Fréttir frá 2016

03 16. 2016

Staðan í Straumsvík

VerkfallshnefiKjaradeilan í Straumsvík tekur nýja stefnu þegar kröfur ISAL/Rio Tinto og Samtaka atvinnulífsins (SA) breytast og skilgreina enn betur við hvaða "borð" fyrirtækið vill sitja. ISAL hefur reynt að halda því fram að fyrirtækið hafi ekki heimild til þess að nýta verktaka til að leysa verkefni innan girðingar hjá fyrirtækinu (þó eru nokkrir tugir verktaka við störf innan girðingar á hverjum degi og jafnvel þúsundir innan Hafnarfjarðar samkvæmt bæjarstjórn). Vísa þeir þar í yfirlýsingu í kjarasamningnum þar sem skilgreint er til hvaða starfa kjarasamningur verkalýðsfélaganna nær til.

Kjarasamningurinn nær til þeirra starfa sem unnin eru innan girðingar hjá ISAL, rétt eins og almennir kjarasamningar hér á landi ná til launafólks í viðkomandi grein. Kjarasamningur RSÍ við SA / Samtök rafverktaka (SART) nær til allra starfsmanna sem vinna við rafiðnað hér á landi og setur öll lágmarksviðmið á landinu. Það getur ekkert fyrirtæki valið sér að sniðganga þennan kjarasamning telji þeir hann of "góðan". Fyrirtækin eru bundin af því að fylgja ákvæðum hans, hins vegar geta fyrirtæki gert sérkjarasamninga við viðkomandi verkalýðsfélag um störf hjá viðkomandi fyrirtæki. Samsetning launa og réttindaákvæði eru þá samt sem áður alltaf betri í heildina en almennur kjarasamningur segir til um.

ISAL kjarasamningurinn var því gerður á sínum tíma til að tryggja ISAL stöðugleika í mannahaldi og tryggja gott aðgengi að starfsmönnum. ISAL vildi tryggja að fyrirtækið héldi í starfsfólk og að verkföll á almennum vinnumarkaði hefðu ekki áhrif á reksturinn þar innan girðingar. Því gerði fyrirtækið kjarasamning við verkalýðsfélögin og tryggðu jafnframt að þau störf sem eru í verktöku, eins og kerviðgerðir, yrðu jafn vel launuð og starfsmenn ISAL voru á þeim tíma. Þar var gerður sérstakur kjarasamningur um þau störf einnig til að tryggja frið á svæðinu.

Nú vill ISAL losa sig út úr verndun kjarasamnings ISAL og fá að nýta verktaka til þess að sinna enn fleiri störfum en í dag er. ISAL vill ekki tryggja starfsmönnum verktaka sambærileg laun heldur eiga starfsmenn verktaka sætta sig við að vera 19-40% lægri en starfsmenn ISAL og dansa þar á lágmarkslaunum. Iðnaðarmenn myndu vera um 19 - 24% lægri væru þeir utan "girðingar". 

En dugir það ISAL?

NEI, ISAL vill jafnframt að fyrst þeir ætla að greiða starfsmönnum verktaka þessi laun (19 - 40% lægri og án allra réttinda sem ISAL samningurinn kveður á um) þá megi starfsmenn verktakanna ekki njóta verkfallsréttarins! Grundvallarréttar launafólks! Fyrir 19 - 24% lægri laun þá þurfi starfsmenn að afsala sér verkfallsheimild með því að binda friðarskyldu viðkomandi verktaka.

ISAL vill sem sagt sitja við sitt eigið borð, svo maður noti þeirra orðalag, þeir vilja eiga kökuna og éta hana sjálfir EN ekki nóg með það þá ætla þeir að láta bakarann baka hana án þess að greiða nokkuð fyrir bakstur eða efnið. ISAL vill sitja við einstakt borð á kostnað launafólks! Ekkert fyrirtæki situr við borð eins og ISAL vill sitja við án þess að greiða fyrir það með skýrum hætti.

Það er greinilegt að ISAL/Rio Tinto sem og Samtök atvinnulífsins vilja lækka laun og draga úr réttindum launafólks hér á landi!

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?