Fréttir frá 2016

12 31. 2016

Nýárskveðja formanns RSÍ 2016-17

rafidnadarsambandid2

Nú þegar við kveðjum gamla árið og tökum á móti því nýja er vert að gera árið upp í helstu atriðum en ekki síður að horfa til nýja ársins með bjartsýni í huga. Árið 2016 hefur reynst okkur nokkuð farsælt, við upplifum nú lengsta tímabil lágrar verðbólgu sem við öll höfum upplifað gæti ég trúað. Nú er það svo að eftir 2,8% kjarasamningana árið 2013 og því átaki sem við beittum fyrirtæki, ríki og sveitarfélög pressu til að koma í veg fyrir að þessir aðilar héldu áfram gömlu aðferðinni við að hækka gjaldskrár til samræmis við verðbólgu líðandi árs sem á sama tíma kynnti undir verðbólgubálinu þjóðþekkta. Með átaki okkar tókst að lækka verðbólgu úr rúmum 4% niður undir markmið Seðlabanka Íslands og hefur verðbólgan verið undir því marki alla tíð síðan.

Það eru fleiri þættir sem stuðla að lágri verðbólgu og einn viðamesti þátturinn er að sjálfsögðu gengi íslensku krónunnar sem hefur styrkst á undanförnum árum og er fyrir þó nokkru farin að valda útflutningsfyrirtækjum vandræðum sökum þess hversu sterk krónan er. Verðmæti útflutnings er orðið minna vegna sterkari krónu og innflutningur á vörum hefur aukist vegna sömu aðstæðna. Haldi þessi þróun áfram má gera ráð fyrir lágri verðbólgu áfram þrátt fyrir nokkrar hækkanir á vörum og þjónustu hér á landi en við þekkjum hins vegar þá stöðu að auðvelt er að fella gengi krónunnar til að bæta stöðu útflutningsgreina, telji ráðamenn að svo þurfi að gera. Stöðugt gengi er okkur mikilvægt bæði í uppsveiflu sem og niðursveiflu. 

Í febrúar fer fram mat á stöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði en ákvörðun um hvað skuli gera verður tekin á sameiginlegu borði samninganefndar ASÍ. Í gildandi kjarasamningum kemur fram að ein forsenda þess að mögulegt verði að segja kjarasamningum upp er að ef aðrir kjarasamningar hafi ekki fylgt þeirri línu sem lögð var. Opinberir starfsmenn ákváðu að fylgja þessari línu og gengu frá samkomulagi við fjármálaráðherra um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna sem síðan varð að lögum á Alþingi skömmu fyrir jól. Deilur virðast vera uppi um innihald þessa samkomulags og telja samtök opinberra starfsmanna lögin ekki vera til samræmis við samkomulagið. Við erum ekki aðilar að því samkomulagi þannig að ómögulegt er fyrir okkur að greina málið en mikilvægt er að ná þeim stóra áfanga að lífeyrisréttindi verði jöfnuð með tíð og tíma.

Takist að fylgja rammasamkomulaginu eftir sem oft er kallað SALEK samkomulag þá fylgja því mikil verðmæti fyrir þjóðina, sé það rétt gert. Með því að tryggja aukningu kaupmáttar með lágri verðbólgu til framtíðar eru augljóst að það hagnast allir á því. Taxtalaunahópar á almennum vinnumarkaði sem og hópar opinberra starfsmanna eiga að njóta hluta af því launaskriði sem verður á almennum vinnumarkaði, markaðslaunahópunum. Þetta þarf að útfæra nánar en þýðir í raun að þessir aðilar ættu að fá launakjör sín tengd við launavísitölu.

Með tengingu taxtalaunahópa við vísitölu á að vera hægt að tryggja aukna sátt til lengri tíma enda kæmi það í veg fyrir að launakjörin dragist aftur úr markaðnum. En nánari útfærsla á þessu liggur ekki fyrir en augljóst að framkvæmdin þarf að vera gerð með réttum hætti. Það er mikilvægt að allir njóti sömu gæða í framtíðinni, að laun hækki sem mest að sjálfsögðu en jafnframt að það sé ekki eingöngu efsta lagið í samfélaginu sem hækki langt umfram þá sem sitja fastir á lægri launum.

Árið 2017 verður því áhugavert í marga staði en það er alls ekki sjálfgefið að kjarasamningar haldi gildi sínu því enn hafa alþingismenn ekki tekið á úrskurði kjararáðs þar sem laun þeirra voru hækkuð allverulega og geta ekki verið til þess fallin að tryggja sátt um hækkunina í samfélaginu. Geti laun alþingismanna hækkað um 45% á einu bretti þá spyrja allir aðrir hópar hvort ekki sé hægt að hækka laun þeirra með sama hætti enda ekkert óeðlilegt að þeirri spurningu sé varpað fram. Fram kom í máli fjármálaráðherra í ræðu á Alþingi að mögulegt væri að tekið yrði á þeim aukagreiðslum sem alþingismenn njóta sem koma til greiðslu umfram hefðbundin "laun". Verði það gert þá er augljóst að úrskurður kjararáðs gæti mögulega staðið en það verður að koma í ljós á fyrstu vikum nýs árs hvað verður.

