Fréttir frá 2016

07 1. 2016

Ákvörðun kjararáðs taktlaus

rafidnadarsambandidNýjasta útspil kjararáðs þar sem laun ráðuneytisstjóra hækka um 40% eða jafnvel töluvert meira er virkilega taktlaus og mun að öðru óbreyttu hafa veruleg áhrif við mat á forsendum kjarasamninga sem mun fara fram í febrúar á næsta ári. Það verður þó að teljast mjög líklegt að stjórnvöld, ríkisstjórnin, grípi inn í þessa ákvörðun enda er hún algjörlega úr takti við það sem almenningur hefur fengið að kynnast á síðustu mánuðum og árum. 

Verði ekkert að gert má telja afar líklegt að verkalýðsfélög innan ASÍ muni líta svo á að forsendur kjarasamninga séu brostnar enda er það grundvallarforsenda í þeirri vinnu sem unnin hefur verið við gerð kjarasamninga að skipting í samfélaginu verði jafnari og að hátekjuhópar sem þessi fái ekki sífellt meiri launahækkanir en þeir sem eru lægra launaðir.

Við vitum það vel að taxtalaunahópar hækkuðu nokkuð umfram það sem almennt gerðist í almennum launahækkunum en þar var verið að hækka lágmarkslaun umfram almennar launahækkanir en að efra lagið í launastiganum sé að taka sér slíkar hækkanir launa sem raun ber vitni í þessari ákvörðu kjararáðs er óásættanlegt. Þær hækkanir voru samt sem áður ekki nálægt umræddri hækkun sem kjararáð ákvað nú.

Miðstjórn RSÍ mótmælti harðlega ákvörðun kjararáðs fyrr á þessu ári þegar kjararáð ákvað að hækka laun dómara langt umfram það sem þekktist á markaði. Á þeim tíma var jafnframt bent á að sú ákvörðun myndi hrinda af stað hækkunum á launum efsta lags opinberra starfsmanna/stjórnenda. Nú er það orðið raunin og afar brýnt er að ríkisstjórnin snúi þessari vitleysu við vilji þeir tryggja frið á vinnumarkaði áfram.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?