Fréttir frá 2019

10 13. 2019

Sveinsbréf afhent á Akureyri, GPTU fundur og kjaraviðræður halda áfram

rafidnadarsambandid2Sveinsbréf voru afhent á Akureyri á föstudaginn. Við afhendinguna voru formaður RSÍ, formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands sem og framkvæmdastjóri Rafmenntar og formaður sveinsprófsnefndar. Það er gríðarlega mikilvægur áfangi að ljúka sveinsprófi í iðngrein en níu nýsveinar luku sveinsprófi í rafvirkjun og einn í rafeindavirkjun og óskum við nýsveinum innilega til hamingju með árangurinn. Þess ber þó að geta að einn nýsveinn lauk sveinsprófi bæði í rafvirkjun og rafeindavirkjun sem er auðvitað einstakur árangur!

Í vikunni sóttu fulltrúar frá RSÍ og FÍR alþjóðlegan fund rafiðnaðarsambanda, GPTU / Global Power Trade Unions. Fundurinn fór fram í Washington DC og var skipulagður af IBEW (International Brotherhood of Electrical Workers). IBEW er Rafiðnaðarsamband Bandaríkjanna og Kanada og eru félagsmenn þess 750.000 talsins. 

Til umræðu á fundinum voru málefni eins og alþjóðleg stjórnmál, ellilífeyrir, uppbygging lífeyrissjóða og fjárfestingar þeirra, græn raforka og uppbygging raforkukerfa, öryggismál rafiðnaðarmanna, notkun verkjalyfja tengt starfsgreinum og síðast en ekki síst funduðu ungliðar sérstaklega um málefni ungs fólks í rafiðnaði.

Farið var í heimsókn í tvo eftirmenntunarskóla nærri Washington DC. Fyrri skólinn er rekinn af IBEW og þar er bæði boðið upp á grunnnám í rafiðngreinum sem og eftirmenntunarnámskeið. Mjög áhugavert var að sjá hversu framarlega þau eru í að nýta sér tækni og bjóða upp á kennslu á nýjasta tæknibúnaði. Seinni skólinn var rekinn af IUEC sem er félag þeirra sem vinna í lyftuiðnaði. Þar er kennt á uppsetningu og viðhald á lyftubúnaði. Verulega flottir skólar sem reknir eru af félögunum.

Í vikunni héldu kjaraviðræður áfram. Ekki var skrifað undir neinn kjarasamning en unnið er að því að móta ákveðnar lausnir sem gætu mögulega hentað innan mismunandi fyrirtækja sem samið er við. Það er þó ekki þannig að von sé á því að gengið verði frá kjarasamningum í næstu viku því viðræður ganga hægar en æskilegt væri. Fundað var með fulltrúum hjá Landsneti, HS Orku, Landsvirkjun, ISAL og OR. 

Í lok vikunnar var haldinn fundur í miðstjórn RSÍ og í næstu viku fer fram formannafundur ASÍ. 

 

Launakönnun RSÍ fór af stað í vikunni og ljóst að á fyrstu dögunum var þátttakan mjög góð. Við viljum heyra frá sem flestum félagsmönnum í gegnum þessa launakönnun og hvetjum því alla sem ekki hafa þegar tekið þátt að gera það. Gallup sér um framkvæmd þessarar könnunar.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?