Í starfi RSÍ og aðildarfélaga er ýmislegt í gangi sem sést mögulega ekki að öllu jöfnu en á árinu 2017 verður haldin keppni iðn- og verkgreina hér á landi en þar verður keppt í rafvirkjun og rafeindavirkjun. Þeir skólar sem kenna okkar iðngreinar geta sent keppendur á mótið en markmiðið er að auglýsa betur okkar greinar, sem og aðrar iðngreinar. Verkiðn stendur fyrir þessum keppnum og á RSÍ mjög öflugan fulltrúa í stjórn Verkiðnar sem jafnframt er formaður stjórnar, Björn Ágúst hefur sinnt þessu verkefni einstaklega vel. Í byrjun desember síðastliðnum var sendur fulltrúi rafvirkja á Evrópukeppni iðngreina, EuroSkills, sem haldið var í Gautaborg í Svíþjóð. Keppandi okkar, Bjarni Freyr, stóð sig einstaklega vel og hafnaði í fjórða sæti sem er besti árangur íslensks keppandi frá því að Ísland hóf að taka þátt í Evrópu sem og heimskeppninni. Þar að auki náðu þrír íslenskir keppendur því marki að fara yfir 500 stig sem jafnframt hefur ekki tekist fyrr. Frábær árangur.

Í lok apríl verður haldinn árlegur sambandsstjórnarfundur RSÍ þar sem stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar auk þess sem mögulegt er að gera stærri breytingar á reglugerðum sjóða RSÍ. RSÍ veitir jafnframt veglegan styrk á þeim tímapunkti til góðra málefna og leitumst við ætíð við að styðja við mál í nærumhverfinu þar sem fundurinn er haldinn hverju sinni. Að þessu sinni verður fundurinn haldinn á Vesturlandi. 

Fjölskylduhátíð RSÍ verður á sínum stað auk þess sem H-eldri félögum aðildarfélaga RSÍ verður boðið í ferð. Þessir viðburðir verða auglýstir sérstaklega þegar nær dregur. Það má gera ráð fyrir því að haldnir verði félagsfundir fyrrihluta ársins víðsvegar um landið en félagsmenn eru jafnframt hvattir til þess að hafa samband við skrifstofuna hafi þeir óskir um sérstaka félagsfundi, hvort sem það er á vinnustað eða fundir sem haldnir eru með öðrum hætti. Árið 2017 verður mikill kraftur settur í að efla eftirmenntunarkerfi okkar rafiðnaðarmanna enda afar mikilvægt fyrir okkur sem störfum í ört vaxandi og síbreytilegum iðnaði að fylgja nýjustu tækni og þar þarf eftirmenntunarskólinn okkar að vera í fremstu röð.

Við stefnum að því að hefja endurbætur á orlofshúsi okkar á Einarsstöðum á Héraði í vetur en það er háð verkefnastöðu fyrir austan og aðgengi að iðnaðarmönnum til að vinna verkið. Nú á að breyta húsunum og stækka þau enda eru húsin orðin gömul og hafa ekki haldið í við þá þróun sem orðið hefur í orlofshúsum.

Án þess að telja upp öll verkefni þá er ljóst að nýtt ár verður spennandi og berum við miklar væntingar til þess að árið verði okkur hagstætt en það verður þó að viðurkennast að tilfinning mín til stöðunnar er nokkuð blendin. Ég upplifi lok ársins 2016 sem svipað ár og árið 2007 var. Það er skortur á starfsmönnum, sérstaklega iðnaðarmönnum, verkefnastaða er þannig að mikið þensluástand er hér á landi. Við þurfum því að vera vakandi fyrir stöðunni og reyna að dempa ástandið með einhverjum hætti. Við munum ekki fara í aðra kollsteypu líkt og árið 2008 en við þurfum að vera varkár.

Ég óska félagsmönnum aðildarfélaga RSÍ, fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs. Ég vona að okkur takist að nýta samstöðu krafta okkar sem við sáum svo vel í fótboltanum síðastliðið sumar til þess að halda áfram að byggja upp réttlátara samfélag, við höfum svo sannarlega verk að vinna þar. Gerum árið 2017 gott fyrir okkur öll.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

 

Fylgist með nýjustu fréttum af starfi RSÍ á Fésbókinni með því að líka við síðuna (e. Like), www.facebook.com/Rafidnadarsamband.Islands

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?