Fréttir frá 2017

11 17. 2017

Ályktun um menntamál

rafidnadarsambandid2Trúnaðarmannaráðstefna Rafiðnaðarsambands Íslands sem haldin var dagana 16. og 17. nóvember 2017 skorar á alla þingflokka sem kjörnir voru nýverið til að starfa á Alþingi að beita sér fyrir því að efla iðn- og tækninám á komandi árum. Það hefur yfirleitt ekki skort vilja til þess að tala um nauðsyn þess að fjölga þurfi nemendum í iðn- og tækninámi. Þegar á hólminn er komið hefur hingað til skort allverulega á vilja til framkvæmda.

Ráðstefnan hvetur því þá flokka sem nú standa að mótun nýs stjórnarsáttmála að setja eflingu iðngreina ofarlega á framkvæmdalistann. En meðal annars þarf að: 

  • Tryggja bætt aðgengi að náminu. 
  • Auka þarf fjármagn til skólanna sem eyrnamerkt er kennslu iðnnáms enda er námið dýrara í rekstri en hefðbundið bóknám. Iðn- og tækninám skilar almennt meiri framlegð en annað nám.
  • Tryggja þarf sjálfstæði við skipulag námsins að því leyti að lengd náms þarf ekki að fylgja öðru námi heldur þarf að taka mið af því efni sem nauðsynlegt er að kenna. 
  • Koma þarf í veg fyrir að fjöldatakmarkanir í kennslu taki mið af hefðbundnu bóknámi því kennsla í verklegu námi krefst þess oft á tíðum að fjöldi nemenda í hverjum hópi sé minni.

Það dylst engum að á komandi árum mun samkeppnishæfni Íslands takmarkast af því hversu öflugan grunn vinnandi iðnaðarmanna við höfum til þess að vinna þau verkefni sem framundan eru. Fjórða iðnbyltingin krefst fleiri starfsmanna með rafiðnaðarmenntun. Við megum ekki sofa á verðinum og nú er kominn tími til aðgerða af hálfu stjórnvalda í þessum málaflokki! 

 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?