Fréttir frá 2016

11 15. 2016

Sterk króna skilar sér ekki til neytenda

asi

Sterk staða krónunnar undanfarin misseri hefur skilað sér illa til neytenda í formi lægra vöruverðs á mörgum innfluttum vörum. 

Gengi krónunnar hefur styrkst um 12% síðan í október 2015 og um 18% ef litið er tvö ár aftur í tímann, til haustsins 2014. Þetta hefur þær afleiðingar að talsvert ódýrara er orðið fyrir íslenska neytendur að versla vörur í útlöndum og eins er orðið ódýrara fyrir verslanir og þjónustuaðila að flytja inn vörur. 

Í töflunni hér að neðan sést hvernig verðlag einstakra vöruflokka í undirvísitölum neysluverðs hefur þróast samkvæmt mælingum Hagstofunnar undanfarin tvö ár. Gengisstyrkingin virðist skila sér með nokkuð misjöfnum hætti og dæmi eru um að innfluttar vörur hafi hækkað eða lækkað lítið í verði þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar.

 

Breyting frá okt. 2014

Breyting frá okt. 2015

Lítil heimilisraftæki

0,28%

2,14%

Húsgögn og heimilisbúnaður

2,82%

1,88%

Viðhald efni

1,54%

1,01%

Stór heimilistæki

-17,27%

-2,52%

Bensín

-16,98%

-2,86%

Innfluttar mat- og drykkjarvörur

-1,54%

-3,03%

Bílar

-6,51%

-3,68%

Bílavarahlutir

-11,64%

-5,17%

Föt og skór

-6,63%

-5,55%

Sjónvörp, myndbönd, tölvur o.fl.

-13,47%

-6,08%

Auk gengisstyrkingar var almennur virðisaukaskattur lækkaður úr 25,5% í 24%  í upphafi árs 2015 og vörugjöld afnumin m.a. af stórum heimilistækjum, sjónvörpum, bílavarahlutum og byggingavörum. Við upphaf árs 2016 voru svo tollar afnumdir af fötum og skóm. Verðlækkun ætti því að eiga sér stað á þessum mörkuðum af tvennum ástæðum, sökum sterkara gengis og afnámi gjalda.

Taflan sýnir að stór heimilistæki hafa lækkað um 17% síðan í október 2014 og má því gera ráð fyrir að þar hafi afnám vörugjalda haft áhrif, sömu sögu má segja um bílavarahluti og sjónvörp. Sé hins vegar litið á vöruflokkinn Viðhald efni sem inniheldur margskonar byggingarvörur kemur mjög á óvart að verð á þessum vörum hefur hækkað um 1,5% á síðustu tveimur árum. Þar voru vörugjöld afnumin í upphafi árs 2015 sem ætti eitt og sér að skila sér í lægra vöruverði líkt og hjá hinum vöruflokkunum, ásamt því sem 18% gengisstyrking ætti að hafa einhver áhrif. Verðlagseftirlit ASÍ hefur fyrr í haust gert þetta að umfjöllunarefni sínu.

Verð á fötum og skóm hefur lækkað um 5,6% síðan í október 2015 en eins og Verðlagseftirlit ASÍ hefur áður bent á, voru tollar af fötum og skóm afnumdir í upphafi árs 2016 en áætlað var að það afnám eitt og sér ætti að skila 7-8% verðlækkun á þessum vöruflokki auk áhrifa af sterkara gengi. Ljóst er að sú verðlækkun hefur ekki skilað sér til neytenda. 

Húsgögn og lítil heimilisraftæki hafa hækkað í verði á undanförnu ári um 2%. Ástæður þessa eru óljósar en þar sem hér er fyrst og fremst um innfluttar vörur að ræða ætla mætti að mikil gengisstyrking hefði átt að skila sér í lægra verði til neytenda. 

Niðurstaðan er sú að neytendur virðast víða eiga inni verðslækkun á innfluttum vörum. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?