Fréttir frá 2017

02 16. 2017

Staða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

rafidnadarsambandid2

Nú stendur yfir greining á stöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í forsenduákvæðum kjarasamninga sem gerðir voru 2015 var kveðið á um að samningsaðilar gætu sagt kjarasamningum upp miðað við ákveðnar forsendur. Þær forsendur sem tilteknar voru fyrir árið 2017 eru þær að markmið samningsaðila um að auka kaupmátt hafi staðist, það er að segja að kaupmáttur hafi aukist. Jafnframt að launastefna samningsaðila og þær launahækkanir sem á samningunum felast hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.

Fjögurra manna nefnd var skipuð af hálfu aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Sú nefnd mun meta stöðuna í samráði við samninganefnd ASÍ og nefndin mun síðan úrskurða um hvort forsendur hafi staðist. Það er auðvelt að úrskurða um það hvort kaupmáttur launa hafi aukist því það hefur hann svo sannarlega gert en samkvæmt gögnum Hagstofunnar þá hefur kaupmáttur aukist um 7,1% í desember 2016 síðustu 12 mánuði þar á undan. Helsta ástæða svo mikillar aukningar kaupmáttar er sú að laun hafa hækkað samkvæmt kjarsamningum og á sama tíma hefur verðbólga haldist mjög lág.

Varðandi það hvort kjarasamningar hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð þá er ekki búið að greina þá stöðu fullkomlega en það segir sig sjálft að úrskurðir kjararáðs undanfarið ár setja strik í reikninginn því hækkun alþingismanna upp á tæp 45% og hækkun launa hjá embættismönnum og æðstu stjórnendum ríkisstofnanna á síðasta ári eru langt umfram þær launahækkanir sem kjarasamningar kveða á um. RSÍ hefur kallað eftir því að úrskurðirnir verði leiðréttir þannig að þeir fylgi sambærilegri línu og almenningur fær en forsætisnefnd Alþingis hefur örlítið dregið úr hækkunum en sú leiðrétting var í raun langt frá því að duga til.

Frekari frétta verður væntanlega ekki að vænta fyrr en undir lok næstu viku um hver niðurstaða nefndar ASÍ verður um hvort segja eigi kjarasamningum upp eða ekki.

 

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?