Fréttir frá 2017

06 18. 2017

Framtakssjóður Íslands - öfgagreiðslur

rafidnadarsambandid2Í vikunni kom fram frétt um milljónagreiðslur til framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands sem voru rökstuddar með samningi við umræddan framkvæmdastjóra og gerður var árið 2013. Framkvæmdastjórinn átti að fá greiddar 20 milljónir á árinu 2016 EF hann væri í vinnu það ár, þremur árum eftir að samningur var gerður. 

Slíkar greiðslur eru hreint út sagt ótrúlegar að starfsmaður fái greiðslu umfram launagreiðslur fyrir það eitt að tolla í vinnunni í þrjú ár. Ekki lítur það svo út að launakjör innan sjóðsins séu það slæm að erfiðlega gangi að halda starfsmönnum í vinnu.

Á fulltrúaráðsfundi launamanna hjá Birtu lífeyrissjóði sem haldinn var í vikunni kom þetta mál til umræðu og var eðlilega mjög mikill hiti í fundarmönnum. Birta lífeyrissjóður hefur á undanförnum árum beitt sér vel í því að hamra á fyrirtækjum um að ef starfsmönnum eru greiddir einhvers konar bónusar þá skuli slíkt koma skýrt fram í ársreikningum með rökstuðningi á því með hvaða hætti slíkar greiðslur eru reiknaðar út. Það getur vissulega verið eðlilegt að semja um að greiða bónusa, RSÍ hefur um áratuga skeið komið að því að semja um bónusa fyrir félagsmenn í sérkjarsamningum en þá eru ætíð mjög skýr markmið sem liggja þar að baki og iðulega eru bónusgreiðslur taldar í örfáum prósentum en ekki í mörgum milljónum eða tugum milljóna. 

Það er mjög brýnt að stjórn Framtakssjóðs Íslands skýri nánar frá þessum gjörningi og hvaða rökstuðningur sé á bakvið þetta og þá hvort sá rökstuðningur sé eðlilegur. Að öðrum kosti hlýtur að vera nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á í stjórninni þar sem þessi gjörningur er á engan hátt í takt við hluthafastefnu Framtakssjóðs Íslands að mínu mati. 

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?