Fréttir frá 2017

03 15. 2017

Mín framtíð - Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning í Laugardalshöll 16. – 18. mars 2017

Verkidn 3496 google ads 2 

Stór og fjölbreytt kynning
Dagana 16. – 18. mars fer fram Íslandsmót iðn- og verkgreina í Laugardalshöllinni. Hátt í 200 ungmenni munu keppa um að hljóta nafnbótina Íslandsmeistari í 25 iðngreinum. Á sama tíma munu 25 skólar kynna fjölbreytt námsframboð á framhaldsskólastigi.

Ráðherra opnar og forsetinn kíkir við
Kristján Þór Júlíusson mun opna keppnina formlega fimmtudaginn 16. mars kl. 13. Forseti Íslands mun koma og ganga um keppnis- og sýningarsvæðið föstudaginn 17. mars kl. 14:00. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verður á svæðinu kl. 11:00, 16. mars. Einnig er von á nokkrum erlendum gestum, má þar nefna Ulla Groth, framkvæmdastjóra Skills Danmark, Stefan Praschi varaformanni WorldSkills samtakanna auk fjölmennrar sendinefndar frá Færeyjum.

Líf og fjör í Laugardalshöll
Um 7000 grunnskólanemendur alls staðar af landinu mæta til að fylgjast með keppninni og prófa fjölbreytt verkefni undir handleiðslu fagfólks. Má þar nefna að nota air-brush á bíl, prófa hljóðhraðaskynjara, ýmsa herma og fjölbreytileg verkfæri, þvo og flétta hár, baka, helluleggja, sá kryddjurtum og fylgjast með vélmennum leysa ýmsar þrautir.

Laugardaginn 18. mars verður Fjölskyldudagur. Gefst þá einstakt tækifæri til að snerta og upplifa ýmislegt skemmtilegt sem snertir nám og störf í iðn- og verkgreinum. Team Spark kynnir rafmagnsbíl og einnig verður í boði að smakka upp á kræsingar sem útbúnar hafa verið í keppninni.  Sem sagt fræðsla og fjör og frítt inn eins og alla dagana.

Iðn- og verknám er lykill að framtíðinni
Markmiðið með þessari kynningu er m.a. að kynna fyrir ungu fólki tækifæri sem felast í iðn- og verknámi og auðvelda þeim að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskóla með það fyrir augum að fleiri taki upplýsta ákvörðun um námsval sem tekur mið af áhugasviði þeirra og hæfni. Markvisst námsval dregur úr brotthvarfi úr námi sem er stórt vandamál hér á landi. Mikill skortur er á iðnmenntuðu fólki og því næg starfstækifæri fyrir fólk með slíka menntun.

Nánari upplýsingar veita:

* Elín Thorarensen, verkefnisstjóri Verkiðn, s. 861 3823

* Ingi Rafn Ólafsson, Sviðsstjóri hjá Iðunni, s. 772 1400

* Skapti Örn Ólafsson, stjórnarmaður í Verkiðn, s. 899 2200

Sjá einnig nánar á heimasíðu Verkiðnar – www.verkidn.is og Facebooksíðu Skills Iceland/Verkiðn - https://www.facebook.com/Verkidn/

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?