Fréttir frá 2017

09 30. 2017

Skýrsla Vinnueftirlits á banaslysi

rafidnadarsambandidÍ fréttum á undanförnum dögum hefur veirð fjallað um skýrslu Vinnueftirlits ríkisins vegna banaslyss sem varð í Úlfarsárdal í byrjun september fyrir ári síðan. Rafiðnaðarsamband Íslands hefur ekki komið að málinu á neinn hátt nema að skýrslan hefur verið lesin af fulltrúum RSÍ. 

Það sem vekur athygli við lestur skýrslunnar er að svo virðist sem að rannsóknaraðilar hafi ekki rannsakað slysstað með fullnægjandi hætti eða þá að vísvitandi er mikilvægum þáttum sleppt úr við gerð skýrslunnar. Það má vera að þetta sé sökum þekkingarskorts rannsóknaraðila á rafmagnsöryggismálum. 

Það vekur mikla furðu þegar lesning sem þessi vekur upp spurningar fagmanna sem ekki hafa skoðað slysstað en slíkt hlýtur að draga verulega úr gildi skýrslunnar. Við gerum kröfu um að rannsókn mála sé svo vönduð að hún taki af allan vafa í málum en vekji ekki upp fleiri spurningar og efasemdir.

Það verður að segjast eins og er að gagnrýni og ábendingar sem hefur borist frá Veitum eigi við rök að styðjast. Augljóst er að nauðsynlegt er að styrkja starf Vinnueftirlits í þessum málum. Í skýrslunni kemur fram að alvarlegar athugasemdir um öryggi starfsmanna höfðu verið gerðar á byggingastaðnum löngu áður en umrætt slys varð án þess að vinna hafi verið stöðvuð. Þó svo ábendingar tengist ekki aðilum sem um ræðir né slysinu þá er ljóst að með bættum vinnubrögðum á verkstað hefði mögulega verið hægt að takmarka verulega líkur á að slys yrðu. Mestu hættur á byggingastöðum eru væntanlega fallhætta eða að hluti falli á starfsmenn. Athugasemdir sem þessar hefðu átt að stöðva framkvæmdir þar til úrbætur hefðu verið gerðar.

Það er mjög mikilvægt að greining á slysum sem þessum sé svo vel unnin að mögulegt sé að læra af þeim en einnig að koma í veg fyrir að svona hræðileg slys geti endurtekið sig. Fulltrúar RSÍ hafa lýst yfir áhuga á því að haf aðkomu að eftirmálum þessa máls með nánari fræðslu. Öryggisnefnd RSÍ hefur málið til umfjöllunar og mun fylgjast vel með þróun mála og mun leggja til aðgerðir sem æskilegt verður að grípa til svo öryggi félagsmanna verði tryggt. Við lýsum jafnframt yfir vilja til þess að eiga beina aðkomu að málum sem þessum með rýni á faglegum þætti vinnunnar. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?