Fréttir frá 2017

09 25. 2017

Niðurstaða í máli gegn Fjarskiptum (Vodafone)

rafidnadarsambandid rautt

Þann 19. september var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem RSÍ rak gegn Fjarskiptum (Vodafone). Málavextir voru þeir að Fjarskipti settu fram bakvaktarskipulag þann 1. september 2004 sem fjallaði um fyrirkomulag bakvakta og greiðslna vegna þeirra. Deilt var um það hvort greiða ætti orlof á bakvaktargreiðsluna en Fjarskipti höfnuðu því og töldu að það nægði að hluti af greiðslunni fyrir þessa vinnu væri orlof, eða sem næmi hálfum frídegi fyrir hverja bakvakt en að hámarki 5 dagar á ári.

RSÍ færði rök fyrir því að svo væri ekki, hálfur orlofsdagur væri hluti af greiðslu fyrir bakvakt og að greiða ætti orlof af heildargreiðslunni.

Dómsniðurstaðan var sú að Fjarskiptum bar að greiða lögbundið orlof ofaná greiðslur fyrir bakvaktir og að umsaminn hálfur orlofsdagur fyrir bakvakt væri hluti af heildarlaunum. Dómurinn taldi að krafan væri ekki fyrnd, en sökum verulegs tómlætis var kröfunni hafnað og Fjarskipti sýknuð.

Ljóst er að Fjarskipti, Vodafone, mun þurfa að gera upp orlof vegna þessarar dómsniðurstöðu við alla þá starfsmenn sem starfa eftir þessu fyrirkomulagi og gefur auga leið að fyrirtækið getur ekki beitt rökum um tómlæti gagnvart núverandi starfsmönnum. Því er ljóst að núverandi starfsmenn Vodafone munu njóta góðs af þessari niðurstöðu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?