asi rautt

Um þriðjungur dekkjaverkstæða neitaði þátttöku í könnun verðlagseftirlits ASÍ þegar kannað var verð á dekkjaskiptum fyrr í vikunni. Eftirfarandi aðilar voru ekki tilbúnir til þess að veita upplýsingar um verð á þeirri þjónustu sem þeir selja neytendum. N1, Dekkjahöllin, Nesdekk, Sólning, Barðinn, Klettur, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Betra grip, Gúmmívinnustofan SP dekk, Bílkó, Kraftbílar og Hjólbarðaþjónusta Magnúsar. 

Dæmi voru um að starfsmenn dekkjaverkstæðanna treystu sér ekki til að gefa upp verð, önnur verkstæði vísuðu starfsfólki verðlagseftirlitsins á dyr og brögð voru af því að þjónustuaðilar vísuðu verðtökufólki á annan stað, svo sem á skrifstofu viðkomandi fyrirtækis, til þess að fá uppgefið verð. Slíkt samræmist ekki þeim sjálfsagða rétti neytenda að fá skýrar og skilmerkilegar upplýsingar um verð vöru og þjónustu á sölustað og gengur alfarið gegn verklagsreglum verðlagseftirlitsins um framkvæmd verðkannana.

Verðlagseftirlit ASÍ leggur ætíð áherslu á að framkvæmd verðkannana og úrvinnsla sé vönduð og í samræmi við verklagsreglur. Reynslan af verðkönnunum hjá dekkjaverkstæðum á undanförunum árum sýnir að það er að jafnaði mikill verðmunur á milli þjónustuaðila og full ástæða er fyrir neytendur að bera saman verð á þjónustunni. Að fyrirtæki neiti fulltrúum neytenda um að safna og birta þessar upplýsingar veldur verðlagseftirlitinu miklum vonbrigðum og vekur eðlilega upp spurningar um hvað slík fyrirtæki hafi að fela. 

Fulltrúum verðlagseftirlitsins var vel tekið hjá eftirfarandi dekkjaverkstæðum og hvetur verðlagseftirlitið neytendur til að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila sem virða sjálfsögð réttindi neytenda á samkeppnismarkaði til að fá verðupplýsingar og gera verðsamanburð:  Vöku, Hjólbarða og smurþjónustunni Klöpp, Bílastofunni, Max 1, Hjólbarðaverkstæði Heklu, Bílabúð Benna, VIP dekk og viðhaldi, Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns, Dekkjahúsinu, Bíljöfri, Mótorstillingu, Bílaverkstæði Jóa, Titancar, Dekkjasölunni, Pústþjónustu BJB, Dekkverki, Kvikkfix, Bifreiðaverkstæði S.B., Hjólbarðaverkstæði Ísafjarðar, Fossdekki, X5, Dekkjasölu Akureyrar, Höldur og Bara snilld/Bón og púst .

Sjá töflu hér.(smella)

fraedsluskrifstofa

 

Því miður var ekki flogið til Ísafjarðar í dag og verður RSÍ Ung því að fresta pöbbquzi sem átti að fara þar fram í kvöld. Nýr tími verður auglýstur fljótlega. 

fraedsluskrifstofa

Í gær, þriðjudaginn 18. október, féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli sem lögmaður RSÍ höfðaði fyrir hönd félagsmanns. Málavextir voru þeir að félagsmaðurinn hafði starfað hjá stofnun sem var í eigu sveitarfélags frá því í byrjun árs 2011. Hann var á launum hjá sveitarfélaginu. Um mitt ár 2015 kom nýr aðili, einkahlutafélag, að rekstrinum með því að samningar voru gerðir um leigu húsnæðis og muna við einkahlutafélag í eigu sveitarfélagsins. Félagsmaðurinn hélt áfram störfum sínum fyrir stofnunina og var gerður nýr ráðningarsamningur. Í honum var ákvæði um að reynslutími væri þrír mánuðir og var félagsmanninum svo sagt upp störfum rétt áður en sá tími var liðinn. Fyrirtækið hélt því þá fram að hann ætti engan uppsagnarfrest, þar sem hann hefði verið á reynslutíma. 

