Fréttir frá 2016

10 19. 2016

Nýr dómur um aðilaskipti

fraedsluskrifstofa

Í gær, þriðjudaginn 18. október, féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli sem lögmaður RSÍ höfðaði fyrir hönd félagsmanns. Málavextir voru þeir að félagsmaðurinn hafði starfað hjá stofnun sem var í eigu sveitarfélags frá því í byrjun árs 2011. Hann var á launum hjá sveitarfélaginu. Um mitt ár 2015 kom nýr aðili, einkahlutafélag, að rekstrinum með því að samningar voru gerðir um leigu húsnæðis og muna við einkahlutafélag í eigu sveitarfélagsins. Félagsmaðurinn hélt áfram störfum sínum fyrir stofnunina og var gerður nýr ráðningarsamningur. Í honum var ákvæði um að reynslutími væri þrír mánuðir og var félagsmanninum svo sagt upp störfum rétt áður en sá tími var liðinn. Fyrirtækið hélt því þá fram að hann ætti engan uppsagnarfrest, þar sem hann hefði verið á reynslutíma. 

Lögmaður RSÍ fór þá í málið en ekki tókst að ná sáttum. Málið fór því til héraðsdóms og féll dómur í gær og var gengið að öllum kröfum félagsmannsins. Dómurinn byggir á lögum um aðilaskipti (nr. 72/2002) en þau voru sett til þess að vernda starfsmenn þegar nýir aðilar koma að rekstri fyrirtækja. Dómurinn féllst á að um aðilaskipti hafi verið að ræða og réð þar mestu að reksturinn hafði haldið áfram með sambærilegum hætti og að aðilaskipti hafi orðið á efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum, í merkingu laga 72/2002. Þá var einnig tekið fram að í kjarasamningum RSÍ og SA/SART væri enginn reynslutími. Félagsmaðurinn fékk því dæmd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?