Fréttir frá 2017

10 24. 2017

Efling iðngreina á komandi kjörtímabili

 

rafidnadarsambandid2Nú þegar örfáir dagar eru til þingkosninga keppast flokkar sem eru í framboði að lofa landsmönnum gulli og grænum skógum. Frumleg loforð koma fram en einnig gömul og galin loforð. Það er þó eitt stórt atriði sem við hefðum viljað heyra hvað flokkarnir ætli að gera til þess að efla stöðu iðngreina hér á landi. Það er augljóst að mikill skortur er á iðnaðarmönnum og er það að koma í bakið á okkur enn og aftur enda er staða verkefna víðsvegar um landið með þeim hætti að nauðsynlegt er að fjölga verulega í greinunum. 

Mikil og hröð þróun starfa verður komandi árum og áratugum þar sem iðnmenntun verður lykill að velgengni samfélagsins. Fjórða iðnbyltingin er í raun brostin á og ef þjóðin ætlar að fylgja þróuninni og byggja á vel menntuðum störfum þá verðum við að bregðast strax við því að fjölga iðnmenntuðum einstaklingum..

Ein af fjölmörgum ástæðum þess að við framleiðum ekki nægilega marga iðnaðarmenn er sú staðreynd að takmörkun er á því hversu margir nemendur komast að í framhaldsskólunum. Það þarf að bæta í fjármagn sem fer til þessa málaflokks. 

Önnur ástæða tengist þeirri fyrstu en það er sú staðreynd að kennsla iðnnáms er dýrari en hefðbundin bóknámskennsla því í iðnnámi er auk bóknáms mikið verklegt nám sem krefst bæði dýrari kennslubúnaðar en auk þess þarf að skipta nemendafjölda upp í minni hópa en mögulegt er að nota við bóknámskennslu.

Iðnaðarmenn sem og atvinnurekendur í iðngreinum þurfa æði oft að standa undir miklum kostnaði við rekstur fyrirtækjanna og þá sérstaklega í formi kaupa á mjög sérhæfðum verkfærum sem nauðsynleg eru til vinnunnar. 

En auk þess þarf ríkið að opna á samstarf við allar iðngreinar til þess að stíga markviss skref til þess að efla stöðu iðngreinanna. Tryggja þarf að farið sé eftir núgildandi íðnaðarlögum enda ber að fylgja lögum í hvívetna en eftirfylgni er mikilvæg og gríðarlega mikilvægt að færa heimildir til aðgerða nær vinnumarkaðnum þegar iðnaðarlöggjöfin er brotin. Þetta mætti t.d. gera með því að setja víðtækar heimildir í lög nr. 42/2010 sem fjalla um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

Það er ljóst að samfélagslegur ávinningur af þessu verkefni er gríðarlegur en áhugavert væri að heyra frá þeim framboðum sem bjóða fram hver stefna þeirra er í þessum málaflokki.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?