Fréttir frá 2017

03 1. 2017

Kjarasamningar halda gildi sínu

rafidnadarsambandid2Í dag fór fram mat á forsendum kjarasamninga á vettvangi ASÍ. Ljóst var að forsendur voru brostnar vegna kjarasamninga og úrskurðir kjararáðs settu strik í reikninginn. Hins vegar var það mat meirihluta samninganefndar ASÍ að tryggja ætti gildi kjarasamninganna þrátt fyrir forsendubrestinn en á sama tíma að setja inn nýtt forsenduákvæði varðandi stefnumörkun kjarasamninganna í febrúar á árinu 2018. Ljóst er að stórir hópar opinberra starfsmanna sem og fleiri stétta munu ganga til samninga á þessu ári og munu samningsaðilar fylgjast vel með þeirri þróun sem þar verður. Gangi þeir samningar lengra en rammasamkomulag getur um þá getur samninganefnd ASÍ sagt kjarasamningum upp í febrúar að ári. 

Ljóst er að samninganefnd RSÍ hefði viljað sjá aðra niðurstöðu í þessari endurskoðun en þetta var niðurstaðan sem fékkst í þessu máli og gríðarlega mikilvægt að útvíkka forsenduákvæðið. Jafnframt liggur ljóst fyrir að öll vinna við nýtt samningalíkan mun verða í frosti þar til ákvörðun kjararáðs verður felld úr gildi og hún taki sömu línu og annað launafólk hefur fylgt samkvæmt rammasamkomulagi. Því er boltinn í höndum Alþingis og kjararáðs að aðlaga launahækkanir Alþingismanna og æðstu stjórnenda ríkisins til samræmis við rammasamkomulagið. 

Í kjölfar þess að samningar halda gildi sínu þá er ljóst að almenn launahækkun mun koma til framkvæmda þann 1. maí 2017 og verður hækkunin 4,5%.

Breyting á forsenduákvæði næsta árs er sú að upphaflega átti eingöngu að horfa í kaupmátt launa í febrúar 2018 en með breytingunni þá getur forsendunefnd ASÍ jafnframt sagt kjarasamningum upp fari einhver samningsaðili fram úr launastefnunni á þessu tímabili. Launastefnan er samkvæmt rammasamkomulaginu sem gert var og oft er kallað SALEK samkomulag en með því var kostnaðarmat kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ metið á 32% frá nóvember 2013 til desember 2018.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?