeim kjarasamningum sem hafa verið samþykktir á árinu eru fjöldi bókana og verkefna sem nauðsynlegt er að fylgja eftir og því ljóst að þrátt fyrir að óafgreiddum kjarasamningum fækki þá verða verkefnin næg framundan. 

Það er mikilvægt að nýta tímann vel um hátíðarnar til þess að slaka á og njóta samveru með fjölskyldu og vinum. Hugur minn er hjá félögum okkar sem berjast við að koma rafmagni á þar sem rafmangsleysi hefur varað auk þess að koma á fullum afköstum á fjarskiptakerfin. 

Nú þegar styttist í að Alþingi fari í jólafrí þá er rétt að fara yfir þau málefni sem samþykkt hafa verið þar en fjölmörg þeirra eru tilkomin vegna kjarasamninganna í sumar. Búið er að afgreiða fyrsta skrefið í breytingum á tekjuskattskerfinu, þrepum fjölgað um eitt. Aukinn hvati til uppsetninga á heimahleðslustöðvum fyrir rafbíla mun hafa jákvæð áhrif á störf í rafiðnaði á næstu árum. 

Það bíða þó enn mikilvæg málefni líkt og breytingar á lögum um lífeyrissjóði þar sem festa á í sessi umsamdar breytingar sem gerðar voru árið 2016 en frumvarp um það mál kom ekki fyrir þing í haust. Ljóst er að þetta er stórt mál þegar kemur að endurskoðun kjarasamninga næsta haust. 

Lenging á fæðingarorlofi er enn í meðferð á þinginu en allar líkur eru á því að málinu verði lokið á þessu ári á þann hátt að fæðingarorlof verði lengt en núverandi réttur er samanlagt 9 mánuðir hjá foreldrum en stefnt er að því að sá réttur verði lengdur í 12 mánuði. Gríðarlega mikilvægt málefni fyrir samfélagið og sérstaklega nýbakaða foreldra. Vonandi verður málið afgreitt í dag. Fjöldi mikilvægra málefna liggja fyrir og fylgjumst við vel með stöðu mála sem tengjast kjarasamningum.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?