Fréttir frá 2017

02 23. 2017

Kjararáð - lífeyrisréttindi ráðherra

rafidnadarsambandidVið endurskoðun kjarasamninganna sem fram fer þessa dagana hefur komið skýrt fram að forsendur kjarasamninganna eru brostnar og hefur forsendunefnd ASÍ og SA komist að þeirri niðurstöðu og því þurfa aðilar, hvor um sig, að meta hvort segja eigi kjarasamningum upp.

Helsta ástæða þess að forsendur brustu voru úrskurðir kjararáðs undanfarið ár, annarsvegar vegna embættismanna og dómara en auk þess breyting á launum alþingismanna og ráðherra. Það hefur auk þess afar lítið farið fyrir umræðu um þau miklu réttindi sem þessi launahækkun hafði áhrif á. En samhliða hækkuðum launum um 45% þá jukust lífeyrisgreiðslur til fyrrverandi ráðherra og allra þeirra alþingismanna sem njóta lífeyrisréttinda samkvæmt eftirlaunalögum sem sett voru árið 2003 á Alþingi og tryggðu alþingismönnum verulega mikil og góð ellilífeyrisréttindi, langt umfram það sem hinn venjulegi launamaður nýtur almennt. Kostnaður sem af þessu hlýst lendir á skattgreiðendum!

Á meðan launafólk á almennum vinnumarkaði þarf að sætta sig við að allar breytingar á lífeyrisréttindum sem gerðar eru í kjarasamningum teljist til launahækkana þá virðist það sama ekki gilda um alþingismenn. Almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði eru þó nokkuð lægri en launaskriðið er samkvæmt launavísitölu sem forsætisráðherra telur eðlilegt að hann fylgi en takið eftir því að lífeyrisréttindi eru ekki metin þar inn. Hinn venjulegi launamaður er mikið lengur að ávinna sér lífeyrisréttindi en þeir sem njóta lífeyrisréttinda samkvæmt lögunum frá 2003*. 

Verði kjarasamningum sagt upp þá verður það í boði Alþingis enda er kjararáð skipað af Alþingi og ábyrgðin liggur þar. Það getur ekki talist ásættanlegt að launafólk á vinnumarkaði eigi að móta nýtt samningalíkan til þess að halda aftur af launahækkunum og reyna að tryggja stöðugleika á meðan afmarkaðir hópar í samfélaginu þurfa ekki að fylgja slíku líkani. Það þurfa allir að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins.

Ákvörðun um það hvort samningum verði sagt upp verður tekin í byrjun næstu viku og verður tekin eftir samráð ASÍ við aðildarfélögin.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

* Rétt er að taka fram að það á ekki við um alla alþingismenn þar sem lögunum var breytt aftur 2009.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?