Fréttir frá 2018

12 6. 2018

Persónulásar - öryggi allra

Lasar1 edited bannerNýverið hófu RSÍ og SART að afhenda félagsmönnum innan RSÍ persónubundna öryggislása þar sem markmiðið er að auka öryggi félagsmanna við þeirra störf. Verklag við notkun lásanna er þannig að þegar starfsmaður þarf að rjúfa spennu að búnaði eða stöðva vinnslu vélar þá gerir viðkomandi búnaðinn spennulausan og læsir síðan viðkomandi rofa eða sjálfvari, svo dæmi sé tekið, með persónulásnum sínum. Starfsmaður hefur síðan störf við búnaðinn eftir að hafa fulltryggt að viðkomandi búnaður sé spennulaus. Þegar verki er lokið og öruggt er að spennusetja aftur tekur viðkomandi starfsmaður lásinn af og spennusetur/gangsetur. Lásinn er merktur með nafni viðkomandi auk símanúmers. Komi annar notandi eða starfsmaður að búnaði og sér að búnaður er læstur þá getur viðkomandi ekki annað en læst búnaði einnig með öðrum lás (ef viðkomandi ætlar að vinna við búnaðinn) eða þá haft samband við starfsmann sem búinn er að læsa búnaði og athuga stöðu verks. 


Undir engum kringumstæðum má annar en eigandi eða yfirmaður viðkomandi starfsmanns, ef ekki næst í starfsmanninn, fjarlægja lás annars einstaklings.

Fyrir skömmu fengu starfsmenn RSÍ fregnir af því að rafvirki hafi læst búnaði á verkstað sökum þess að aðstæður voru með þeim hætti að ekki var talið öruggt að hafa spennu á búnaði. Því var búnaði læst til að tryggja öryggi notenda. En eftir að búnaði var læst og viðgerð ekki lokið var viðkomandi persónulás fjarlægður af öðrum aðila án þess að hringja í viðkomandi rafvirkja sem hafði læst búnaði til að tryggja öryggi sitt sem og annarra. 

Vinnueftirlitið var kallað til á verkstað ásamt fulltrúa Mannvirkjastofnunar til að rannsaka aðstæður. Vinnustaðaeftirlitsfulltrúar RSÍ fóru í eftirlitsferð á verkstað einnig í kjölfar þessa. Það er ljóst að RSÍ tekur uppákomum sem þessum mjög alvarlega og mun krefjast þess að gjörningur sem þessi hafi alvarlegar afleiðingar. Þarna er verið að tryggja líf og heilsu fólks með því að læsa rafbúnaði og er það gríðarlega alvarlegt þegar sá sem ekki hefur þekkingu til fjarlægir öryggisbúnað sem þennan.

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?