Fréttir frá 2018

07 16. 2018

Launafólk eða verktakar?

rafidnadarsambandid2Nú er farið að bera sífellt meira á því að fyrirtæki eða stofnanir setji launafólki afarkosti um ráðningarform. Þegar starfsmaður er ráðinn til starfa þá er sífellt oftar verið að bjóða viðkomandi að ráða sig inn sem "verktaka" og að launagreiðslur séu þeim mun betri. Við fyrstu sýn þá getur þetta hljómað spennandi, tímakaupið sé jafnvel nokkuð hærra sem verktaki en þegar farið er að rýna í heildardæmið þá er iðulega verið að brjóta alvarlega á viðkomandi!

Ef þú stendur frammi fyrir tilboði sem þessu þá skaltu taka þér smá tíma til að meta hvað þetta þýðir í raun og veru en jafnframt að velta því fyrir þér hvort þetta sé í raun og veru verktaka eða hreinlega gerviverktaka.

Það er mikilvægt að muna að réttindi okkar samanstanda af fjölmörgum þáttum. Við fáum greitt tímakaup eða mánaðarlaun fyrir fullt starf í dagvinnu. Í einum vinnumánuði eru 173,33 klukkustundir í dagvinnu sem eru 8 klst í dagvinnu á dag. Þegar unnið er utan dagvinnutíma skal greiða yfirvinnu fyrir þá vinnu sem er 80% hærri en dagvinnan.

Þessu til viðbótar eigum við rétt á launagreiðslum ef við veikjumst og getur veikindaréttur verið mislangur en ætíð þarf að tryggja tekjur á þessum tíma og starfandi sem verktaki þá þarft þú sjálf/ur að leggja til hliðar launagreiðslur til að tryggja þetta tímabil. Launafólki er jafnframt tryggð laun vegna veikinda barna.

Þú átt rétt á orlofi, allt frá 24 dögum (orlofslaun 10,17%) upp í 30 daga (orlofslaun 13,04%) sumarorlof. Starfandi sem verktaki þá þarftu að gera ráð fyrir þessu og sértu starfandi einn þá þarftu að ákveða hvort þú lokir fyrirtækinu í rúman mánuð á ári og þá þarf að fá slíkt greitt á unnum tíma.

Þú munt þurfa að standa undir tekjulausum klukkustundum því sama hversu vel skipulögð/skipulagður þú ert þá mun alltaf vinnutími falla niður sem ómögulegt er að innheimta.

Sem verktaki þá þarftu jafnframt að standa skil á öllum launatengdum gjöldum. Þú þarft að fá inn tekjur vegna helgidaga / rauðra daga sem eru 17 talsins yfir árið en þar af geta 14 þeirra fallið á virka daga og falla ætíð 7 þeirra alltaf á virka daga, mánudaga, fimmtudaga eða föstudaga. Þessir dagar telja til um það bil 5-6% af vinnutíma ársins.

Við rekstur fyrirtækis telst jafnframt til kostnaður við rekstur á húsnæði, bifreiðum og kostnaður vegna bókhalds svo dæmi séu tekin. Þessi gjöld geta verið mjög breytileg og erfitt að áætla heilt yfir en það er auðvelt að áætla gróft að launatengd gjöld og kostnaður tengdur rekstri sé jafn hár launakostnaðinum sjálfum þannig að útseldur tími þarf að vera að minnsta kosti tvöföld upphæð sem launamaður á að fá greitt á tímann, þegar allir helstu þættir eru taldir saman.

Það er hins vegar svo á þeim dæmum sem fulltrúar RSÍ hafa fengið að sjá að fyrirtækin greiða "verktökum" töluvert mikið lægri "verktakagreiðslur". Því má gera ráð fyrir að fyrirtækin séu að losa sig undan ábyrgð launagreiðenda á þennan hátt. Í mjög mörgum tilfellum má gera ráð fyrir að um sé að ræða hreina gerviverktöku þar sem verkkaupi gerir kröfu um að ákveðin persóna vinni verkefnið. RSÍ hvetur einstaklinga sem eru í sambærilegri stöðu og þetta að skoða sín mál vel og vandlega og hvetjum við fólk í rafiðnaði að senda tölvupóst á verktaki@rafis.is og segja frá raunverulegum dæmum um það hvernig staðan er.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?