Lögmaður RSÍ fór þá í málið en ekki tókst að ná sáttum. Málið fór því til héraðsdóms og féll dómur í gær og var gengið að öllum kröfum félagsmannsins. Dómurinn byggir á lögum um aðilaskipti (nr. 72/2002) en þau voru sett til þess að vernda starfsmenn þegar nýir aðilar koma að rekstri fyrirtækja. Dómurinn féllst á að um aðilaskipti hafi verið að ræða og réð þar mestu að reksturinn hafði haldið áfram með sambærilegum hætti og að aðilaskipti hafi orðið á efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum, í merkingu laga 72/2002. Þá var einnig tekið fram að í kjarasamningum RSÍ og SA/SART væri enginn reynslutími. Félagsmaðurinn fékk því dæmd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

asi

Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarflokkanna að auka á þann hróplega mismun sem er í lífeyrisréttindum landsmanna með því að hækka lífeyristökualdur í almannatryggingum í 70 ár. Þetta er gert þrátt fyrir að frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda milli launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði hafi verið dregið til baka. Það gengur ekki að ætla almenningi að búa við 70 ára lífeyristökualdur á sama tíma og alþingismenn og opinberir starfsmenn geta farið á fullan lífeyri 65 ára. Það er fráleitt að umræða um aukinn jöfnuð á vinnumarkaði endi með því að stjórnvöld auki verulega á það misrétti sem fyrir er. Verði þetta niðurstaðan er um hrein svik að ræða varðandi jöfnun lífeyrisréttinda og samstillingu almannatrygginga og lífeyrissjóða sem mun valda fullkomnum trúnaðarbresti í samskiptum Alþýðusambandsins og stjórnarflokkanna. Slík svik munu óhjákvæmilega hafa afdrifaríkar afleiðingar. Miðstjórn ASÍ lítur málið alvarlegum augum og mun taka það til sérstakrar umræðu á 42. þingi sambandsins dagana 26.-28. október nk. 

Greinargerð:

Á undanförnum misserum hafa heildarsamtök á vinnumarkaði unnið að gerð nýs samningalíkans á vinnumarkaði með það að markmiði að styðja betur við efnahagslegan stöðugleika og raunverulega kaupmáttaraukningu (Salek). Ein megin forsenda þess að hægt sé að koma á slíku líkani er að jafnræði ríki í lífeyrismálum launafólks enda eru lífeyrisréttindi veigamikill þáttur umsaminna kjara. Í dag eru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna umtalsvert betri en á almennum vinnumarkaði, lífeyrisaldur lægri, réttindaávinnsla jöfn og lífeyrisréttindin tryggð að fullu með bakábyrgð ríkis og sveitarfélaga.  Full samstaða hefur verið um það milli allra heildarsamtaka launafólks á vinnumarkaði að framtíðarskipan lífeyrisréttinda yrði á grundvelli meiri jafnræðis í lífeyrisréttindum, þar sem miðað yrði við aldurstengda réttindaávinnslu og 67 ára lífeyrisaldur í sjálfbæru lífeyriskerfi. Þetta var ein af þremur meginstoðum þess rammasamkomulags, sem lá til grundvallar sameiginlegri launastefnu til loka árs 2018 (Salek). Aðildarfélög ASÍ sömdu sig að þessari niðurstöðu í janúar sl. þegar 3,5% af launahækkunarsvigrúmi var ráðstafað til jöfnunar lífeyrisréttinda og fyrir lá að samtök opinberra starfsmanna yrðu að semja um breytingar á sínu lífeyriskerfi í þessa veru.  Það var því mikið fagnaðarefni þegar samningar tókust milli fjármálaráðherra og sveitarfélaganna við samtök opinberra starfsmanna um breytingar á opinbera lífeyriskerfinu og aðlögun þess að fyrrgreindum markmiðum. Jafnframt er ljóst að öll fjögur heildarsamtök launafólks, ASÍ, BSRB, KÍ og BHM stóðu, bæði á vettvangi Landssamtaka lífeyrissjóða og í nefnd um endurskoðun almannatrygginga, að tillögum um samræmda hækkun lífeyrisaldurs úr 67 árum í 70 ára í áföngum á næstu 24 árum. Í tillögum nefndar um endurskoðun almannatrygginga frá því í vor var lögð áhersla á að ,,samræmi sé milli almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins hvað lífeyrisaldur varðar og að hann sé hinn sami í báðum lögbundnu lífeyriskerfunum.‘‘ Nú þegar fjármálaráðherra hefur ákveðið að draga til baka tillögur um jöfnun lífeyrisréttinda er forsenda fyrir hækkun lífeyristökualdurs í almannatryggingakerfinu brostin. Það eru hrein og klár svik við almennt launafólk að halda þeirri ákvörðun til streitu.  

fraedsluskrifstofa

 

RSÍ Ung heldur Pöbbquiz á Ísafirði fimmtudaginn 20. október og á Akureyri föstudaginn 21. október.

Á Ísafirði verður quizið haldið á Húsinu og hefst kl. 20. 

