Fréttir frá 2019

10 20. 2019

Formannafundur ASÍ, evrópsk starfsmenntavika og fleira

rafidnadarsambandid2Síðasta vika var evrópsk starfsmenntavika og hófst með viðburði í húsnæði OR á mánudag. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, opnaði formlega vefinn www.namogstorf.is þar sem allar helstu upplýsingar er að finna um iðngreinar hér á landi. Á fimmtudag var boðið upp á opið hús hjá Rafmennt þar sem húsnæði og tækjabúnaður voru til sýnis. Þar hélt undirritaður stutt erindi um þá tækniþróun sem í gangi er og opnaði á umræður um þau sóknarfæri sem blasa við. Fundarmenn áttu mjög gott samtal um stöðu mála og góðar ábendingar komu um hvað við getum gert í sameiningu í okkar starfi.

Í vikunni var formannafundur ASÍ haldinn í Reykjavík. Fyrir fundinum lágu nokkur málefni en báru hæst umræða um forsendur kjarasamninganna sem gerðir voru í apríl og maí. Ljóst er að mest óvissa ríkir um málefni sem snúa að ríkinu og uppfyllingu þeirra loforða sem lögð voru fram. Forsetateymi ASÍ fundar reglulega með stjórnvöldum til að fylgja þeim málefnum eftir. Lækkun skatta, fjölgun skattþrepa, launaþjófnaður og brotastarfsemi á vinnumarkaði og hvernig mögulegt verður að stöðva slíka starsfemi, efling eftirlits á vinnumarkaði, bætt staða á húsnæðismarkaði auk fjölda annarra mála eru mál sem við fylgjumst vel með. Kaupmáttur launa þarf að aukast þegar kemur að næstu mælingu og að stýrivextir hafi lækkað verulega og haldist lágir út samningstímann.

Umræða og kynning á stöðu mála hvað varðar styttingu á vinnutímanum. Formenn fengu kynningu á tilraunaverkefnum sem hafa verið unnin á opinberum vinnumarkaði en formaður BSRB og framkvæmdastjóri mættu á fundinn. Farið var yfir stöðu styttingar á meðal aðildarfélaga ASÍ. 

Fundur var haldinn í fulltrúaráði Birtu lífeyrissjóðs en þar var farið yfir tvö meginmál, annars vegar fengu fulltrúar kynningu á fyrirhugaðri málsókn Gráa hersins vegna þeirra miklu og ósanngjörnu skerðinga sem ríkið hefur innleitt hjá TR. Virkilega gott innlegg frá fulltrúa Gráa hersins og er alltaf jafn sláandi niðurstaða sem fram kemur. Það er með ólíkindum að ríkið sé enn að skerða lífeyri með jafn grimmum hætti og raun ber vitni. Þess má geta að RSÍ mun leggja fjármuni í þessa málsókn enda klárt brot á lögum að okkar mati. Farið var yfir stöðu sjóðsins. Miklar umræður urðu um fjárfestingar Birtu sem annars vegar hafa verið í umræðu að undanförnu sem og  sjóðsfélagalán.

Fundir vegna kjarasamninga voru haldnir í vikunni. Ekki er mikið að frétta af þeim fundum sem haldnir voru. Það hefur gefist tilefni til að funda og mál þokast örlítið áfram þó svo varla sé hægt að tala um hraða í þeim efnum. Fundað var hjá RARIK, Landsneti, OR. 

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?