Fréttir frá 2016

03 10. 2016

Mikill verðmunur er á páskaeggjum í ár

asi

Allt að 57% verðmunur er á páskaeggjum í ár. Algengast var að sjá á bilinu 20-40% mun á hæsta og lægsta verði páskaeggja að því er fram kemur í nýrri verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu í gær 9. mars. Flest páskaeggin í könnuninni voru fáanleg hjá Fjarðarkaupum og Hagkaupum en fæst hjá Samkaupum-Úrval og Nettó. 

Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 20 af þeim 34 eggjum sem skoðuð voru. Hæsta verðið í könnuninni var oftast hjá Hagkaupum og Samkaupum-Úrval eða á 14 páskaeggjum af 34 og hjá Iceland á 10 eggjum. Benda má neytendum á að í næstum öllum þeim tilvikum sem eggin voru til bæði hjá Bónus og Krónunni er krónu verðmunur, þ.e.a.s. að eggin hjá Bónus eru 1 kr. ódýrari en hjá Krónunni.  

20-40% verðmunur á hæsta og lægsta verði
Oftast var um 20-40% verðmunur á hæsta og lægsta verði páskaeggjanna í könnuninni. Sem dæmi má nefna að 27% verðmunur var á 450 g. páskaeggi frá Góu sem var ódýrast á 1.495 kr. hjá Krónunni en dýrast á 1.898 kr. hjá Samkaupum-Úrval sem er 403 kr. verðmunur. Þá var 30% verðmunur á 530 g. draumaeggi frá Freyju sem var ódýrast á 2.198 kr. hjá Bónus en dýrast á 2.849 kr. hjá Hagkaupum sem er 651 kr. verðmunur.  Nóa Síríus 535 g. Nóa kropps páskaegg var ódýrast á 2.399 kr. hjá Krónunni en dýrast á 3.199 kr. hjá Iceland sem er 33% verðmunur. 

Minnstur verðmunur í könnuninni var á Freyju desert eggjum 6 stk. sem voru ódýrust á 648 kr. hjá Fjarðarkaupum en dýrust á 689 kr. hjá Hagkaupum sem er 6% verðmunur. Mestur verðmunur að þessu sinni var 57% á Nóa Síríus páskaeggi nr. 3 sem var ódýrast á 759 kr. hjá Bónus en dýrast á 1.189 kr. hjá Hagkaupum sem er 430 kr. verðmunur. 

Sjá nánar niðurstöður í töflu (smella hér)

Verðkönnunin tók til algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.

Könnunin var gerð miðvikudaginn 9.mars í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Hagkaupum, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali og Víði.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?