Á Akureyri verður quizið haldið á Ölstofu Akureyrar og hefst kl. 20.30. 

Keppt verður í 2-4 manna liðum og verðlaun í boði. 

RSÍ Ung er fyrir alla félagsmenn RSÍ sem eru 35 ára eða yngri. 

Sjá nánar á facebook.com/rsiung

vinnuvernd2016 2

Vinnuvernd alla ævi - Ráðstefna Vinnuverndarvikunnar 2016

Vinnuvernd alla ævi (dagskrá)

Ráðstefnan verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 20. október frá kl. 13 - 16

Ráðstefnustjóri: Þórunn Sveinsdóttir, deildarstjóri hjá Vinnueftirlitinu.

Ráðstefnan er öllum opin, aðgangur er ókeypis en skráning nauðsynleg.(skráning hér)

 

Gallup2

Síðustu daga hefur Gallup verið að senda út tölvupósta á félagsmenn sem gefur aðgang inn í launakönnun 2016. Þeir félagsmenn sem ekki eru með skráð netfang í tölvukerfi RSÍ munu fá sendan bréfpóst á lögheimili þeirra. Við hvetjum alla félagsmenn til þess að taka þátt í þessari launakönnun enda nýtast þessar niðurstöður okkur vel í starfsemi okkar, bæði vegna kjarasamninga en ekki síður að heyra viðhorf félagsmanna til þeirrar starfsemi og þjónustu sem við veitum.

Afar mikilvægt er að félagsmenn hafi launaseðil fyrir septembermánuð (sem kom til greiðslu um mánaðarmótin september/október) við höndina og svari spurningum um laun samkvæmt launaseðli.

asi rautt

Alþýðusamband Íslands og BRSB hafa stofnað íbúðafélag sem starfar í nýju íbúðarkerfi sem nú er verið að taka upp hér á landi. Íbúðakerfið byggir á danskri fyrirmynd og verður hagstæður og öruggur valkostur fyrir fólk á leigumarkaði. 

Íbúðafélagið er sjálfseignastofnun sem starfar samkvæmt lögum um almennar íbúðir og er rekin án hagnaðarmarkmiða. Skilyrði er að íbúðirnar verði leigðar út til fólks með lágar- og meðaltekjur.

Íbúðafélagið hefur undirritað viljayfirlýsingu við Reykjavík og Hafnarfjarðabær um lóðir fyrir 1150 íbúðir á næstu 4 árum og mun undirbúningur framkvæmda vegna 180 íbúða hefjast á þessu ári. Samhliða þessum fyrstu skrefum vinnur íbúðafélagið að lausn fyrir sveitafélög á landsbyggðinni. 

Óskað er eftir tillögum um nafn á félagið og er því blásið til nafna samkeppni. Nafnið skal vera þjált í notkun og gefa félaginu jákvæða ímynd. 

Tillögum um nöfn má skila inn fyrir 16. október á netfangið asi@asi.is Frjálst er að senda inn fleiri en eina tillögu. 

Verðlaun kr. 50.000 verða veitt fyrir bestu tillöguna. Ef fleiri en einn leggja til vinningsnafnið verður vinningshafinn dreginn út.

StafirLogoÍ dag voru haldnir aukaársfundir hjá Stöfum lífeyrissjóði og Sameinaða lífeyrissjóðnum þar sem tillögur stjórna sjóðanna um sameiningu sjóðanna voru teknar fyrir hjá hvorum sjóði fyrir sig. Það er skemmst frá því að segja að sameining var samþykkt einróma hjá báðum sjóðum og því var haldinn stofnfundur nýs lífeyrissjóðs í kjölfarið. Á stofnfundi var tilkynnt um nafn nýs sjóðs og var það Birta lífeyrissjóður. Nánari upplýsingar er að finna hér.

Meðfylgjandi er mynd af nýrri sameiginlegri stjórn nýs sjóðs.

Stjorn Birta

Straeto

Í samvinnu við Strætó bs hefur verið tekin upp sú nýbreytni að bjóða nemendum á námssamningi í rafiðngreinum að kaupa strætókort á sömu kjörum og öðrum nemendum á framhaldskólastigi stendur til boða . Þessi kærkomna viðbót gildir fyrir þá nemendur sem eru ekki skráðir í framhaldsskóla en eru klárlega nemendur þar sem þeir eru að uppfylla skilyrði námssamnings.

Þeir sem hafa hug á því að nýta sér þennan möguleika hafi samband við Sigrúnu Sigurðardóttur á skrifstofu Rafiðnaðarsambandsins. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?