Fréttir frá 2018

11 26. 2018

Samantekt úr launakönnun RSÍ 2018

rafis bordar 1300x400 22

Meðaldagvinnulaun rafiðnaðarmanna eru í októrber 2018 598.000 kr á mánuði. Það vekur athygli að 25% félagsmanna eru undir 475.000 kr. Á mánuði. Jafnframt er sláandi að sjá að í byggingariðnaði eru laun enn mjög lág en 25% félagsmanna eru undir 411.000 kr. Í dagvinnu á mánuði þrátt fyrir að mestur uppgangur hafi verið í þeirri grein. Ljóst er einnig þegar félagsmenn eru spurðir um þörf á hækkun launa þá eru það félagsmenn í tölvu- og byggingariðnaði sem telja sig þurfa mestu launahækkunina. 

Ljóst er að fjöldi þeirra félagsmanna sem taka laun samkvæmt töxtum fer fækkandi og hefur þeim fækkað um tæp 6 próstentustig og gefur það tilefni til þess að skýrt svigrúm er til þess að hækka lágmarkstaxta nokkuð upp að markaðslaunum án þess að ruðningsáhrif verði mikil. 

Félagsmenn telja mikilvægast annars vegar að hækka laun og hins vegar að stytta vinnutíma í komandi kjarasamningum.  Það er því ljóst að krafan um styttingu vinnuvikunnar fær byr undir báða vængi á meðal félagsmanna RSÍ enda er það í samræmi við niðurstöður fjölda féalgsfunda síðustu ár. Skýrt sóknarfæri er fyrir atvinnulífið að stytta vinnutíma og gera störf rafiðnaðarmanna fjölskylduvænni.

Skýr krafa kemur fram um að gera breytingar á tekjuskattskerfinu á þann hátt að annars vegar að hækka persónuafslátt sem og að lækka skattprósentur. Afnám verðtryggingar og lækkun vaxta hér á landi eru auk þess áhersluatriði rafiðnaðarmanna. Á sama tíma telja félagsmenn afar mikilvægt að tryggja stöðugleika í verðlagi. 77,1% félagsmanna búa í eigin húsnæði og því augljóst að vaxtamál skipta verulegu máli. Að meðaltali búa rétt um 71% í eigin húsnæði og því ljóst að hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði er hærra hjá rafiðnaðarmönnum en hærra en að meðaltali á landinu. Rétt tæplega 15% félagsmanna búa hins vegar á leigumarkaði. 

Staða ungs fólks hjá RSÍ er hins vegar þannig að 58% félagsmanna á aldrinum 18-24 ára búa í foreldrahúsum en hlutfall fer lækkandi á aldrinum 25-34 þar sem það er komið niður í 26%.

Streitueinkenni
Þegar spurt er um áhrif vinnu á einkalíf þá er það verulegt áhyggjuefni að 40% félagsmanna eiga erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna eftir að vinnudegi líkur en meðaltal fyrir þjóðina er 27% og því augljóst að rafiðnaðarmenn eru í áhættuhópi hvað varðar mögulega streitu. Það sem þó er verulega jákvætt að hlutfall þeirra sem langar ekki að mæta til vinnu næsta dag er almennt lægra hjá rafiðnaðarmönnum en að meðaltali yfir þjóðina alla.

Að lokum þökkum við félagsmönnum fyrir þátttöku í kjarakönnun okkar þetta árið en könnunin er mikilvægur þáttur í starfi RSÍ. Ljóst er að ánægja með launakjör rafiðnaðarmanna fer lækkandi á milli ára og ljóst er að nauðsynlegt er að snúa þeirri þróun við.

Launakönnunin verður birt í heild sinni á næstu dögum.

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?